Keppnistímabilið 1992

KA 7 sekúndum frá Bikarmeistaratitli

Rétt eins og venjulega liggur við að segja, vinnur KA Tactic-mótið um vorið undir stjórn nýs þjálfara, Gunnars Gíslasonar, er sóttur var til Svíþjóðar. Áður hafði Ormarr fyrrum þjálfari verið valinn í landsliðið gegn Ísrael þann 8. apríl.

Vel fór liðið af stað í deildinni þegar sigur vannst á Íslandsmeisturum Víkings 2-0 og skoraði Ormarr bæði mörk okkar og fylgdi eftir með önnur tvö í 3-3 jafntefli gegn FH. Arndís Ólafsdóttir, er leikið hefur í Englandi í vetur, vinnur Bikarmeistaratitil með Arsenal.

Í þriðja leik gerir KA jafntefli við Þór, 2-2, og skoraði Gunnar Már Másson bæði mörkin og enn er liðið taplaust eftir 1-1 jafntefli gegn KR, þar sem Vesturbæjarliðið mátti þakka fyrir stigið. KA því í 4. sæti eftir 4 umferðir. Í fimmta leik kom loks naumt tap 0-1 gegn ÍA og þá fór að halla undan fæti... 1-2 tap gegn Fram, 1-2 gegn UBK, 0-4 gegn Val og 1-3 gegn ÍBV. Hrap úr 4. sæti í næstneðsta sæti deildarinnar og menn teknir að ókyrrast. Hinsvegar gengur allt í haginn í bikarnum, aldrei þessu vant kann maður að segja, 2-0 sigur á Þór í 16-liða úrslitum, með mörkum Páls Gíslasonar og Gunnars Más Mássonar, var góður plástur á sárin og frábær leikur gegn Fram í 8-liða úrslitum og 2-1 sigur, með mörkum Jóhanns Arnarssonar og Páls Gíslasonar, gladdi okkar menn ennfremur.


KA vann nágrannana í Þór 2-0 í Mjólkurbikarnum

Örvar Gunnarsson er valinn í landslið U-14 ára og þeir Þórhallur Hinriksson og Óskar Bragason í landslið U-16 ára. KA gerði sér lítið fyrir og vann Pollamót Þórs, vann ÍR í úrslitum 5-4. Hitt stóra mótið þessa fyrstu helgi júlí-mánaðar, ESSÓ-mót KA, tókst vel að vanda enda vanir menn að verki, þar vann Fylkir sigur í flokki A-liða.

Loks kom sigur í deildinni er KA lagði Íslandsmeistara Víkings öðru sinni, nú 1-0 með enn einu marki Ormarrs og KA lyfti sér af botninum. Jafntefli gegn FH, 2-2, með mörkum Gunnars Más og Pavel Vandas og liðið heldur að rétta úr kútnum. Í 2. deild kvenna gengur allt í haginn hjá KA, meðal annars 5-2 sigur á KS og 12-0 gegn Leiftri.

Aftur og einu sinni enn verða okkar menn að játa sig sigraða gegn Þór, nú 0-2, og eru nágrannar okkar í góðum málum meðan við erum komnir í þriðja neðsta sætið á ný. 2. flokkur gerir það gott, vinna meðal annars ÍR 18-0 og tryggja sér sæti í 1. deild að ári. Þjálfari þeirra er Hinrik Þórhallsson. Dömurnar komast í úrslit 2. deildar eftir 3-0 sigur á Dalvík en þjálfari KA er rétt eins og síðastliðnu ári Gunnlaugur Björnsson. Þór vinnur loks Akureyrarmót kvenna.

KA-menn halda uppteknum hætti í bikarnum og vinna hvern glæsisigurinn af öðrum, í undanúrslitum vinnst sigur á sjálfum Skagamönnum 2-0 þar sem Vandas og Árni Hermannsson skoruðu. Með þessum glæsta sigri er KA komið í úrslit Bikarkeppni KSÍ í fyrsta sinni. KA fylgdi þessum sigri eftir með 1-0 sigri á Skagamönnum í deildinni með marki Gunnars Más og önduðu menn nokkru léttar og þótti gott veganesti í leikinn gegn Val í Bikarúrslitunum.

Þann 25. ágúst var svo leikið á Laugardalsvelli gegn Val og byrjuðu KA-menn miklu betur, komst KA í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum Ormarrs og Gunnars Más. Vissu sunnanmenn vart hvaðan á sig stóð veðrið svo var krafturinn í okkar mönnum. Snemma í seinni hálfleik skorar Valur og þar við sat þar til einungis 7 sekúndur voru eftir af leik, það er þegar leikið hafði verið í góðar 52 mínútur í síðari hálfleik að Valur nær að jafna í 2-2 og var það gífurlegt reiðarslag fyrir leikmenn KA sem höfðu varist og barist hetjulegri baráttu í góðar 97 mínútur. Í fyrstu sókn framlengingar á Ormarr snilldarsendingu á Pavel Vandas sem óvaldaður á skot í stöng, hefði hann sett boltann inn er ekki gott að segja hvernig farið hefði en það voru Valsmenn sem áttu þolið og léku á alls oddi og unnu loks 2-5 – og sá bikardraumur var úti.

Eftir þetta sorglega tap náði lið KA sér aldrei á strik í deildinni, tveimur dögum eftir úrslitaleikinn tapaði liðið naumlega fyrir Fram 0-1, fyrir UBK naumlega 1-2, lukkudísirnar voru ekki til staðar, liðið var heillum horfið. Dömurnar héldu uppi merkjum félagsins og unnu 2. deildina, vann Hauka í úrslitum 1-0 með marki Margrétar Jónsdóttur. Enn tap, nú gegn Val 1-3 og eftir tap gegn ÍBV 1-2 þann 15. september var ljóst að fyrir KA lá ekkert nema fall og í fullu samræmi við það tapaðist Akureyrarmótið 2-4. Nokkrum vikum síðar er þætti Gunnars Gíslasonar lokið hjá KA, hann fluttur út til Svíþjóðar á ný og má ætla að viðskilnaðurinn hafi verið sár.

Að lokum má geta þess að á lokahófi deildarinnar var Rósu Sigbjörnsdóttur afhentur markakóngstitillinn – var Rósa vel að titlinum komin þar sem hún gerði 38 mörk á sumrinu!

Keppnistímabilið 1991 << Framhald >> Keppnistímabilið 1993

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is