Flýtilyklar
ÍBA-liðið skiptist upp
ÍBA-liðið skiptist til uppruna síns
Í öndverðum október 1974 tapaði ÍBA fyrir Víkingi og var þar með fallið í 2. deild. Á nýjan leik upphófust umræðurnar frá 1971 um örlög ÍBA-liðsins, átti að skipta því til uppruna síns eða halda baráttunni áfram? Lengi vel virtist niðurstaðan ætla að verða sú sama og 1971. Mönnum óx í augum kostnaðurinn við að standa straum af tveimur knattspyrnuliðum og æfingaaðstaðan var ekki slík að hún fullnægði þörfum eins meistaraflokksliðs hvað þá tveggja. Að auki óttuðust sumir að ef kæmi til skiptingar gæti annað félagið orðið svo sterkt að hitt myndi jafnvel líða undir lok eða í besta falli verða að draga mjög saman seglin.
Þegar leið að lokum ársins 1974 virtist einsýnt að engin breyting yrði næsta sumar á þátttöku Akureyringa í Íslandsmótinu í knattspyrnu. Formaður ÍBA, Ísak Guðmann, hafði ítrekað reynt að fá við því skýr svör frá Þórsurum hvort þeir ætluðu að halda samvinnunni áfram, en ekki tekist. Varla var hægt að líta öðruvísi á en að þögnin jafngilti samþykki. Ísak Guðmann tilkynnti því um þátttöku ÍBA í deildarkeppninni 1975, fáeinum dögum áður en frestur til skráningar rann út í árslok 1974. En í herbúðum Þórs var mönnum ekki rótt og 27. Janúar 1975 boðuðu þeir Ísak loks á fund. Niðurstaða hafði fengist, Þór ætlaði, í fyrsta sinnið í sögu félagsins, að senda lið í deildarkeppni KSÍ í eigin nafni. Dagar knattspyrnuliðs ÍBA voru taldir.
Þessi frétt kom sem þruma úr heiðskíru lofti fyrir KA. Tilkynningarfrestur um þátttöku í Íslandsmótinu var runninn út og búið var að skrá ÍBA til keppninnar. Þrátt fyrir þennan skamma fyrirvara átti KA lið í 3. deild sumarið 1975.
Ekki var laust við að Þórsarar væru litnir hornauga vegna framkomu þeirra í þessu máli. „[Það hefði] verið lágmarkskurteisi af stjórn Þórs að tilkynna KA fyrr um ákvörðun sína um að hætta samvinnunni við þá,“ lét Ísak Guðmann hafa eftir sér í Íslendingi þann 6. febrúar.
Því verður ekki neitað að framkoma Þórsara í þessu máli var ámælisverð en framhjá hinu verður ekki gengið að einmitt vegna ÍBA-liðsins var knattspyrnan í félögunum sjálfum að líða undir lok. Ungir og upprennandi knattspyrnumenn fengu fá tækifæri til að reyna sig og þjálfun yngri knattspyrnumanna var í molum. En það var einmitt fyrir starf vestur-þýska þjálfarans Heinz Marotzke, sem fyrst þjálfaði Akureyrska fótboltamenn árið 1957 og aftur 1960, að grunnurinn að velgengni ÍBA-liðsins var lagður. Marotzke lagið mikla rækt við þjálfun unglinganna og byggði æfingar sínar á knatttækni. Sá maður sem náð hefur bestum árangri með Akureyrarlið til þessa, KA-félaginn Einar Helgason, lét sér heldur ekki sjást yfir mikilvægi unglingaþjálfunarinnar. Jafnframt því að annast meistaraflokk ÍBA þjálfaði hann lengi marga af yngri flokkum KA.
Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar yngri íþróttamennirnir eru vanræktir, fyrr eða síðar hlýtur slíkt athæfi að hefna sín. Aðspurður um gengisleysi ÍBA í knattspyrnunni eftir sumarið 1974 svaraði formaður KA, Haraldur Sigurðsson, stutt og laggott:
„Ég held að ástæðan fyrir öldudal knattspyrnunnar hér sé vanræksla á þjálfun unglinganna, en þjálfun þeirra hefur verið vanrækt síðan þeir Einar Helgason og Kári Árnason hættu.“
Þá varð það til að bæta gráu ofan á svart að aðeins var um tvo æfingavelli að ræða í bænum fyrir drengina, moldarvöllinn við Hólabraut og Sanavöllinn. Um báða þessa velli má hafa mörg orð en fá fögur. Það segir kannski stærsta sögu að 1973 var byrjað að bóla á því að dómarar neituðu að dæma leiki á völlunum tveimur vegna ásigkomulags þeirra.
Enn er eitt atriði ótalið sem olli kannski hvað mestum afföllum í knattspyrnuflokkum félaganna. Þegar piltarnir tóku að stálpast gleymdust þeir nefnilega svo til alveg og fengu engin verkefni að glíma við. Það var varla að 2. flokki og meistaraflokki væri boðið upp á æfingatíma og yngri mönnum fannst sumum hverjum að ÍBA-liðið væri orðið karlaklúbbur sem helst mætti ekki hleypa neinum af yngri kynslóðinni inn í. Ástandið var orðið þannig hjá KA 1974, að meistaraflokkur félagsins spilaði einn leik allt sumarið. Engar upplýsingar er að hafa um fjölda leikja í 2. og 1. flokki, enda hafa þeir líklegast ekki verið fleiri en hjá meistaraflokksmönnum.
Að öllu þessu athuguðu og í ljósi seinni tímans veðrur því ekki annað sagt en að læðupokaháttur Þórsara í loks árs 1974 og byrjun 1975 og þeir atburðir sem fylgdu í kjölfarið hafi verið eitt heilladrýgsta skrefið sem stigið hefur verið í íþróttamálum Akureyringa.
Jakob Jakobsson og ÍBA
Ef Þórsara hefði rennt grun í hvað þeir voru að láta helstu andstæðingum sínum í té þegar samdráttur Jakobs Gíslasonar, eins stofnanda félagsins, og Matthildar Stefánsdóttur, gallharðrar KA-konu og systur Hermanns Stefánssonar, hófst, er lítill vafi á því að þeir hefðu gripið til örþrifaráða til að stía unga parinu í sundur. Sem betur fer hófst enginn slíkur undirróður, ungmennin náðu saman, giftust og Jakob byrjaði að leika knattspyrnu með KA og Matthildur henti gaman að því að hún hefði stungið laglega undan Þórsurum.
Í fyllingu tímans eignuðust hjónin fjóra drengi, Hauk, Gunnar, Jakob og Jóhann. Þrír bræðranna áttu eftir að verða máttarstólpar KA og ÍBA en sá fjórði, Gunnar, fór ungur til sjós en náði þó engu að síður að verða Norðurlandsmeistari með KA.
Elstu drengurinn, Haukur, byrjaði snemma að sækja Kallatúnið svokallaða með vini sínum og jafnaldra Guðmundi Guðmundssyni. Túnið var umkringt stórbyggingum á þrjá vegu, að norðan var mikill braggi byggður af erlendum hermönnum í seinna stríði, Hótel Norðurland var að austan og veiðarfærageymsla Leós Sigurðssonar að sunnanverðu. Núna má finna Borgarbíó og Búnaðarbanka Íslands á þessum slóðum. Túnið var kennt við eiganda þess, Karl Friðriksson, sem byggði Hótel Norðurland og síðar húsið sem árið 1968 var fært til og sett niður við KA-svæðið á Brekkunni.
Það merkilega við Kallatún, sem nú er að mestu horfið undir götur, bílastæði og hús, var að þar léku fimm verðandi landsliðsmenn knattspyrnu, Guðmundur, haukur og bróðir hans Jakob, Jón Stefánsson og Kári Árnason.
Jakob byrjaði snemma að nauða í bróður sínum um að taka sig með í fótboltann. En Haukur sem var fimm árum eldri, þóttist vit að 4 ára snáðinn myndi bara verða til trafala. Að lokum fann guttinn ráð sem hreif. Jakob, faðir drengjanna, var áhaldavörður fyrir KA og geymdi meðal annars tvo fótbolta sem félagið átti. Nú komst „útskúfaði“ sonurinn að því að eldri bróðir hans og Guðmundur stálu alltaf öðrum boltanum þegar þeir fóru inn á Kallatún. Hann greip tækifærið gefins hendi og hótaði að leysa frá skjóðunni fengi hann ekki að vera með. Og Jakob hafði sitt fram. Hitt var svo annað mál að faðirinn vissi af boltahvarfinu og hvernig á því stóð en hann sá í gegnum fingur sér við piltana, vildi ekki spilla ánægju þeirra af leiknum. Þvert á móti hvatti hann þá áfram, útvegaði þeim efni í mörk og þegar hann sjálfur fór á æfingar niður á KA-völl tók hann piltana með. Á leiðinni þurftu þeir yfir stórt og mikið tún sem nú er grasvöllurinn við Hólabraut. Þá voru þar iðulega hross á beit og hrossataðshrúgur á víð og dreif. Í stað þess að ergja sig yfir taðinu færði Jakob sér það í nyt og lét piltana rekja bolta á milli hrúganna. Um miðja vegu var girðing og sem fyrr var Jakob slyngur að notfæra sér vegatálma. Þrautin, sem hann lagði fyrir piltana var sú að sparka knettinum yfir girðinguna en þó ekki fastar en svo að þeir gætu sjálfir snarast undir eða yfir hana og tekið á móti boltanum áður en hann náði að koma við jörðina á nýjan leik.
Þegar kom á völlinn fengu drengirnir að leika sér með bolta á tennisvellinum vestan fótboltavallarins á meðan „karlarnir“ voru að skipta um föt. Þegar leikurinn var hafinn stóðu þeir fyrir aftan mörkin og lofuðu framhjáskotin mest því þá gafst þeim færi á að sparka knettinum til baka.
Árin liðu og piltarnir byrjuðu að spila með meistaraflokki KA og ÍBA. Jakob gekk menntaveginn, lauk stúdentsprófi og hélt síðan utan til Vestur-Þýskalands í tannlæknanám. Við það varð hún árviss óþreyja Akureyrskra knattspyrnuáhugamanna eftir því að Jakob kæmi heim en það var venjulega ekki fyrr en í júlí. Þessi óþolinmæði var skiljanleg því það var samdóma álit allra að leikur ÍBA breyttist ávallt til hins betra þegar Jakob var með. En þrátt fyrir ótvíræða hæfileika hans sem knattspyrnumanns átti Jakob ekki greiða leið í landslið Íslands. Hann hafði að vísu, vorið 1957, verið valinn í landsliðshópinn en ekki getað mætt til leiks vegna stúdentsprófa sem þá stóðu yfir.
Að lokum kom þar að landsliðsnefndinni var bókstaflega ekki stætt á því lengur að loka augunum fyrir því að í KA voru knattspyrnumenn í fremstu röð.
Í september 1961 var efnt til pressuleiks í Reykjavík vegna fyrirhugaðs landsleiks við Englendinga. Í landsliðinu var einn nýliði, hinn eldsnöggi KA-maður Kári Árnason, en í andstæðingahópnum voru þrír félagar hans að norðan, Jakob og Jón Stefánsson og Þórsarinn Steingrímur Björnsson. Úrslit leiksins urðu áfall fyrir þá sem réðu fyrir landsliðinu því það tapaði 5-3. Jakob var potturinn og pannan á bak við fjögur markanna. Sjálfur skoraði hann tvö þeirra og Steingrímur gerði önnur tvö. Þrátt fyrir þessa útreið landsliðsins lét Morgunblaðið þess getið að Kári hefði átt „... athyglisverðan leik sem útherji af fyrsta leik að vera.“
En það var augljóst að eitthvað varð að gera í málum norðanmanna, sem allir þrír áttu stóran þátt í tapi úrvalsliðs Íslands í knattspyrnu þennan fyrsta sunnudag í september 1961. Næstu daga hvíldi mikil leynd yfir skipan landsliðsins, hvað eftir annað þóttist landsliðsnefnd ætla að tilkynna hverjir ættu að spila gegn Englendingunum en jafnharðan var því slegið á frest. Þar kom að kallaður var saman sérstakur fundur KSÍ. Aðeins einu sinni áður í knattspyrnusögu Íslendinga hafði það gerst að stjórn Knattspyrnusambands Íslands sæi sig knúna til að fjalla um val landsliðsnefndar. Eftir tveggja klukkustunda fundarhöld var hulunni loks svipt af og skipan landsliðsins gerð opinber. Þrír ÍBA-menn voru í hópnum, Steingrímur, Jakob og Jón Stefánsson. Á síðustu stundu veiktist Steingrímur og kom þá Kári Árnason í hans stað. Enginn þremenninganna hafði áður spilað landsleik. Þeir fengu allir að spreyta sig gegn Englendingunum, Jakob og Jón voru í byrjunarliðinu en Kári kom inn á í stað Jakobs sem meiddist og varð að yfirgefa völlinn. Í skrifum sínum um leikinn voru ensku blöðin sammála um að Íslendingar hefðu átt meira í honum en skort tilfinnanlega skotmenn og því orðið að sætta sig við tap 1-0.
Þrátt fyrir ósigurinn var þetta gleðidagur í herbúðum KA því félagið hafði ekki tekið þátt í landsleik síðan Ragnar Sigtryggsson spilaði gegn Belgum 1957. Þá var einnig ástæða til að kætast yfir því að ÍBA-liðið hafði aldrei verið í neinni fallhættu um sumarið og framtíðin var björt. KA-mennirnir Kári Árnason og Skúli Ágústsson, ásamt Þórsaranum Steingrími Björnssyni, mynduðu eitt hættulegasta „sóknartríóið“ sem komið hafði fram í 1. Deildarkeppninni. Þá voru byrjaðir að leika með liðinu efnilegir KA-menn eins og til dæmis Sigurður Víglundsson, snjall varnarmaður, og Þormóður Einarsson, sem um langan tíma átti eftir að gleðja knattspyrnuáhugamenn með knatttækni sinni og leikgleði. Í vörninni stóð Jón sem klettur og á miðjunni var „heili“ liðsins, Jakob Jakobsson.
Eflaust hefur árið 1962 orðið mörgum þessara KA-manna minnisstæðara en önnur. ÍBA var þá aðeins hársbreidd frá því að vinna Íslandsmótið. Fyrir næstseinasta leik þess í deildinni var það í toppbaráttunni en átti etir erfiða mótherja, Íslandsmeistara KR og Fram. Leikurinn við KR-inga fór fram á Akureyri.
Í ÍBA-liðinu voru 8 KA-félagar, Einar Helgason, Siguróli Sigurðsson, Sigurður Víglundsson, Jakob Jakobsson, Jón Stefánsson, Skúli Ágústsson, Kári Árnason og Þormóður Einarsson. Fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en á 75. mínútu þegar Páll Jónsson, Þór, lék upp hægri kantinn, gaf fyrir og Skúli Ágústsson afgreiddi boltann viðstöðulaust í netið. Alveg undir lok leiksins jafnaði KR með mjög umdeildu marki, töldu margir það gert úr rangstöðu. Úrslitin urðu 1-1 og breytti þar engu þó að áhorfendur létu dólgslega og hótuðu dómaranum öllu illu, jafnvel lífláti. En það var von að stigi, ekki síst vegna þess að norðanmennirnir voru mun betri aðilinn og úrslitin fjarri því að vera réttmæt eins og sagði í Íslendingi skömmu síðar.
Eftir leikinn sagði fararstjóri KR-inga, Sigurgeir Guðmannsson, í samtali við blaðamann Íslendings að það styrkti ÍBA-liðið mjög að fá Jakob því „... hann væri sérlega góður að ná upp samleik.“
Það varð ekki deilt við dómarann, jafntefli var staðreynd og draumur knattspyrnuáhugamanna á Akureyri um Íslandsmeistaratitil að engu orðinn. ÍBA átti nú aðeins einn leik eftir, við Fram sem trónaði á toppi deildarinnar. Í fyrsta leik Íslandsmótsins þetta sumar hafði fram unnið öruggan sigur á ÍBA en í seinni leik liðanna mættu þeir meiri mótspyrnu. Norðanmenn byrjuðu vel og í hálfleik hafði Steingrímur gert tvö mörk og Jakob átt þrumuskot í þverslá beint úr aukaspyrnu. Framarar voru því tveimur mörkum undir. En í seinni hálfleik náðu þeir að jafna metin og fengu þar að auki mörg marktækifæri en sem svo oft áður sýndi Einar Helgason stórleik í marki ÍBA. Seinasta orðið átti þó Þórsarinn Páll Jónsson sem á 89. mínútu komst í dauðafæri en skaut yfir mark Fram.
Þessu eftirminnilega sumri í sögu ÍBA var þó ekki lokið. Í október var haldið á Skagann og spilað við Akurnesinga í Bikarkeppninni. Aðeins tveimur dögum fyrr hafði Gullfoss lagst að bryggju í Reykjavík með knattspyrnuflokk Þróttar innanborðs og þrjá lánsmenn sem liðið hafði haft með sér til útlanda, Akureyringana og landsliðsmennina, Skúla, Steingrím og Jón Stefánsson. Um svipað leiti skall á setuverkfall hjá flugmönnum en þrátt fyrir þennan mótbyr komst ÍBA-liðið á mótsstað. Ein hremmingin enn reið yfir þegar uppgötvaðist að búningarnir höfðu gleymst fyrir norðan. Í snarhasti voru fengnir að láni æfingagallar hjá Fram og þegar Tryggvi flugmaður Helgason lenti með síðbúnustu leikmenn ÍBA var loks hægt að flauta til leiks, hálftíma á eftir auglýstum tíma. Þegar honum lauk var stærsti ósigur ÍA-liðsins til þessa orðinn að veruleika. Steingrímur Þórsari hafði gert fjögur mörk og sannað eftirminnilega að það var engin tilviljun að aðeins einu marki munaði að hann yrði markakóngur 1. deildar 1962. Kári Árnason gerði þrjú mörk, eitt með skoti af 35 metra færi, og Skúli Ágústsson skoraði einu sinni. Úrslitin urðu 8-1 fyrir ÍBA. Stuttu síðar varð aldursforseti liðsins, Haukur Jakobsson, þrítugur. Það voru því ekki neinir öldungar sem möluðu Akurnesinga haustið 1962 og voru nærri því að vinna Íslandsmótið. Og sem nærri má geta bundu Akureyringar miklar vonir við sitt unga knattspyrnulið. En svo kom reiðarslagið. Keppnin um Íslandsmeistaratitilinn 1963 var ekki nema rétt hafin þegar þær fregnir bárust frá Vestur-Þýskalandi að Jakob hefði fótbrotnað í knattspyrnuleik fyrir háskóla sinn. Um haustið féll ÍBA-liðið í 2. deild.
Í janúar 1964 bárust þau válegu tíðindi til Akureyrar að Jakob hefði látist í bílslysi. KA tók að sér að sjá um útför hans og um sumarið fór fyrsti minningarleikurinn um Jakob Jakobsson fram en það var ákveðið strax í upphafi að hann skyldi verða árviss atburður. Hin allra síðustu ár hefur þó orðið nokkur misbrestur þar á og minningarleikurinn fallið niður, kannski helst vegna annríkis knattspyrnumanna.
Til er máltæki sem segir að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina stóra. Þegar litið er til baka á feril Jakobs Jakobssonar verður strax ljóst að öll fjarlægð í tíma er gjörsamlega óþörf til að stækka hann. Jakob var einfaldlega einn allra besti knattspyrnumaður sem Akureyri hefur fóstrað. Um það tala blöðin skýru máli. Vorið 1957, þegar Jakob var á kafi í stúdentsprófi, lét Íslendingur þess getið að ekki yrði séð hvernig ÍBA-liðið ætti að komast af án hans í fyrsta leik þess á Íslandsmótinu. Strax á tvítugsaldri var Jakob orðinn lykilmaður ÍBA og þeim sessi hélt hann til dánardægurs. Og það fór heldur ekki framhjá sunnanmönnum að ÍBA-liðið varð allt annað og betra um leið og Jakob kom til liðs við það.
Sumarið 1960 lék liðið að nýju í 1. deild eftir tveggja ára veru í 2. deild. Þegar Jakob kom heim um mitt sumar blasti fallið við ÍBA og framundan var leikur við Íslandsmeistara KR. Útlitið var dökkt en Akureyringar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu KR 5-3, Jakob gerði tvö markanna. Skömmu síðar mátti annað af toppliðum deildarinnar, Fram, sætta sig við stórtap á Akureyri og ÍBA tókst að forða sér frá falli.
Tæpu ári síðar, þegar þessi lið reyndu með sér aftur í júlí 1961, skrifaði Gísli Jónsson, íþróttafréttaritari Íslendings, að það væri Akureyringum mikill styrkur að fá Jakob „... til liðs á ný... Jakob er einstaklega vitur knattspyrnumaður og hefur tækni umfram flesta aðra. Sendingar hans í upphafi leiks voru fallegar og hnitmiðaðar, svo að sjaldséð er hér. Vonandi leikur Jakob Jakobsson sem flesta leiki með ÍBA í sumar.“
Knattspyrnulið ÍBA verður til << Framhald >> Keppnistímabilið 1975