Keppnistímabilið 1991

Ormarr tekur við keflinu

Nýr maður í brúnni, Ormarr Örlygsson tekur við þjálfun meistaraflokks KA og byrjaði liðið á að tapa niður 2-0 forystu gegn ÍBV í 2-3 í sínum fyrsta leik í deildinni. Mörk KA gerðu Pavel Vandas (á sínu öðru ári með KA) og Ormarr þjálfari Örlygsson. Í upphafi sumars skartar KA þremur unglingalandsliðsmönnum: U-18 ára Eggert Sigmundsson og Bjarki Bragason, U-16 ára Ívar Bjarklind.

Hvoru tveggja karla- sem kvennalið KA tapa tveimur fyrstu leikjum sínum í deildinni, KA sínum öðrum leik gegn UBK í Kópavoginum en dömurnar gegn KR 2-3 og UBK 0-4. Loks vannst sigur í þriðja leik gegn Stjörnunni 1-0 með marki Erlings Kristjánssonar en Haukur markvörður Bragason átti stórleik sem oft áður fyrir KA. Sigur vannst á Val í fimmta leik, 1-0, þar sem Erlingur og Haukur voru bestir en í millitíðinni tapaðist leikur gegn Fram 1-2 þar sem Fram knúði fram sigur á 91. mínútu!


Góður 3-1 sigur vannst á Breiðablik á Akureyrarvelli

Í landsliði kvenna gegn Þýskalandi voru tvær KA-stúlkur valdar, Sigríður Pálsdóttir og Arndís Ólafsdóttir. KA nær 6. sæti með góðum sanngjörnum sigri á FH með mörkum Sverris Sverrissonar og Pavel Vandas en ESSÓ-mót KA vinnur KA góða sigra og er orðið eitt helsta mót sumarsins með um 700 keppendur. Sem fyrr gengur lítt í bikarnum, tap gegn Stjörnunni 3-0 í Garðabæ og enn sígur á ógæfuhliðina með tapi gegn ÍBV 0-3.

Í 1. deild kvenna vinnst sigur á Tý, Arndís með tvö markanna. Þá voru þeir Matthías Stefánsson og Guðni Rúnar Helgason úr 3. flokki í landslið U-16 ára. Sigur 3-1 gegn UBK léttir lund KA-manna og 1-1 gegn Stjörnunni þýðir að KA lyftir sér af botninum. Dömurnar eiga við ramman reip að draga og tapa gegn Val 1-2 og ÍA 0-6 og eru í 6. sæti af 8 liðum deildarinnar.

Sá stórmerki atburður á sér stað, að til Akureyrar kemur besti knattspyrnumaður sögunnar, sjálfur Pele, á vegum KSÍ og Visa Ísland. Leggur þessi skærasta stjarna knattspyrnunnar áherslu á háttvísi og drengskap, talar Pele einkum til unga fólksins er fjölmennti á völlinn.


Stefán Gunnlaugsson og knattspyrnusnillingurinn Pele með æskufólki á Akureyrarvelli 1991

Jafntefli gegn Fram 1-1 og sigur í Garðinum gegn Víði 1-2 tryggja liði KA 8. sæti og dömur vinna Þrótt Nes 2-1 svo enn virtist von um veru í 1. deild. Slæmur skellur 0-7 gegn ÍA var þungt fall, svo þungt að lið okkar féll úr 1. deild með einungis 10 stig. Þær urðu einnig að játa sig sigraðar gegn Þór í Akureyrarmótinu, 1-2. Piltarnir hans Ormars bitu frá sér gegn FH og unnu verðskuldað 2-1 og komst liðið þá loks upp í 6. sæti deildarinnar. Enn er Eggert Sigmundsson valinn í U-18 ára landsliðið gegn Wales og Englandi, síðar svo gegn Belgum. Í leiknum gegn efsta liði deildarinnar, Víkingi, var lið okkar vægast sagt óheppið og varð að láta sér 0-0 jafntefli lynda en sótti mun meira lengst af.


KA kom vel til baka í leiknum gegn KR eftir að hafa lent 0-2 undir

Liðið lauk keppni í 6. sæti 1. deildar eftir að hafa verið lengst af í 8. sæti en liðið sýndi karakter, vann KR í síðasta leik 3-2 og lauk keppni um miðja deild. Akureyrarmótið vannst með 5-3 sigri eftir framlengdan leik. Ormarr ákveður að hætta sem þjálfari þrátt fyrir að hafa fullt traust stjórnar bak við sig.

Keppnistímabilið 1990 << Framhald >> Keppnistímabilið 1992

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is