Keppnistímabilið 1996

Loksins aftur sigur á Þór í deildarleik

Annað þjálfaraár sitt hjá KA hóf Pétur Ormslev með sigri á Víkingi, 3-2, sem má segja að sé fremur regla en hitt, að vinna Víkingsliðið. Leikurinn var annars hin ágætasta skemmtan þar sem Þorvaldur Makan fór fyrir sínum mönnum og skoraði 2 mörk. Gamla félag Péturs, Fram, var næsti andstæðingur og vissu menn fyrirfram að hinir blá-hvítu yrðu sterkir, álitnir 2. deildarmeistarakandídatar. Svo fór að okkar menn máttu játa sig sigraða 0-2 í leik sem einkenndist af mikilli heimadómgæslu en leikið var syðra.

Tap gegn Þór 1-2 var nánast samkvæmt venju, töpin orðin æði mörg gegn erkifjendunum. Tveir sigrar, gegn Leiftri 5-2 og Völsungi 3-0, lyfti brúninni á aðdáendum liðsins og sigur í 16-liða úrslitum bikars, 3-1, gegn Grindavík jók ánægjuna ennfremur. Í næstu leikjum gekk á ýmsu, meðal annars 1-3 sigur á Víkingi í Reykjavík með mörkum Höskuldar Þórhallssonar og Bjarna Jónssonar (tvö mörk) en áður hafði liðið orðið að játa sig sigrað í 8-liða úrslitum bikars gegn Þór, 1-2.

Í kvennaknattspyrnunni var endir bundinn á langan feril Hjördísar Úlfarsdóttur er fótbrotnaði og sleit liðbönd á æfingu með ÍBA. Þessi 31 árs gamla stúlka hefur verið burðarás í liðum KA og ÍBA lengst af á 15 ára ferli sínum.

Eftir dapran leik og 1-4 tap gegn Fram var komið að þriðja leik Akureyrarliðanna á sumrinu, Þór hafði unnið hina tvo en loksins, eftir 17 ára bið (síðan 1979), var komið að KA að vinna Þórsara í deildarkeppni! Með 2-1 sigri þar sem Þorvaldur Makan var hetja KA með bæði mörkin var heldur hvimleið venja rofin og var sigrinum meðal annars fagnað með 7-1 sigri á Leikni þar sem Ottó K. Ottósson skoraði fjögur mörk. Í þessum leik fékk 16 ára litli bróðir Eggerts, Þórir Sigmundsson, að spreyta sig í markinu og gerði engin mistök.

KA lauk keppni þetta árið í 4. sæti og rétt eins og á síðastliðnu sumri fyrir ofan Þór á markatölunni einni því hvort liðið fékk 26 stig en upp fóru Fram með 41 stig og Skallagrímur með 37 stig. Annað árið í röð náði KA í Akureyrarmeistaratignina þótt báðum leikjum lyki með jafntefli. Eftir 2-2 í framlengdum leik spyrntu menn á mark í vítakeppni í skjóli myrkurs! Svo fór að KA hitti betur og vann 8-7 en mikið sakna þeir eldri þeirrar keppni sem einu sinni var á milli liðanna tveggja.

Á lokahófi KA var Bjarni Jónsson fyrirliði valinn sá besti, Steinn Viðar Gunnarsson efnilegastur en markakóngur var Þorvaldur Makan Sigbjörnsson, sem augljóslega verður keppikefli stórliðanna að fá í sínar raðir.

Pétur Ormslev ákvað að þakka fyrir sig eftir tvö ágætis sumur og ákveðið að ráða gamlan Þórsara og Skagamann, Sigurð Lárusson til starfa. Formaður knattspyrnudeildar, Árni Jóhannsson kaus að hætta og við tók Valdimar Freysson.

Keppnistímabilið 1995 << Framhald >> Keppnistímabilið 1997

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is