Keppnistímabilið 1995

Pétur Ormslev tekur stjórnina

Með nýjan þjálfara, Pétur Ormslev, mætti lið KA ferskt til leiks og vann opnunarleik sinn í deildinni 3-0 gegn Víkingi með mörkum Þorvaldar Makan Sigbjörnssonar (tvö mörk) og Gísla Guðmundssonar en bestur KA-manna var Englendingurinn Dean Martin. Eftir þessum fylgdu þrír lakari leikir, dautt 0-0 jafntefli við Víði heima og 0-2 tap í bikarnum á Húsavík gegn Völsungi og loks 0-2 tap fyrir Stjörnunni í Garðabæ uns liðið beit frá sér að nýju og vann Fylki 2-1 með mörkum Þorvaldar Makan.

Í sjöttu umferð átti það enn og aftur fyrir KA-mönnum að liggja að tapa fyrir erkifjendum sínum, Þórsurum, nú 1-3. Þótti leikur Akureyrarliðanna heldur bragðdaufur enda átti Pétur KA-þjálfari von á öllu meiri tilþrifum! Jafntefli var hinsvegar niðurstaðan í fyrri leik liðanna í Akureyrarmótinu. Að venju gekk ESSÓ-mót KA með miklum ágætum, má reikna með að hátt í tvö þúsund manns gisti í bænum vegna þessa móts og Pollamóts Þórs.

Á ýmsu gengur hjá stúlkunum hans Hinriks Þórhallssonar í ÍBA, liðið kemst þó í undanúrslit bikarsins en mátti þola þar stórt tap fyrir Val í Reykjavík, 1-6. Í landsliði U-16 ára á Norðurlandamóti leika með tveir KA-menn, Þorleifur Árnason og Jóhann Hermannsson. Á meðan þessu fer fram eiga okkar menn í hinu mesta basli í 2. deildinni, eftir 1-2 sigur á HK í Kópavogi fylgja heldur laklegir leikir, 1-1 heima gegn Skallagrími, 0-3 tap gegn ÍR, 2-2 gegn Víkingi og loks 3-2 tap í Garðabænum. Það átti hinsvegar fyrir Víði að liggja að tapa fyrir KA, 2-1 sigur með mörkum Stefáns Þórðarsonar og Dean „Dino“ Martin komu KA á rétta braut því á eftir fylgdi 2-1 sigur á toppliði Fylkis, mörkin gerðu Bjarni Jónsson og Hermann Karlsson.

Þessum góða kafla var fylgt eftir með sanngjörnum sigri á Þór í Akureyrarmótinu þar sem Stefán Þórðarson skoraði markið sem skildi liðin að og færði KA bikarinn að nýju. Liðin sömdu síðan um skiptan hlut í deildinni liðlega viku síðar, 1-1, með marki Helga Aðalsteinssonar. Í lok móts unnust tveir sigrar, á Skallagrími 3-2 og ÍR 3-1 og stóð liðið uppi með 27 stig eins og Þór en betri markatölu og náði því 3. sætinu á eftir Fylki og Stjörnunni. Þór vann 6 flokka af 8 í Akureyrarmótinu, KA vann meistaraflokk og 3. flokkinn en í þeim flokki lék einmitt Þorleifur Árnason, sem var markakóngur Akureyrar ´95 með 3 mörk að meðaltali í leik.

Keppnistímabilið 1994 << Framhald >> Keppnistímabilið 1996

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is