Flýtilyklar
Fótbolti
- KA - Fram 3-0 (7. maí 2016), mörkin
Mörkin úr leik KA og Fram í fyrstu umferð Inkasso deildarinnar sem fram fór á KA-velli þann 7. maí 2016. KA sigraði 3-0 en mörk liðsins gerðu þeir Elfar Árni Aðalsteinsson, Aleksandar Trninic og Almarr Ormarsson.
- Almarr kominn heim
KA-varpið fékk Almarr Ormarsson í örlítið viðtal við undirskrift þriggja ára samnings þann 3. febrúar 2016.
- KA fótboltasumarið 2015
Hér má sjá nokkur tilþrif með knattspyrnuliði KA sumarið 2015. KA fór í úrslitaleik Lengjubikarsins, undanúrslit Borgunarbikarsins og endaði að lokum í 3. sæti 1. deildar. Þá voru stuðningsmenn liðsins magnaðir í sumar þar sem Schiöthararnir fóru fremstir í flokki.
Lið KA sumarið 2015:
Archange Nkumu, Atli Sveinn Þórarinsson, Baldvin Ólafsson, Benjamin James Everson, Bjarki Þór Viðarsson, Callum Williams, Davíð Rúnar Bjarnason, Elfar Árni Aðalsteinsson, Fannar Hafsteinsson, Gauti Gautason, Halldór Hermann Jónsson, Hilmar Trausti Arnarsson, Hrannar Björn Steingrímsson, Ívar Sigurbjörnsson, Ívar Örn Árnason, Josip Serdarusic, Jóhann Helgason, Juraj Grizelj, Orri Gústafsson, Ólafur Aron Pétursson, Pétur Heiðar Kristjánsson, Srdjan Rajkovic, Úlfar Valsson, Ýmir Már Geirsson og Ævar Ingi Jóhannesson.Þjálfarar:
Bjarni Jóhannsson og Srdjan TufegdzicLag: Áfram KA menn eftir Bjarna Hafþór Helgason
Flytjandi: Eyþór Ingi Gunnlaugsson
- KA - Valur 1-1, 3-5 víti (29. júlí 2015) Borgunarbikar undanúrslit
KA tók á móti Val í undanúrslitum Borgunarbikars karla þann 29. júlí 2015. 1. deildarlið KA hafði áður slegið út Breiðablik og Fjölni sem eru toppbaráttulið í Pepsi deildinni en þrátt fyrir það voru Valsmenn þó taldir líklegri til að fara áfram.
Þetta var fjórða viðureign liðanna í bikarkeppni KSÍ og höfðu allir þrír leikirnir farið í framlengingu, KA sigraði í framlengingu árið 1984, Valsmenn urðu bikarmeistarar 1992 eftir sigur á KA í úrslitum eftir framlengingu og þá sigruðu Valsarar viðureign liðanna í bikarnum 2009 eftir framlengingu. Það mátti því búast við að leikurinn yrði lengri en 90 mínútur.
Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins strax á 6. mínútu úr vítaspyrnu eftir að hann hafði verið felldur í teig Valsmanna. Gestirnir jöfnuðu hinsvegar metin á 22. mínútu þegar Orri Sigurður Ómarsson skoraði eftir klafs í teig KA manna. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma en KA menn áttu að fá vítaspyrnu á 48. mínútu þegar boltinn fór greinilega í hönd Ian Williamson í vörn Vals en ekkert var dæmt.
Fátt markvert gerðist í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Eftir mikinn hasar þá skipti klúður Josip Serdarusic sköpum og Valsmenn fögnuðu sigri og fara áfram í úrslitaleikinn.
Myndefni fengið úr útsendingu Stöð 2 Sport
- Glæsimark Andra Fannars gegn Þór 2009
Akureyrarliðin KA og Þór hafa oft barist á knattspyrnuvellinum og eru leikir liðanna alltaf líflegir og fjörugir. Andri Fannar Stefánsson skoraði stórglæsilegt mark fyrir KA í 2-0 sigri KA á Þór á Akureyrarvelli þann 15. maí 2009 og er markið líklega það glæsilegasta sem sést hefur í rimmu liðanna.
- KA Íslandsmeistari í knattspyrnu 1989
KA varð Íslandsmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögu félagsins árið 1989. FH var með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina en tapaði fyrir botnliði Fylkis 1-2 á sama tíma og KA sótti 0-2 sigur til Keflavíkur. KA endaði því á toppnum og varð Íslandsmeistari en liðið var með flest stig í deildinni sem og bestu markatöluna og var því sanngjarn sigurvegari Íslandsmótsins.
Örn Viðar Arnarson skoraði fyrra mark KA á 13. mínútu áður en Jón Ríkharð Kristjánsson innsiglaði sigurinn með marki á 87. mínútu.
Lið KA þurfti að bíða eftir bikarnum en hann þurfti að keyra frá Hafnarfirði til Keflavíkur en gleðin var mikil þegar bikarinn fór loks á loft.
Erlingur Kristjánsson (fyrirliði), Þorvaldur Örlygsson, Stefán Gunnlaugsson (formaður knattspyrnudeildar) og Guðjón Þórðarson (þjálfari) voru svo teknir í viðtal eftir að titilinn var í höfn.
Íslandsmeistaralið KA 1989:
Árni Þór Freysteinsson, Gauti Laxdal, Jónas Þór Guðmundson, Erlingur Kristjánsson, Haukur Bragason, Ægir Dagsson, Stefán S. Ólafsson, Þorvaldur Örlygsson, Guðjón Þórðarson þjálfari, Árni Hermannsson, Halldór Halldórsson, Bjarni Jónsson, Steingrímur Birgisson, Halldór Kristinsson, Jón Kristjánsson, Örn Viðar Arnarson, Anthony Karl Gregory, Jón Grétar Jónsson, Ormarr Örlygsson og Arnar Bjarnason.
- KA - Álftanes 4-0 (2. júní 2015) Borgunarbikar
KA tók á móti Álftanesi í 32-liða úrslitum Borgunarbikars KSÍ þann 2. júní 2015 á KA vellinum. Leikmenn Álftanes stóðu sig vel í fyrri hálfleik og héldu jafnri stöðu, 0-0, þegar flautað var til hálfleiks. KA mönnum tókst þó loks að skora í síðari hálfleik með marki Ævars Inga Jóhannessonar á 49. mínútu (er reyndar ekki sýnt). Orri Gústafsson skoraði svo á 73. mínútu og kom KA í 2-0. Ólafur Aron Pétursson skoraði svo á 75. mínútu áður en að Ben Everson kláraði leikinn 4-0 með marki á 85. mínútu.
Mark Ólafs Arons var sérlega glæsilegt úr aukaspyrnu og má sjá aftur hægt í lok myndbandsins.