Flýtilyklar
Knattspyrnulið ÍBA verður til
„KA núll“
Áður en knattspyrnudeild Þórs og KA hófu að senda sameiginlegt lið á Íslandsmótið hafði KA þrisvar tekið þátt í því upp á eigin spýtur. Fyrstu ferðina suður á Íslandsmót fór félagið strax 1929. Auk KA mættu fjögur Reykjavíkurfélög til leiks, Fram, KR, Valur og Víkingur og frá Vestmannaeyjum kom einnig lið. Þetta var útsláttarkeppni og það lið úr leik sem tapaði tvisvar. KA spilaði þrjá leiki á mótinu, tapaði fyrir Víkingi 3-0, gerði jafntefli við Val 0-0 en leikurinn var dæmdur ógildur vegna roks. Fjórum dögum síðar var hann endurtekinn. KA tapaði þá 4-0 og var úr keppni. Félagið hafði ekki unnið leik og heldur ekki tekist að skora mark. Gárungarnir voru fljótir að þrýsta fingri á veikan blettinn og uppnefna félagið „KA-núll“. Þetta var þó óþarfa kerskni og viðurnefnið gleymdist fljótlega því næstu árin áttu knattspyrnumenn KA mikilli velgengni að fagna. Þegar þeir fóru suður 1929 voru flestir liðsmennirnir um tvítugt. Í markinu stóð Sigurður Jónsson en aðrir leikmenn í þessu fyrsta Akureyrarliði sem fór á Íslandsmót í knattspyrnu voru: Jónas Jónsson, Kári Hálfdánarson, Ólafur Magnússon, Kjartan Ólafsson, bræðurnir Jón og Eðvarð Sigurgeirssynir, Helgi Schiöth, Jakob Gíslason, Tómas Steingrímsson, Hermann Stefánsson, Barði Brynjólfsson og Georg Karlsson. Georg var fenginn að láni hjá Þór og því fyrsti Þórsarinn sem tók þátt í Íslandsmótinu í fótbolta.
Næsta keppnisferð KA til Reykjavíkur var farin árið 1932. Í förinni voru 14 stúlkur, sem ætluðu að spila handbolta við KR og sýna leikfimi, og 18 karlmenn. Þeir hugðust reyna með sér við KR-inga í ýmsum íþróttum og keppa á Knattspyrnumóti Íslands. Í KA-liðinu voru margir þeir sömu og heimsótt höfðu Reykjavík 1929, Kjartan og Kári, bræðurnir Jón og Eðvarð, Jakob, Jónas og formaðurinn Tómas. Nýir í hópnum voru Norðmaðurinn og skíðakennarinn Helge Torvö, Friðþjófur Pétursson, Páll Pálsson markmaður og Sverrir Guðmundsson. Sverrir hafði lítið æft með KA enda ekki í félaginu en hann var bráðflinkur framherji, spilaði á vinstri kantinum. Þá var Arngrímur Árnason, einn stofnenda félagsins, með í suðurferðinni en Arngrímur hafði ekki fyrr tekið þátt í Íslandsmóti þótt hann hefði lengi verið viðloða knattspyrnuna sem vinstri framvörður. Svo hörmulega vildi til eftir fyrsta leik KA í reykjavík að Arngrímur veiktist af lungnabólgu og örfáum dögum síðar var hann allur, aðeins 25 ára gamall. Þessi örlagaríki kappleikur var gegn Val á Melavellinum. Það hellirigndi og aðbúnaður íþróttamannanna var slæmur. Í blaðinu Íþróttamanninum frá því í nóvember 1932 er að finna þessa lýsingu á vellinum:
„Íþróttavöllurinn okkar hér [í] Reykjavík er því miður ekki búinn neinum þeim kostum sem gætu haft aðlaðandi áhrif á nokkurn mann, heldur þvert á móti ... sé nokkuð að veðri, er ekki annað að hafa þar en hrakninga. Öll vit fyllast af mold og öðrum óhreinindum, og daunninn frá grútarskúrunum sunnan við, og sorphaugum bæjarins austan við, leggur á móti mönnum og beinlínis hrekur þá burtu.“
Við þessar aðstæður tapaði KA fyrir Val 1-0 eftir harðan og fjörugan leik. Í næstu tveimur leikjum sneru KA-menn taflinu við og sigruðu Fram 2-0 og Víking 3-0. Að lokum tókst KR að stöðva sigurgöngu norðanmanna og verða Íslandsmeistarar 1932.
Nálega 10 árum síðar, eða 1941, tók KA í þriðja sinn þátt í Íslandsmóti. Samkvæmt heimildabók félagsins var liðsuppskipan þessi:
Páll Pálsson (markvörður), Kristján Eiríksson, Otto Jónsson (bakverðir), Friðþjófur Pétursson, Árni Ingimundarson, Valtýr Guðmundsson (framverðir), Páll Línberg, Þórhallur Guðlaugsson, Jakob Gíslason, Helgi Schiöth (framherjar).
Liðinu vegnaði illa, gerði eitt jafntefli og tapaði þrisvar. Síðar þetta sama sumar bauð KA Íslandsmeisturum KR norður. Þrisvar sinnum reyndu liðin með sér, KR vann tvisvar en KA einu sinni. Í tveimur seinni leikjunum spiluðu Þórsararnir Guttormur Berg og Jóhann T. Egilsson með KA-liðinu. Og nú fór að draga til þáttaskila í knattspyrnusögu Akureyringa. Smátt og smátt óx þeirri hugmynd fylgi að réttast væri að velja eitt úrvalslið frá Akureyri til að keppa á Íslandsmóti.
Knattspyrnulið ÍBA verður til
Fyrsti leikur úrvalsliðs Akureyrarfélaganna tveggja, KA og Þórs, var við Íslands- og Reykjavíkurmeistara Vals í öndverðum júlí 1942. Liðin reyndu tvisvar með sér, Akureyringar unnu annan leikinn en töpuðu hinum. Þessi úrslit gáfu sameiningarhugmyndum manna byr undir báða vængi og 1943 áttu Akureyringar í fjórða sinnið lið á Íslandsmótinu í knattspyrnu. En nú sigldi það undir flaggi Íþróttaráðs Akureyrar en ekki KA eins og í öll fyrri skiptin.
Árið eftir var Íþróttabandalag Akureyrar stofnað og 1946 fór knattspyrnulið undir merkjum þess fyrst á Íslandsmót.
Keppnin um Íslandsbikarinn 1946 varð fyrir margra hluta sakir eftirminnileg. Akurnesingar tóku þá í fyrsta skiptið þátt í Íslandsmóti meistaraflokks og ÍBA hafði heldur ekki átt keppendur á þessu stærsta knattspyrnumóti Íslands áður. Þátttaka ÍBA olli nokkrum úlfaþyt í Reykjavík. Háværar raddir voru uppi um að banna ætti að senda úrvalslið tveggja félaga á Íslandsmót. Til grundvallar þessari kröfu lágu ekki neinar göfugar hugsjónir heldur hafði frammistaða Akureyringa gegn úrvalsliði breska flughersins árið áður skotið sunnanmönnum skelk í bringu. Ekkert mark var þó tekið á þessu hræðsluhvíi og stjórn ÍBA fól knattspyrnuráði að velja lið Akureyringa og sjá um annan undirbúning fyrir keppnina. KA lagði til átta menn í þetta fyrsta ÍBA-lið sem tók þátt í Íslandsmóti. Þeir voru Adam Ingólfsson, Baldur Árnason, Björgvin Oddgeirsson, Helgi Schiöth, Páll Línberg, Ragnar Sigtryggsson, Jósteinn Konráðsson og Sveinn Kristjánsson. Úr Þór komu Hreinn Óskarsson, Jóhann Egilsson, Eyjólfur Eyfeld, Kristján Pálsson, Árni Ingólfsson, Baldur Arngrímsson og Björn Halldórsson.
Þrátt fyrir ótta Reykvíkinga og miklar vonir Akureyringa tókst þessu úrvalsliði KA og Þórs ekki að gera drauminn um Íslandsmeistaratitil að veruleika. Liðið lék fimm leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði þremur. Þessi úrslit breyttu þó engu um það að næstu ár og áratugi áttu knattspyrnumenn á Akureyri sífellt oftar eftir að keppa undir merkjum ÍBA. Að vísu liðu átta ár þar til ÍBA var aftur meðal þátttakenda á Íslandsmóti en frá 1945 og óslitið fram að keppnistímabilinu 1975 sendi bandalagið ávallt lið til keppninnar. Á þessum árum urðu ýmsar breytingar á tilhögun Íslandsmótsins. Tvennt bar þar hæst, deildaskiptingin, sem tekin var upp 1955, og tvöfalda umferðin, en henni var komið á 1958. Það ár lék ÍBA í 2. deild en árið eftir vann liðið Vestmannaeyinga 6-2 í úrslitaviðureign deildarinnar.
Það var því ekki fyrr en sunnudaginn 12. Júní 1960 að leikur í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu fór fram á Akureyri. Áður en blásið var til leiks ávarpaði Ármann Dalmannsson, formaður ÍBA, vallargesti og minntist þessa merka áfanga í knattspyrnusögu bæjarins. Í liði ÍBA voru Einar Helgason (KA), Arngrímur Kristjánsson (Þór), Siguróli Sigurðsson (KA), Jens Sumarliðason (Þór), Jón Stefánsson (KA), Árni Sigurbjörnsson (KA), Páll Jónsson (Þór), Steingrímur Björnsson (Þór), Tryggvi Georgsson (Þór), Skúli Ágústsson (KA) og Björn Ólsen (KA).
Tryggvi meiddist í fyrri hálfleik og kom þáverandi formaður KA, Hermann Sigtryggsson, inn á í hans stað. Mótherjarnir voru Keflvíkingar. Strax á fyrstu mínútum leiksins tókst Steingrími að skora og hann bætti við tveimur mörkum enn og ÍBA vann 3-1. Eftir leikinn hældi Íslendingur ÍBA-liðinu, sérstaklega Steingrími, Jóni í vörninni og Einari, sem blaðinu þótti „afburðagóður markmaður“.
Um haustið var efnt til pressuleiks vegna fyrirhugaðs landsleiks við Vestur-Þjóðverja og spiluðu Jón og Steingrímur með pressuliðinu. Eftir leikinn kvað Morgunblaðið þá báða eiga heima í landsliði og að Jón hefði gætt Þórólfs Beck betur „... en við höfum séð aðra gera ...“ skömmu síðar var Steingrímur, einn mesti markaskorari sem Akureyringar hafa átt í knattspyrnu, valinn í landsliðshópinn sem mæta átti Þjóðverjum. Þá hafði enginn Akureyringur spilað með landsliðinu síðan 1957.
Með árinu 1965, eftir ársdvöl í 2. deild, renna upp nýir og betri tímar fyrir ÍBA. Einar Helgason var þá orðinn aðalþjálfari liðsins og undir stjórn hans endurheimti það sæti sitt í 1. deildinni. Næstu árin voru Einar og ÍBA ávallt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og munaði stundum ekki nema hársbreidd að Íslandsbikarinn færi norður um heiðar.
Strax 1965 blandaði ÍBA sér í toppbaráttuna. Árið eftir var liðið enn við toppinn en bæði 1965 og 1966 skildu aðeins tvö stig á milli norðanmanna og Íslandsmeistaranna. Síðan rann upp árið 1967, sem er ef til vill það besta í sögu knattspyrnuíþróttarinnar á Akureyri þótt ekki ynnust neinir titlar til bæjarins. Að afstöðnu þessu 56. Knattspyrnumóti Íslands skrifaði blaðamaður Íþróttablaðsins um Akureyrarliðið:
„Íþróttabandalag Akureyrar var í þriðja sæti. Lið þess byrjaði illa framan af, tapaði þremur fyrstu leikjunum, en vann síðan alla leiki sína, sem eftir voru, að undanteknum síðasta leiknum, gegn KR, sem varð jafntefli. Það hefur sennilega kostað liðið sigurinn í mótinu, því ella hefði það verið jafnt Fram og Val að stigum, og eins og Akureyringar léku síðari hluta sumars, má hæpið telja, að nokkurt lið íslenzkt hefði staðist þeim snúning. ÍBA-liðið virðist oft ekki komast í æfingu fyrr en um mitt sumar, en þegar það skeði í sumar, þá var það svo um munaði, því liðið bar eiginlega höfuð og herðar yfir íslenzk knattspyrnulið, bæði hvað leik og markheppni snertir, seinni hluta sumars.“
Blaðamaðurinn hélt áfram og nefndi nokkra leikmenn sem hann taldi hafa skarað fram úr í ÍBA-liðinu. Þar var efstur á blaði KA-maðurinn Skúli Ágústsson.
Skúli hafði þá lengi verið einn af bestu knattspyrnumönnum Akureyringa. Árið 1962, aðeins 19 ára, var hann búinn að skipa sér á bekk með mönnum eins og Jakobi Jakobssyni og Jóni Stefánssyni. Og keppnistímabilið 1967 blómstraði hann sem aldrei fyrr. Sendingar hans voru hárfínar og knatttæknin gerðist ekki betri hjá íslenskum fótboltamönnum. Nær allt sumarið var hann markahæstur leikmanna 1. deildar en í síðustu umferðinni náði Hermann Gunnarsson úr Val að krækja í markakóngstitilinn með einu marki umfram Skúla. Í þriðja sæti yfir mestu markaskorara sumarsins 1967 var félagi Skúla, Kári Árnason. Fyrir einstaka óheppni náðu þessir tveir miklu markmannshrellar ekki að skora gegn KR í tíunda og síðasta leik ÍBA-liðsins sumarið 1967. KR-ingar spiluðu leikkerfið „allir í vörn“ og máttu svo sannarlega þakka fyrir að ná jafntefli. En þrátt fyrir að Skúli væri einn albesti knattspyrnumaður Íslandsmótsins 1967 var hann aldrei valinn í A-landslið allt sumarið.
Keppnistímabilið 1968 byrjaði sannarlega vel hjá Akureyringum. Aldrei þessu vant unnu þeir fyrstu leiki sína á Íslandsmótinu, fyrst Keflvíkinga og þá KR 3-0, Kári Árnason gerði öll mörkin. Daginn eftir sigurleikinn við KR-inga, mánudaginn 10. júní, skrifaði blaðið Allt um íþróttir að Akureyrarliðið spilaði skynsamlega knattspyrnu og leikmenn þess væru jafnir:
„Jón Stefánsson [KA] í vörninni ásamt Ævari Jónssyni [Þór], Pétri Sigurðssyni [Þór] og Gunnar Austfjörð [Þór] láta mótherjana ekki vaða uppi og Magnús Jónatansson [Þór] (sem leikur aftarlega sem hægri innherji), Valsteinn og Guðni Jónssynir [báðir í Þór] ráða miklu á eigin vallarhelmingi. Sennilega eiga Akureyringar bezt sóknarlínuna af öllum 1. deildar liðunum, þótt ekki sé hún laus við veikleika. Skúli Ágústsson [KA] stjórnar á miðjunni en útherjarnir Kári Árnason [KA] og Steingrímur Björnsson [Þór] eru leiknir, fljótir og jafnan hættulegir. [Í markinu stendur Samúel Jóhannsson, Þór.]“
Eftir fyrri umferð mótsins var ÍBA efst að stigum, hafði ekki tapað leik, unnið þrjá og gert tvö jafntefli. En í seinni umferðinni sló heldur betur í bakseglin, liðið vann ekki leik og fékk aðeins 2 stig. Þrátt fyrir þetta lánleysi varð ÍBA í þriðja sæti Íslandsmótsins 1968. Jafnframt eignuðust Akureyringar þá í fyrsta sinnið markakóng 1. deildarinnar. Keppnin um þennan eftirsótta titil var ákaflega hörð allt sumarið og á endanum deildu þrír sunnanmenn og einn norðanmaður með sér heiðrinum. Akureyringurinn í hópnum var Kári Árnason, einn sprettharðasti knattspyrnumaður landsins og eftir því marksækinn. Engum norðanmanni hefur enn tekist að leika þetta afrek Kára eftir. Þó hefur markakóngstitillinn í tvígang átt leið norður um heiðar. Í seinna skiptið árið 1970 þegar Hermann Gunnarsson varð markahæstur en hann var þá þjálfari og leikmaður ÍBA-liðsins.
Sem endranær háði aðstöðuleysi ÍBA á vordögum 1969. Um síðir fengust tvö æfingasvæði, annað inni í bænum rétt vestan flugstöðvarbyggingarinnar en hitt var Menntaskólavöllurinn við Lystigarðinn. Keppnistímabilið, sem nú fór í hönd, átti eftir að verða leikmönnum ÍBA-liðsins eftirminnilegt. Liðið byrjaði á að vinna landsliðið í þrígang, síðan lenti það í alvarlegri fallhættu og varð að spila við Breiðablik úr Kópavogi um sætið í 1. deildinni að ári. Og í desember lék ÍBA til úrslita við ÍA í Bikarkeppni KSÍ og bar hærri hlut eftir framlengdan leik. Stærsti sigur ÍBA var í höfn en jafnframt vermdi það botnsæti 1. deildar. Einar Helgason, sem verið hafði þjálfari liðsins mestan hluta 7. áratugarins, lét nú af því starfi. Hann hafði ærna ástæðu til að vera ánægður með frammistöðu sinna manna. Oftar en einu sinni hafði litlu munað að honum tækist að stjórna liðinu í efsta sæti Íslandsmótsins og nú hafði sigur unnist í öðru af tveimur stærstu knattspyrnumótum Íslands.
Næstu árin tók heldur að halla undan fæti fyrir Akureyrskum knattspyrnumönnum. Undir forystu Hermanns Gunnarssonar árið 1970 sigldi liðið þó tiltölulega lygnan sjó, var aldrei í verulegri fallhættu en heldur ekki í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Árið eftir féll ÍBA í 2. deild og byrjað var að skeggræða um hvort ekki væri rétt að félögin hættu samstarfi sínu í knattspyrnumálum. Ekkert var þó aðhafst að sinni og dvölin í 2. deild varð ekki löng, aðeins eitt sumar. En 1974 féll ÍBA aftur og þá þraut langlundargeð Þórsara.
Upphafið á knattspyrnunni << Framhald >> ÍBA liðið skiptist upp