Flýtilyklar
Keppnistímabilin 1985-1986
Barningur í 2. deild
Aldrei fyrr í sögu knattspyrnudeildar KA höfðu aðrar eins mannabreytingar orðið á meistaraflokksliði félagsins og fyrir keppnistímabilið 1985. Sjö hurfu á braut, þeirra á meðal Ásbjörn Björnsson og Ormarr Örlygsson, og einn var úr leik vegna meiðsla, þjálfarinn Gústaf Baldvinsson. Það var því ekki að undra þótt fæstir reiknuðu með KA í toppbaráttunni í 2. deild sumarið 1985. Fyrirfram var búist við því að ÍBV, ÍBÍ og Völsungur og jafnvel KS, myndu bítast um efstu sætin. Það varð heldur ekki til að bæta úr skák að varnarmaðurinn ungi, Bergþór Ásgrímsson, meiddist illa í fjórðu umferð mótsins og töldu læknar tvísýnt um að hann myndi leika knattspyrnu aftur. Í stað Bergþórs kom Ágúst tvíburabróðir hans inn í liðið. Til að bæta gráu ofan á svart gerðist það skömmu síðar að Þorvaldur Jónsson, eini markvörður KA, handleggsbrotnaði á æfingu. Nú var úr vöndu að ráða, liðið markmannslaust og margir leikir framundan. Í snarheitum fundu KA-menn sér annan markvörð, Þorvald Örlygsson, sem að vísu var vanari því að hrella markmenn en að vera hrelldur af markagráðugum sóknarmönnum.
KA var þó ekki alveg rúið allri gæfu. Um vorið fékk félagið liðsstyrk, Þorvald Þorvaldsson úr Þrótti og markaskorarann mikla Tryggva Gunnarsson.
Og það kom fljótlega á daginn að KA-menn voru ekkert á því að leggja árar í bát. Alveg til loka mótsins áttu þeir góða möguleika á 1. deildar sæti og aðeins einu stigi munaði að þeir næðu þeim áfanga. Þeir gátu státað af markahæsta leikmanni 2. deildar, Tryggva Gunnarssyni, og í Bikarkeppni KSÍ komst KA, í fyrsta sinn í sögu félagsins, í fjögurra liða úrslit.
Stefán Gunnlaugsson og Guðmundur Heiðreksson fagna þegar KA-Heimilið er tekið í notkun árið 1986
Það var því fremur bjart yfir þegar keppnistímabilið 1986 rann upp. KA var talið sigurstranglegt og leikmenn þess ætluðu sér ekkert minna en að endurheimta sætið í 1. deild. Aldrei þessu vant hafði liðið ekki tekið neinum stökkbreytingum milli ára, þrír leikmenn voru að vísu farnir og tveir nýir komnir í þeirra stað, að öðru leiti var hópurinn óbreyttur. Á mælikvarða KA-manna voru þetta mjög óveruleg mannaskipti. Síðan 1980 höfðu orðið svo gagngerar breytingar á liðinu að aðeins einn maður sem lék með því þá, Erlingur Kristjánsson, var enn í hópnum sex árum síðar. Og undir forystu Erlings, sem var fyrirliði KA, beið liðið ekki ósigur fyrr en í 12. umferð og allt sumarið 1986 töpuðu KA-menn ekki nema þremur leikjum í 2. deild. Þeir urðu þó að sætta sig við annað sætið í deildinni, aðeins einu stigi á eftir Völsungum frá Húsavík. Tryggvi Gunnarsson varð markakóngur deildarinnar annað árið í röð og við blasti 1. deildarsætið að ári.
Keppnistímabilin 1983-1984 << Framhald >> Keppnistímabilið 1987