Flýtilyklar
Upphafið á knattspyrnunni
„Breiðumýrarför hin mikla“
Fyrsta árið í sögu Knattspyrnufélags Akureyrar varð mjög viðburðaríkt. Það átti að ríkja festa í félagsskapnum frá upphafi og því var fjárfest í fundagerðarbók strax í janúar 1928. Fótbolta eignaðist félagið ekki fyrr en í maí þetta sama ár. Í mánuðinum á undan hafði KA spilað sinn fyrsta kappleik. Mótherjarnir voru Þórsarar. Jafntefli varð, 5 mörk gegn 5.
Í kjölfarið sigldu fleiri leikir. Spilað var við skipverja af danska herskipinu Fyllu, sem ekki riðu feitum hesti frá viðureignum sínum við KA. Í þremur leikjum tókst sjóliðunum aðeins að skora 3 mörk gegn 18 mörkum KA manna. Þá var farið inn á Melgerðismela og spilað við lið Ungmennafélags Saurbæjarhrepps, og frá Siglufirði komu knattspyrnumenn í heimsókn. Í júní efndi KA til fyrstu umtalsverðu keppnisferðarinnar sem farin var á vegum félagsins. Áfangastaðurinn var Breiðamýri í Reykjadal. Í tilefni af þessum merku þáttaskilum í sögu félagsins buðu hjónin Margrét og Axel Schiöth „Breiðumýrarförunum“ í kaffi sama dag og lagt var upp í Reykjadalinn. Þau hjónin voru alla tíð dyggir stuðningsmenn KA og létu stundum stórar fjárhæðir renna til félagsins. Árið 1933 sýndu KA menn í verki að þeir kunnu að meta greiðasemi hjónanna þegar þeir gerðu þau að fyrstu heiðursfélögum KA.
Eftir kaffiþamb og kökuát hjá Schiöth hjónunum var „Breiðumýrarförum“ ekkert að vanbúnaði, það var tekið að halla degi þegar lagt var af stað. Jón Sigurgeirsson, ritari félagsins, var einn ferðalanganna. Í afmælisriti KA 25 árum síðar lýsti hann ferðinni á svofelldan hátt:
„Við lögðum af stað um áttaleytið á laugardagskvöldi, að loknu fullkomnu dagsverki og ókum á vörubíl yfir í Vaðlaheiði að Veigastöðum. Fórum svo fótgangandi yfir heiðina um Fnjóskadal og Ljósavatnsskarð og náðum í Sigríðarstaði nokkru eftir miðnætti. Lágum í heyhlöðu um nóttina, og varð fáum svefnsamt. Einhver gleggsta endurminningin úr ferðinni er við litla lækinn tæra, þegar gripið var til nestisins, eftir að við höfðum hrist af okkur heyið og rykið og laugað andlit og hendur, en morgunsólin hellti fyrstu geislunum yfir sveitina. Djúpá þurfti að ríða eða vaða, og rölt var alla leið yfir Fljótsheiði. Móttökur Þingeyinga voru hinar ástúðlegustu, en dýrðlegast af öllu var hið langþráða bað í sundlauginni á Laugum. – Keppt var í tveim knattspyrnukappleikjum síðari hluta sunnudags við Reykdæli og Mývetninga...
Um klukkan hálf átta um kvöldið stukkum við upp á vörubíl, sem skilaði hópnum í Fosshól. Þaðan gengum við alla leiðina til Akureyrar um kvöldið og nóttina og vorum komnir á vinnustað á mánudagsmorgni – eftir nálægt 100 km göngu í báðum leiðum.“
Og enn var KA taplaust. Það hafði sigrað Reykdæli og Mývetninga, Siglfirðinga, Saurbæinga og Dani. Næsta skref var að fá besta knattspyrnulið Reykjavíkur norður til keppni. Víkingar urðu fyrir valinu, enda eina sunnanliðið sem ekki hafði legið fyrir skosku knattspyrnuliði, sem heimsótti Reykvíkinga þá fyrr um sumarið. Við sjálft lá að ekkert yrði úr þessu ráðabruggi, að fá Víkinga norður, því þeir vildu fá 800 krónur upp í kostnað. Sem nærri má geta lá slík fúlga ekki á lausu en þegar öll sund virtust lokuð hljóp Axel Schiöth undir bagga og reiddi fram féð. Reykvíkingarnir komu, spiluðu tvo leiki við KA og höfðu sigur í þeim báðum.
Þrátt fyrir þessa fyrstu ósigra máttu KA menn vel við una. Þegar markareikningurinn var gerður upp eftir þetta fyrsta sumar í sögu félagsins kom í ljós að hann var mjög hagstæður KA, sem hafði skorað 58 mörk alls en fengið á sig 22 mörk. Félagið hafði spilað samtals tíu leiki, unnið sjö, gert eitt jafntefli og tapað tveimur.
Úr knattspyrnuleik milli KA og Þórs á Þórsvellinum árið 1930. Næst á myndinni sést aftan á Eðvarð Sigurgeirsson
En það var um miklu meira að tefla en sigur á knattspyrnuvellinum; fyrir stórhug og áræðni stjórnenda félagsins hafði það ná að skjóta rótum og hasla sér völl í bæjarlífinu. Félagsmenn höfðu staðið fyrir hlutaveltu, haldið dansleiki fyrir bæjarbúa í tengslum við komu Siglfirðinganna og Víkings, og síðast en ekki síst hafði KA hleypt nýjum þrótti í íþróttalíf Akureyringa. Bæjarstjórn Akureyrar leit allt þetta velþóknunaraugum og viðurkenndi í verki að fram var komið nýtt íþróttafélag í kaupstaðnum þegar hún, að áliðnu ári 1928, ákvað að styrkja KA um 400 krónur.
Norðurlandsmótið
Lengst framan af var Norðurlandsmótið, eða Haustmótið eins og það var líka kallað, stærsti árlegi viðburðurinn í knattspyrnulífi Norðlendinga. Það var upphaf þesas móts að Ungmennafélag Akureyrar og Knattspyrnufélagið Magni í Höfðahverfi gáfu forkunnarfagran verðlaunagrip, silfurknött í fullri stærð, til að keppa um. Þetta var árið 1919. Fyrstu félögin til að bítast um knöttinn fagra voru gefendurnir, UMFA og Magni. Magni sigraði. Fimm árum síðar vann Þór silfurknöttinn til eignar. Um leið hljóp allur vindur úr félaginu og Norðurlandsmótið lagðist af.
Árið 1930 var íþróttafélagið Þór vakið til lífsins aftur. Um það leiti var orðið til nýtt og lifandi íþróttafélag í bænum, Knattspyrnufélag Akureyrar, sem átti ekki svo lítinn þátt í endurreisn Haustmótsins. Og það ýtti á að til var veglegur bikar að keppa um. Þannig var mál með vexti að sumarið 1927 hafði Knattspyrnuliðið Valur heimsótt Akureyringa og við það tækifæri gefið Þór og Ungmennafélaginu stóran silfurbikar sem keppa skyldi um í Norðlendingafjórðungi. Norðlensk knattspyrnufélög byrjuðu hinsvegar ekki að reyna með sér um „Valsbikarinn“ fyrr en 1930. Íþróttaráði Akureyrar var þá falið að semja reglugerð um bikarinn.
Fyrsta félagið til að vinna „Valsbikarinn“, og um leið sæmdarheitið „Besta knattspyrnufélag Norðlendinga“, var KA. Það vann Þór 5-2 og Magna 4-1. Lið Norðurlandsmeistaranna var skipað markmanninum Sigurði Jónssyni, aftastir í vörninni voru þeir Kjartan Ólafsson og Kári Hálfdánarson, á miðjunni spiluðu Friðþjófur Pétursson, Barði Brynjólfsson og Arngrímur Árnason. Fyrir framan þá voru Eðvarð Sigurgeirsson, Tómas Steingrímsson, Jakob Gíslason, Jón Sigurgeirsson og Karl Benediktsson.
Meistaraflokkur KA 1931 til 1932. Aftari röð frá vinstri: Arngrímur Árnason, Barði Brynjólfsson, Kjartan Ólafsson, Eðvarð Sigurgeirsson, Friðþjófur Pétursson og Karl Benediktsson. Sitjandi: Kári Hálfdánarson, Tómas Steingrímsson, Jakob Gíslason, Jón Sigurgeirsson og Sigurður Jónsson.
Eins og sjá má af liðsuppstillingunni þótti knattspyrnumönnum þessara ára mun girnilegra að skora mörk en að verja eigið mark. Þessi hugsunarháttur var áfram við lýði næstu árin og jafnvel áratugina. Því þótti það lengi vel ekkert afbrigðilegt þó skoruð væru 10 mörk í leik. Til dæmis sigraði KA lið Þórs með 8 mörkum gegn 1 sama sumarið og þeir unnu „Valsbikarinn“ í fyrsta skiptið árið 1930.
Næstu ár á eftir gekk hvorki né rak fyrir hin félögin að sækja bikarinn í hendur KA-manna. Það var ekki fyrr en 1934 að Magna mönnum tókst að rjúfa sigurgöngu KA á Haustmótinu. En Adam var ekki lengi í Paradís. Árið eftir endurheimti KA bikarinn, og það er mála sannast að oft hefur félagið verið sigursælt á Knattspyrnumóti Norðurlands. Þó þetta merka mót hafi sett niður í seinni tíð þá megum við aldrei gleyma því að á árum áður þótti það stórviðburður og var jafnan auglýst rækilega.
Frá leik KA og Völsunga á Húsavík 1931. Leikurinn fór fram á bökkunum norðan við núverandi flutningahöfn á Húsavík
Og þau eru orðin ófá félögin sem hafa sent keppnisflokka á þetta fyrrum stórmót í knattspyrnu. Frá Akureyri hafa komið fjögur lið, Íþróttafélagið Þór, Ungmennafélag Akureyrar, Íþróttafélagið Mjölnir og svo auðvitað Knattspyrnufélag Akureyrar. Ungmennasamböndin í Eyjafirði og Skagafirði og Héraðssamband Þingeyinga hafa átt lið í keppninni og einnig Siglfirðingar, Sauðkrækingar og Höfðhverfingar.
Saga Norðurlandsmótsins greinir ekki aðeins frá prúðum drengjum í leik, stundum hefur kastast í harða kekki með keppendum. Það gerðist til dæmis árið 1938 að Þór mætti ekki til leiks og KA vann mótið. Tildrögin voru þau að um sumarið hafði KA ráðið skoskan mann, Robert Jack, til að þjálfa knattspyrnumenn sína. Þegar dró að Norðurlandsmótinu útnefndi Íþróttaráð Akureyrar Skotann til að dæma leik KA og Þórs. Undir þessu töldu Þórsarar sig ekki geta setið því dómarinn væri útlendingur, alókunnugur félaginu og einkakennari KA. En það hékk fleira á spýtunni, KA hafði nefnilega neitað Þórsurum um að njóta leiðsagnar Roberts Jacks og út af því spunnust sárindi. Þegar íþróttaráð gerði sig ekki líklegt til að breyta um dómara dró Þór lið sitt út úr keppninni og kærði ráðið til ÍSÍ. Þar fékk kæran engar undirtektir. Ástæðurnar sem lágu henni til grundvallar, þóttu veigalitlar og málinu var vísað frá.
„Helvítis kötturinn át allt“
Knattspyrnutíðin 1939 byrjaði ekki gæfulega hjá KA-liðinu. Á júní-mótinu, þar sem keppt var um nýjan bikar gefinn af Robert Jack, beið liðið sinn stærsta ósigur til þessa. Í glampandi sól og blæjalogni, að viðstöddum fjölmörgum áhorfendum, malaði Þór KA 7-1.
Knattspyrnulið KA 1938. Aftasta röð frá vinstri: Eðvarð Sigurgeirsson, Þórhallur Guðlaugsson, Árni Ingimundarson, Jakob Gíslason og Stefán Traustason. Miðröð: Róbert Jack, þjálfari, Guttormur Berg, Tómas Steingrímsson, Helgi Schiöth og Karl Benediktsson formaður KA. Fremsta röð: Júlíus Jónsson, Páll A. Pálsson og Georg Jónsson.
Augljóslega varð ekki unað við þessi málalok og nú tók við hver leikurinn af öðrum hjá KA. Farið var til Dalvíkur og Árskógssands, siglt til Siglufjarðar, en þar beið KA hroðalegan ósigur 8-2. Á Akureyri var leikið við enska sjóliða af H.M.S. Leda og síðar áhöfn H.M.S. Pelican. Það var mjög algengt á þessum árum að KA spilaði við áhafnir erlendra skipa er vörpuðu ankerum við Akureyri. Árið áður höfðu KA-menn til dæmis sigrað lið frá þýska skemmtiferðaskipinu General von Steuben og danska varðskipinu Hvidbjörnen.
Þrátt fyrir velgengni KA gegn erlendum skipsáhöfnum gátu áhangendur liðsins ekki litið björtum augum fram til Haustmótsins. Bæði Siglfirðingar og Þórsarar höfðu rótburstað KA-liðið fyrr um sumarið. Það var því ljóst að baráttan um „Valsbikarinn“ yrði hörð. Ekki varð það heldur til að slá á taugatitring KA-manna að þeir áttu þess nú kost að fá bikarinn til eignar.
Í byrjun september sendi Tómas Steingrímsson, formaður knattspyrnunefndar KA, íþróttaráði staðfestingu á væntanlegri þátttöku félagsins í Norðurlandsmótinu og lista yfir keppendur KA:
1. Þorgeir Pálsson
2. Kjartan Ólafsson
3. Kristján Eiríksson
4. Guttormur Berg
5. Árni Ingimundarson
6. Ragnar Pétursson
7. Eðvarð Sigurgeirsson
8. Þórhallur Guðlaugsson
9. Jakob Gíslason
10. Helgi Schiöth
11. Páll A. Pálsson
12. Bjarni Kristinsson
13. Páll E. Jónsson
14. Sverrir Guðmundsson
15. Georg Jónsson
16. Haraldur Sigurgeirsson
Sunnudaginn 17. september (1939) hófst fyrsti leikur mótsins. KA og KS leiddu saman hesta sína á KA-vellinum. Það var hvasst, allur samleikur fór út um þúfur og innbyrðis rifrildi leikmanna KA setti leiðinlegan svip á leikinn, en um hann skrifaði ónafngreindur KA-félagi:
„Af KA-mönnum var Gutti langbestur. Hann lagði hvern boltann öðrum betri fyrir framherjana. En það var öfugt með framherja vora og kött Bakkabræðra. Í þá gengur ekkert, en helvítis kötturinn át allt.“
Úrslit leiksins urðu 4-1 fyrir KS. En Siglfirðingum tókst ekki að leggja Þórsarana að velli svo seinasti leikur mótsins, milli KA og Þórs, var hreinn úrslitaleikur. Þór nægði jafntefli til að verða Norðurlandsmeistarar en KA varð að vinna til að eiga möguleika á titlinum. Í tvísýnum leik, þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna, tókst KA að ná yfirhöndinni og sigra.
Öll félögin voru nú jöfn, með 2 stig hvert og framlengja varð mótið. En í seinni umferðinni urðu úrslit með nokkuð öðrum hætti en í þeirri fyrri. Siglfirðingar töpuðu 6-3 fyrir KA en unnu Þór. Enn var því um úrslitaleik að ræða þegar Akureyrarfélögin tvö mættu annað sinnið til leiks á KA-vellinum. Þór byrjaði leikinn af krafti, enda léku þeir með vindi. Þeir uppskáru þó ekki nema eitt mark og urðu að auki fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Staðan í hálfleik var því 1-1. Í seinni hálfleik tók KA öll völd á vellinum og skoraði fjögur mörk gegn engu. Eftir leikinn voru KA-félagar að vonum kampakátir en þó raunsæir. Einn sterkasti varnarmaður liðsins, Kjartan Ólafsson, kvartaði yfir því að vörnin hefði ekki verið „... eins samstillt og í fyrri leik KA og Þórs.“ Og besti knattspyrnumaður félagsins um árabil, Helgi Schiöth, sagði: „Þetta var lítill „skali“, mest hugsað um að ná knettinum með einhverjum ráðum, en minna um hvert sparkað var.“
En KA gat vel við unað. Síðan 1930 hafði félagið unnið Norðurlandsmótið átta sinnum (en Magni og Þór einu sinni hvort félag) og „Valsbikarinn“ var nú þeirra til varanlegrar eignar. Árið eftir eða 1940 gáfu KA-menn útskorinn tréknött á fæti til að keppa um á Haustmótinu. Fimm árum síðar vann Þór hann til eignar á fjölmennasta Norðurlandsmóti sem haldið hafði verið. Fimm lið mættu þá til keppni, Knattspyrnufélag Akureyrar, Þór, Magni úr Höfðahverfi, Völsungur frá Húsavík og Knattspyrnufélag Siglufjarðar.
„Íslenska undrið“
Sumarið 1932 bauð KA knattspyrnuliði frá Ísafirði norður. Gullfoss flutti Ísfirðingana til Akureyrar. Um borð voru einnig tveir KA-félagar, Þórhildur Steingrímsdóttir, sem verið hafði í Svíþjóð á leikfiminámskeiði, og Helgi Schiöth. Helgi var að koma frá Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hann hafði dvalið hjá skyldfólki sínu síðan sumarið 1929. Á þeim slóðum bjuggu margir evrópskir innflytjendur og afkomendur þeirra og knattspyrna var þar mikið stunduð. Helgi þótti strax vel liðtækur, jafnvel svo að hann spilaði lengi með tveimur liðum, öðru í III. deild og hinu í I. deild. Hinn knálegi Íslendingur vakti fljótlega mikla athygli fyrir færni sína á knattspyrnuvellinum. Það gekk svo langt að í blöðunum var hann kallaður „The Icelandic Wonder“. Um það bil fjórum áratugum síðar, í Lesbók Morgunblaðsins 22. desember 1969, valdi séra Robert Jack 30 bestu knattspyrnumennina íslenska sem hann hafði kynnst á löngum ferli sínum á Íslandi, en Robert kom fyrst til landsins 1936 að þjálfa knattspyrnumenn Vals. Í þessum 30 manna úrvalshópi var KA-maðurinn Helgi Schiöth.
Og hvort sem það var heimkomu Helga að þakka eða einhverju öðru þá tapaði KA ekki leik á árinu 1933 og vann þá meðal annarra lið Fram 6-3.
Á þessum árum, þegar þátttaka í Íslandsmóti þótti ekki sjálfsögð, lagði KA nokkurt kapp á að bjóða reykvískum liðum norður til keppni. Fyrsta liðið, sem kom norður í boði félagsins, var Víkingur, síðar komu KR-ingar og 1932 2. flokkur Vals. Kapplið Valsaranna var skipað sigursælum og tápmiklum piltum sem sjálfir höfðu haft allan veg og vanda af skipulagningu ferðarinnar með Es. Gullfossi vestur og norður fyrir land. Á Akureyrar var lítið sem ekkert gert fyrir yngri knattspyrnumennina en þó tókst báðum félögunum KA og Þór að skrapa saman liðum í 2. flokki pilta. Í hálfrar aldar afmælisblaði Vals 1961 eru teknar upp glefsur úr ferðasögu piltanna frá árinu 1932. Höfundurinn er Sveinn Zoëga sem um skeið var formaður Vals:
„[Á Akureyri] tóku á móti okkur og buðu okkur velkomna fyrir KA þeir Jón Sigurgeirsson og Jónas Jónasson.
Sofið var í Iðnskólanum, en ýmsir félagar KA tóku okkur í fæði heim til sín, og efast ég um að til hafi verið betra heimili á Akureyri, en við nutum gestrisni hjá.
Fyrsti leikur okkar á Akureyri var háður við [Íþróttafélagið] Þór, 2. fl. og unnum við 6:0. – Daginn eftir lékum við handknattleik við KA-félaga og unnum 14-7. 15. júní lékum við við 2. fl. KA og unnum 5-1.
KA-menn voru töluvert leiknari en Þórsmenn, en ekki eins stæltir. 15. Júní var kappleikur milli okkar og meistaraflokks KA. Sá leikur endaði með jafntefli 1-1. Leikurinn var allur mjög fjörugur og spennandi.“
Það er ekki laust við að nokkurs stærilætis gæti í frásögninni af jafnteflisleiknum við meistaraflokk KA. Enda má segja að Vals-piltarnir höfðu ástæðu til að vera hreyknir því nokkrum dögum síðar keppti KA-liðið á Íslandsmeistaramótinu í Reykjavík og vann þá bæði Fram og Víking.
Þegar kom fram undir 1940 var heldur byrjað að halla undan fæti fyrir knattspyrnumönnum KA. Þeir unnu Norðurlandsmótið sjaldnar og urðu oftar en nokkur sinni fyrr að lúta í lægra haldi fyrir Þórsurum. En þrátt fyrir að KA gæti sjaldan á 5. áratuginum hreykt sér af því að eiga besta knattspyrnuliðið í Norðlendingafjórðungi þá voru þeir samt fullfærir um að bíta frá sér. Það sönnuðu þeir eftirminnilega árið 1945 þegar þeir unnu Vormótið í þriðja sinnið í röð. Um haustið kom úrvalslið úr flugher Breta til bæjarins. Bretarnir höfðu spilað nokkra leiki í Reykjavík og staðið sig vel. Það greip því nokkur kvíði um sig á Akureyri meðal knattspyrnuáhugamanna sem óttuðust að gestirnir myndu leika heimamenn grátt. En það fór á nokkuð annan veg. Sameinað lið Þórs og KA sigraði Bretana 2-0 í fyrsta leiknum af þremur. Og KA var ekki dauðara úr öllum æðum en svo að nálega helmingur úrvalsliðsins var skipaður félagsmönnum þess. Í vörninni var Jósteinn Konráðsson. Helgi Schiöth og Árni Ingimundarson spiluðu á miðjunni og Ragnar Sigtryggsson og Baldur Árnason, sem þá var aðeins 17 ára, voru í stöðum vinstri innherja og miðframherja.
Daginn eftir sigruðu Bretarnir og þriðja leikinn unnu Akureyringar.
Það mátti því vera hverjum manni ljóst að þrátt fyrir slæmt gengi á Norðurlandsmótinu nær allan 5. áratuginn þá átti KA engu að síður vel frambærilega knattspyrnumenn. Og þegar kom fram á 6. áratuginn tóku þeir aftur til við að vinna Knattspyrnumót Norðurlands.
Segja má að árið 1952 hafi hringt inn nýja tíma fyrir knattspyrnumenn á Akureyri. Þá um haustið léku meistaraflokkar KA og Þórs vígsluleik á nýjum og glæsilegum íþróttavelli við Hólabrautina. KA sigraði með einu marki gegn engu. Haukur Jakobsson skoraði í norðurmarkið hjá Inga Vigni Jónassyni beint úr aukaspyrnu.
En þessi septembermánuður varð Hauki ekki aðeins eftirminnilegur fyrir þetta mark því fáeinum dögum fyrr hafði hann orðið Akureyrarmeistari í fimmtarþraut. Með Hauki færðist nýr baráttuvilji í KA-liðið og það komst á sigurbraut. Leikmenn þess knúðu sífellt fastar á dyr landsliðsnefndar. Ragnar Sigtryggsson, Einar Helgason og Haukur voru valdir í pressuleiki og allir spiluðu þeir með landsliði þó að Ragnar einn yrði þess heiðurs aðnjótandi að leika opinberan landsleik.
Ragnar í landsliðið
Ragnar Sigtryggsson, betur þekktur undir nafninu Gógó meðal Akureyringa, var kominn á fertugsaldur þegar hann loksins fékk náð fyrir augum landsliðsnefndar. Það var árið 1957 að nefndin valdi hann til að spila í landsliði Íslands gegn Belgum.
Heilum áratug fyrr hafði Ragnar æft með landsliðinu án þess þó að spila með því opinberan landsleik.
Ungur að árum, eða aðeins 15 ára, lék hann sinn fyrsta meistaraflokksleik með KA. Ragnar var tíðast hægri innherji en á löngum knattspyrnuferli lék hann nánast allar stöður á vellinum, þó stóð hann aldrei í þeim stórræðum að setja upp markmannshanskana, þótti víst of stuttur í það starf. Um tíma var það reyndar mjög áberandi hversu framlínumenn ÍBA voru lágvaxnir, sérstaklega þegar þeir spiluðu saman KA-félagarnir, Baldur Árnason, Björn Ólsen, Ragnar og bróðir hans Hermann. Einu sinni gerðist það í leik að Haukur Jakobsson braust upp kantinn og gaf að sínu viti ágæta sendingu fyrir markið. Boltinn sveif í glæsilegum boga yfir höfðum félaga hans en enginn þeirra var nógu hávaxinn til að geta nýtt sér færið. Þá gall í Ragnari, sem þótti allra manna orðheppnastur og mestur æringi: „Geturðu ekki gefið tuðruna með jörðinni svo við getum skallað hana?“
Nú var þessi snjalli innherji úr KA loksins kominn í landsliðið en það var mál manna að þar væri hann búinn að eiga heima í mörg ár þó að landsliðsnefndin hefði ekki komið auga á það fyrr. Framundan var leikur í sjálfri heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu.
Ekki var búist við því að Íslendingar hefðu roð við belgísku atvinnumönnunum og það reyndist rétt, Belgarnir unnu með fimm mörkum gegn tveimur. Eftir leikinn var Ragnari hælt í blöðunum fyrir góða knatttækni, hreyfanleika og hárfínar sendingar.
Og nú var annað gullaldarskeið KA runnið upp eftir lægð í áratug. Fjórir KA-menn, Einar Helgason, Haukur Jakobsson, Ragnar og Guðmundur „Gósi“ Guðmundsson, voru á þröskuldi þess að verða viðloða landslið Íslands. Má raunar ímynda sér að ýmislegt annað en færni þeirra í knattspyrnu hafi ráðið því að þeir léku ekki fleiri landsleiki fyrir Íslands hönd en raun varið á. Þar var sjálfsagt þyngst á metaskálunum fjarlægðin á milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Um miðjan sjötta áratuginn byrjuðu svo þeir tveir menn að láta til sín taka sem einna mestan svip áttu eftir að setja á leik KA og ÍBA næstu árin. Þetta voru vinirnir og landsliðsmennirnir Jón Stefánsson og Jakob Jakobsson.
Framhald >> Knattspyrnulið ÍBA verður til