Flýtilyklar
Keppnistímabilið 2004
Fall úr efstu deild og tap í bikarúrslitum
Þorvaldur Makan Sigbjörnsson fyrirliði KA yfirgaf félagið og gekk til liðs við Fram. Á miðju sumri þurfti kappinn þó að leggja skóna á hilluna vegna alvarlegra höfuðverkja. Þorvaldur Örlygsson hætti að spila einbeitti sér að þjálfuninni og Slobodan Milisic lagði skóna á hilluna fyrir tímabilið.
KA fékk þó góðan liðsstyrk fyrir átök sumarsins en Sándor Matus markvörður frá Ungverjalandi kom til liðs við KA frá ungverska liðinu Pésci Macsek og Atli Sveinn Þórarinsson varnarmaður Örgryte í Svíþjóð var lánaður til KA yfir sumarið. Þá komu Haukur Sigurbergsson og Jón Gunnar Eysteinsson frá Fjarðabyggð, Jóhann Þórhallsson og Kristján Elí Örnólfsson frá Þór. Sigurður Skúli Eyjólfsson dró skóna fram á nýjan leik og lék með KA þetta sumarið.
Tveir ungir leikmenn KA, þeir Jóhann Helgason og Pálmi Rafn Pálmason, fóru til reynslu hjá Stoke í Englandi í tvær vikur í janúar mánuði. Mikil viðurkenning fyrir þessa ungu leikmenn en þeir léku þó báðir með KA sumarið 2004.
Deildarkeppnin
KA tók á móti Keflavík í fyrsta leik sumarsins og var sterkari aðilinn lengst af. Hreinn Hringsson kom KA yfir á 21. mínútu þegar hann náði frákasti eftir sinn eigin skalla og staðan góð. En nýliðar Keflvíkinga sneru leiknum við í síðari hálfleik og mörk frá Jónas Guðna Sævarssyni og Hólmari Erni Rúnarssyni tryggðu þeim öll stigin í 1-2 sigri.
KA-menn voru stálheppnir að ná þremur stigum í næsta leik þegar liðið sótti Víkinga heim. Fallegt skallamark Atla Sveins skildi liðin að en Víkingar voru mun sterkari og átti Daníel Hjaltason skot í stöng og Vilhjálmur Vilhjálmsson skaut í þverslána og niður. Fyrstu stig sumarsins voru því komin í hús eftir erfiðan leik.
Aftur kom hinsvegar tap á heimavelli þegar ÍBV stal sigrinum með marki á lokamínútunum. KA hafði verið betri aðilinn en Birkir Kristinsson í marki Eyjamanna varði frábærlega. Í næstu umferð fylgdi svo 2-1 tap á Akranesi þar sem Atli Sveinn Þórarinsson skoraði mark KA en Hreinn Hringsson fékk rautt spjald er 10 mínútur lifðu leiks en það stöðvaði ekki okkar menn í að leita að jöfnunarmarkinu. Þórður Þórðarson varði hinsvegar vel og sá til þess að KA fór niður í fallsæti með tapinu.
Miðvörðurinn Atli Sveinn var enn á skotskónum fyrir KA þegar hann tryggði KA jafntefli gegn Grindavík á heimavelli. Kristján Elí Örnólfsson meiddist í leiknum og lék ekki meira á tímabilinu. Atli Sveinn var KA-mönnum enn dýrmætur þegar hann gerði sigurmarkið með stórglæsilegu langskoti á Laugardalsvellinum þegar Framarar lágu í valnum, 0-1. Framarar voru ágengir í leiknum en baráttuglaðir KA-menn sóttu öll stigin.
Grátlegt tap á heimavelli fylgdi þessum góða sigri þegar Fylkismenn skoruðu tvö mörk á síðustu þremur mínútunum. Elmar Dan Sigþórsson fékk sitt annað gula spjald strax á 35. mínútu en KA liðið spilaði vel manni færri og hefði átt jafnteflið skilið en fótboltinn er grimmur og gestirnir kláruðu dæmið í lokin.
En KA fagnaði loks fyrsta heimasigrinum og Jóhann Þórhallsson fyrstu mörkum sínum fyrir KA í deildinni þegar KA vann góðan 3-2 sigur á KR. Sigurður Ragnar Eyjólfsson kom KR-ingum yfir en tvö mörk frá Jóhanni og eitt frá Pálma Rafni sneru leiknum við áður en Ágúst Gylfason minnkaði muninn úr vítaspyrnu.
KA náði verðskulduðu stigi í Hafnarfirði og tryggði sér það með gullfallegu marki Pálma Rafns Pálmasonar, 2-2. KA-menn voru betri framan af leiknum og Jóhann Þórhallsson kom liðinu yfir með föstum skalla áður en FH-ingar jöfnuðu og komust yfir. Aftur var tap staðreynd gegn nýliðum Keflvíkinga þegar liðin mættust suður með sjó. Þórarinn Kristjánsson gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu í bragðdaufum leik.
Tap á heimavelli gegn Víkingum, 0-2, þar sem KA komst lítt ávegis í sókninni og fékk enn eina vítaspyrnuna á sig. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skaut okkar menn svo í kaf í Vestmannaeyjum er ÍBV vann stórsigur 4-0. Þessi úrslit sáu til þess að KA féll niður í næstneðsta sæti deildarinnar þegar 6 umferðir voru eftir af deildinni.
Ekki varð útlitið bjartara þegar Skagamenn burstuðu okkar lið á Akureyrarvelli 0-5 þar sem Ronni Hartvig og Pálmi Rafn Pálmason fengu rautt spjald. Enn fékk liðið á sig vítaspyrnu og féll niður í neðsta sæti deildarinnar með 11 stig þegar 5 umferðir lifðu móts.
Algjör lykilleikur tók við þegar Grindvíkingar voru sótti heim. Liðin voru í tveim neðstu sætunum fyrir leikinn og því um svokallaðan 6 stiga leik að ræða. En ekki tókst KA að skora og það í fimmta leiknum í röð, liðið fékk á sig vítaspyrnu og 2-0 tap varð staðreynd, staðan orðin erfið. Jóhann Helgason hélt svo utan til náms í Bandaríkjunum og missti af síðustu umferðunum.
Aftur tók við stórleikur fyrir KA þegar Framarar komu í heimsókn, Framarar höfðu fallið niður í næstneðsta sætið fyrir leikinn og því lykilatriði fyrir KA að vinna til að færast nær liðunum fyrir ofan fallsætið. Lið KA réð ferðinni en enn og aftur tókst liðinu ekki að skora og 0-0 jafntefli staðreynd.
En KA skoraði langþráð mark og vann glæsilegan sigur þegar Fylkismenn voru lagðir í Árbænum. Elmar Dan Sigþórsson gerði markið en KA hafði ekki skorað í 610 mínútur í deildinni. Enn fékk liðið á sig vítaspyrnu en heppnin var með okkar mönnum þegar Finnur Kolbeinsson skaut framhjá. Með sigrinum hélt KA sér á lífi í deildinni en vermdi enn botnsætið en nú aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti þegar tvær umferðir voru eftir.
Þorvaldur Guðbjörnsson kom KA svo í fína stöðu á KR-vellinum þegar hann skallaði fyrirgjöf Deans Martins í netið en sigur hefði lyft liðinu uppúr fallsæti. En Varnarjaxlarnir Kristján Örn og Bjarni Þorsteinsson sáu til þess að KA var í nánast ómögulegri stöðu fyrir lokaumferðina.
Í lokaumferðinni tók lið KA á móti verðandi Íslandsmeisturum FH. KA þurfti á sigri að halda til að halda sér uppi en FH-ingar þurftu helst á stigi að halda til að gulltryggja titilinn. Enn fékk liðið á sig vítaspyrnu en Sándor Matus varði glæsilega frá Tommy Nielsen. Emil Hallfreðsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir gestina seint í fyrri hálfleik og staðan orðin erfið fyrir okkar menn. Hreinn Hringsson jafnaði hinsvegar metin í upphafi síðari hálfleiks. Staðan í öðrum leikjum var þannig að KA myndi með sigri tryggja sig í deildinni á meðan FH-ingar voru öruggir með titilinn sama hvað. Steingrímur Örn fékk algjört dauðafæri á lokamínútunum en skaut framhjá. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson skoraði skömmu síðar sigurmark gestanna og ljóst var að KA var fallið niður í næstneðstu deild.
Það sem felldi liðið úr deildinni var skortur á mörkum en alls gerði liðið einungis 13 mörk í 18 leikjum. Atli Sveinn Þórarinsson var markahæsti maður KA í deildinni með 4 mörk sem kom flestum mjög á óvart enda hafði verið búist við miklu af þeim Hreini Hringssyni og Jóhanni Þórhallssyni í framlínunni.
„Það var ekki bara þessi leikur, við vorum búnir að koma okkur í þessa stöðu og ekkert hefur gengið í sumar. Svo erum við búnir að fá tíu vítaspyrnur á okkur en ekki fengið eina einustu sjálfir og það fer ekkert lið í gegnum mótið með tíu víti á bakinu án þess að sjái á því. Svo lentum við í meiðslum að auki og þetta fór bara svona.“
Þið töluðuð stundum um það í sumar þegar illa gekk að nú þyrftuð þið að fara að leika af eðlilegri getu, þá færu hlutirnir að ganga. Fór liðið aldrei almennilega í gang í sumar? „Í sjálfu sér ekki, nema þá einstaka góður leikur inn á milli. Við sýndum það t.d. í leiknum á móti Fylki að þegar við erum komnir með bakið upp við vegginn þá getum við þetta alveg. En mér fannst persónulega fyrir tímabilið ekki vita á gott fyrir lið sem missir Þorvald Örlygsson, Míló og Þorvald Makan, að ekkert væri gert til að fá leikmenn í þessar stöður.“ -Þannig að þér fannst ekki nógu mikið gert til að styrkja hópinn? „Mér fannst það sérstaklega um miðjustöðurnar, þar misstum við tvo menn, og með fullri virðingu fyrir þessum ungu strákum sem komu inn og stóðu sig eins og hetjur, þá vegur það þungt að vera með „gamlan jálk“ inni á miðjunni,“ sagði Hreinn Hringsson.
Bikarkeppnin
KA hóf leik í 3. umferð Bikarkeppninnar þegar liðið sótti Tindastól heim. Elmar Dan Sigþórsson gerði eina mark leiksins í síðari hálfleik og KA komst þar með áfram í næstu umferð þó ekki hafi verið mikill glans yfir sigrinum.
Í næstu umferð tók við töluvert erfiðari leikur þegar KA sótti Víkinga heim. Leikurinn byrjaði fjörlega en alls voru 5 mörk skoruð á fyrsta hálftímanum. Viktor Bjarki kom heimamönnum yfir en Pálmi Rafn skoraði tvívegis áður en Daníel Hjaltason jafnaði í 2-2 með marki úr vítaspyrnu. Atli Sveinn Þórarinsson kom KA aftur yfir og lagði loks upp lokamarkið í leiknum sem Jóhann Þórhallsson gerði. 2-4 sigur staðreynd og KA komið áfram í 8-liða úrslitin.
Sándor Matus, markvörður KA, vann það magnaða afrek að verja þrjár fyrstu spyrnur ÍBV í vítaspyrnukeppni eftir markalausan og framlengdan leik liðanna á Akureyri. Hann varði frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni, Matt Garnar og Ian Jeffs en á meðan skoruðu félagar hans, Atli Sveinn Þórarinsson, Örlygur Þór Helgason og Jóhann Helgason úr sínum þremur spyrnum og úrslitin urðu því 3-0. KA var sterkara í leiknum en missti Dean Martin útaf með rautt spjald á 71. mínútu leiksins. Þrátt fyrir að vera manni fleiri tókst gestunum ekki að skapa sér mikið og leikurinn fór því í vítaspyrnukeppni.
KA mætti nýkrýndum Íslandsmeisturum FH í undanúrslitunum sem fram fóru á Laugardalsvelli. Ekki voru margir sem reiknuðu með sigri KA enda liðið nýfallið einmitt eftir tap gegn FH. En annað kom þó á daginn og Hreinn Hringsson nýtti sér mistök í vörn FH-inga og renndi boltanum laglega í netið. Þrátt fyrir gríðarlegan sóknarþunga frá Íslandsmeisturunum þá vörðust KA-menn vel og skipulega og lönduðu óvæntum en mögnuðum sigri, KA var komið í úrslitaleikinn í Bikarkeppninni í þriðja sinn.
KA-liðið náði sér ekki á strik í bikarúrslitaleiknum
KA hafði tapað tvívegis í úrslitaleik Bikarsins, fyrst í framlengingu gegn Val og svo í vítaspyrnukeppni gegn Fylki. Það voru því margir sem reiknuðu með maraþonviðureign en svo varð nú aldeilis ekki. Keflvíkingar fengu vítaspyrnu strax á 11. mínútu þegar Scott Ramsay var felldur og Þórarinn Kristjánsson skoraði af öryggi úr vítinu. Þórarinn var svo aftur á ferðinni 15 mínútum síðar og staðan orðin mjög erfið. KA-liðið reyndi hvað það gat að koma sér aftur inn í leikinn en fékk fá færi. Keflvíkingar nýttu sér sóknarþunga okkar manna undir lok leiks þegar Hörður Sveinsson innsiglaði 3-0 sigur þeirra á lokamínútunni. Enn þurftu því KA menn að sætta sig við tap í úrslitum Bikarkeppninnar.
Ofmátum okkar stöðu
Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði KA, segir að norðanmenn hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en of seint að þeir væru á góðri leið með að falla úr úrvalsdeildinni.
"Liðinu gekk mjög vel í deildarbikarnum og ég held að það hafi því ríkt einum of mikil bjartsýni þegar deildin fór af stað. Líklega ofmátum við okkar eigin stöðu. Það var ekki fyrr en við höfðum farið í gegnum nokkra leiki í röð seinni part sumars án þess að skora mark sem við áttuðum okkur á því að við gætum verið á leiðinni niður. Við höfðum ekki teljandi áhyggjur, töldum að tíminn væri nægur til að rétta okkar hlut á ný.
Eftir að við töpuðum fyrir Grindavík í 14. umferð gerðum við okkur grein fyrir því að tíminn væri ekki nægur. Fjórir síðustu leikirnir í deildinni voru ágætir, auk þess sem við komumst alla leið í bikarúrslitin. Við unnum Fylki og vorum nálægt því að taka stig af KR og FH. Þegar upp er staðið, hefði okkur dugað að skora á 90. mínútu gegn FH til að halda okkur í deildinni, svo tæpt var það.
Frammistaðan í bikarnum var dálítil sárabót, ekki síst að vinna FH, en við eyddum of miklu púðri í þeim leik, spennufallið fyrir úrslitaleikinn við Keflavík var einum of mikið og við náðum okkur ekki á strik þar.
KA er fallið í 1. deild en ég tel að liðið eigi ágæta möguleika á að komast aftur upp. Það er komin þó nokkur reynsla í hópinn en deildin verður vissulega erfið þar sem mikið verður um nágrannaslagi á Norðurlandi."