Viðtal við fyrirliða KA

Ofmátum okkar stöðu

Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði KA, segir að norðanmenn hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en of seint að þeir væru á góðri leið með að falla úr úrvalsdeildinni.

"Liðinu gekk mjög vel í deildarbikarnum og ég held að það hafi því ríkt einum of mikil bjartsýni þegar deildin fór af stað. Líklega ofmátum við okkar eigin stöðu. Það var ekki fyrr en við höfðum farið í gegnum nokkra leiki í röð seinni part sumars án þess að skora mark sem við áttuðum okkur á því að við gætum verið á leiðinni niður. Við höfðum ekki teljandi áhyggjur, töldum að tíminn væri nægur til að rétta okkar hlut á ný.

Eftir að við töpuðum fyrir Grindavík í 14. umferð gerðum við okkur grein fyrir því að tíminn væri ekki nægur. Fjórir síðustu leikirnir í deildinni voru ágætir, auk þess sem við komumst alla leið í bikarúrslitin. Við unnum Fylki og vorum nálægt því að taka stig af KR og FH. Þegar upp er staðið, hefði okkur dugað að skora á 90. mínútu gegn FH til að halda okkur í deildinni, svo tæpt var það.

Frammistaðan í bikarnum var dálítil sárabót, ekki síst að vinna FH, en við eyddum of miklu púðri í þeim leik, spennufallið fyrir úrslitaleikinn við Keflavík var einum of mikið og við náðum okkur ekki á strik þar.

KA er fallið í 1. deild en ég tel að liðið eigi ágæta möguleika á að komast aftur upp. Það er komin þó nokkur reynsla í hópinn en deildin verður vissulega erfið þar sem mikið verður um nágrannaslagi á Norðurlandi."

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is