Flýtilyklar
KA - CSKA Sofia 1-0, 19. sept 1990
- |
1-0 Hafsteinn Jakobsson (16.)
Óvæntur sigur KA gat orðið stærri
Vann CSKA Sofia 1-0 í fyrsta Evrópuleiknum á Akureyri
KA-menn komu svo sannarlega á óvart þegar þeir sigruðu hina margföldu búlgörsku meistara, CSKA Sofia, 1-0 á Akureyrarvelli. Þetta var í fyrsta skipti sem leikur í Evrópukeppni fór þar fram.
KA-menn verðskulduðu sigurinn fyllilega og hefðu hæglega unnið með meiri mun. Strax á þriðju mínútu þrumaði Jón Grétar Jónsson boltanum í þverslána á marki CSKA. Markið kom síðan á 16. mínútu – Ormarr Örlygsson braust þá af miklu harðfylgi að endamörkum hægra megin og sendi boltann út á Hafstein Jakobsson sem skoraði með góðu skoti, 1-0.
Kjartan Einarsson var síðan tvívegis nálægt því að skora í fyrri hálfleiknum, skaut rétt framhjá, og síðan varði búlgarski markvörðurinn frá honum á snilldarlegan hátt.
CSKA var nálægt því að jafna snemma í síðari hálfleik, en þá átti liðið sláarskot og tvö önnur ágæt færi. En KA-menn, sem áttu sinn besta leik á keppnistímabilinu, fóru aftur í gang og Árni Hermannsson skaut í stöng, og varnarmaður bjargaði þegar boltinn stefndi í netið eftir skot Jóns Grétars.
Útlitið fyrir leikinn var ekki gott því tvo síðustu dagana á undan snjóaði á Akureyri, og spáð hafði verið leiðinlegu veðri, en þegar til kom var leikið á auðum velli og í ágætu veðri.
Hafsteinn Jakobsson, sem skoraði sigurmark KA í fyrri leiknum, á hér í höggi við einn búlgörsku leikmannanna á Akureyrarvellinum
Lið KA í leiknum:
Haukur Bragason, Steingrímur Birgisson, Halldór Halldórsson, Halldór Kristinsson, Ormarr Örlygsson, Bjarni Jónsson (Árni Hermannsson 67.), Gauti Laxdal, Heimir Guðjónsson, Hafsteinn Jakobsson, Jón Grétar Jónsson, Kjartan Einarsson (Þórður Guðjónsson 73.)
Áhorfendur: 1.208