Flýtilyklar
Rætt við Atla Svein Þórarinsson
- efnilegan leikmann KA í knattspyrnu
Í liði KA síðastliðið sumar vakti einn ungur leikmaður athygli öðrum fremur fyrir agaðan leik, leikskilning og prúðmennsku í hvívetna. Pilturinn, Atli Sveinn Þórarinsson, er uppalinn KA-maður með hjartað á réttum stað gagnvart félagi sínu. Atli Sveinn á ekki langt að sækja það, því faðir hans, Þórarinn Egill Sveinsson, hefur í mörg ár verið einn ötulasti stuðningsmaður KA. Gildir það raunar um báða foreldra Atla Sveins, því móðir piltsins, Inga Einarsdóttir, hefur einnig verið boðin og búin að rétta félaginu hjálparhönd hvenær sem er. Þórarinn var starfandi innan knattspyrnudeildar KA til margra ára, meðal annars sem formaður. Litli bróðir Atla Sveins, Kjartan, hefur þegar sýnt sambærilega tilburði og stóri bróðir, í handknattleik sem knattspyrnu. Af framansögðu má sjá að mikilvægi Þórarins og Ingu verður seint metið fyrir félag okkar, KA.
Atli, fullt nafn og fæðingardagur?
Atli Sveinn Þórarinsson, fæddur 23. janúar 1980.
Hvenær byrjaðir þú í boltanum og hver var hvatningin?
Ætli ég hafi ekki byrjað strax 6-7 ára, það lá einhvern veginn beint við þar sem maður var alltaf að leika sér í fótbolta og í framhaldi af því fór ég að leita á æfingar hjá KA.
Nú hefur faðir þinn, Þórarinn, löngum verið tengdur félaginu, var það neistinn sem kveikti í þér eða varst þú byrjaður áður?
Í sjálfu sér erfitt að segja, þetta hangir allt saman í minningunni. Ég fór snemma að fara á leiki með pabba og þetta kom allt af sjálfu sér má segja – og það kom aldrei annað til greina en KA!
Hvernig er það Atli, áttu eða áttirðu þér fyrirmyndir úr til dæmis íslenska eða enska boltanum, horfir maður ekki alltaf í kringum sig þegar farið er af stað?
Ég hef alla tíð haldið mikið upp á Franco Baresi úr AC Milan, mér hefur alltaf þótt mikið til hans koma, hann hefur því verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Auk Baresis hefur Maldini úr sama liði verið mér fyrirmynd enda frábær líka. Þessir ítölsku leikmenn eru meira mínar týpur en til dæmis enskir leikmenn svo ég nefni þá öðrum fremur.
Þú hefðir væntanlega ekkert á móti því að komast að hjá AC Milan einnig?
Nei, svo sannarlega ekki!
Nú hefur þú verið ásamt mörgum öðrum afreksstrákum í KA áberandi í handbolta og fótbolta, hefur þér fundist þetta ganga vel upp hjá þér?
Já, hingað til hefur það gengið vel, en tæplega lengur. Nú stend ég frammi fyrir vali og auðvitað er togað í mann úr báðum áttum, svo valið er erfitt. Æfingarnar eru orðnar svo margar í hverri viku, fótboltinn æfir orðið allt árið og eins er það með handboltann, ég verð því að fara að velja...
Atli, finnst þér ekki skipta miklu máli að hafa fyrirmyndirnar í meistaraflokknum, að þurfa ekki að leita þeirra annars staðar?
Jú, svo sannarlega. Handboltinn togar rosalega þegar svona vel gengur enda hafa ekki verið neinir smá karlar þar undanfarin ár. Í handboltanum sjá strákarnir að það er hægt að ná árangri og komast í fremstu röð en svo er ekki með fótboltann í augnablikinu.
Í gamla daga vorum við skíthræddir við „stóru“ nöfnin að sunnan, að minnsta kosti lengst af en nú horfir öðruvísi við, þið eruð búnir að marg sanna ykkur í yngri flokkum KA eða hvað?
Ég reikna með að þú sért að tala um handboltann í þessu tilfelli og þar hefur þetta raunverulega alveg snúist við, þar er borin virðing fyrir nafni KA. Við höfum unnið marga Íslandsmeistaratitla á undanförnum árum. Þar er þáttur Jóhannesar Bjarnasonar ofboðslega stór og að mínu mati er Jóhannes besti yngri flokka þjálfari á landinu. Svona maður er félaginu mjög mikilvægur.
Sérðu fyrir þér að við getum gert sömu hluti í fótboltanum?
Já, alveg tvímælalaust tel ég svo vera, það eru nokkrir ungir menn að koma upp núna og þó ekki hafi gengið vel í sumar er ég nokkuð viss um að gangi vissir þættir upp sem klikkuðu í sumar komumst við upp í efstu deild. Þá verður ýmislegt hægt að gera.
Atli Sveinn í hörkukeppni við helstu andstæðingana, Þórsara
Framtíðin innan fótboltans, þú ert bráðefnilegur spilari – þú hefur hug á að leggja þig fram þar eða hvað?
Já, það ætla ég mér að gera. Ég stefni að því að minnka handboltaiðkunina og auka fótboltaæfingarnar, vinna meðal annars í boltatækninni sjálfur þegar tími gefst til – ég myndi segja að það væri þar sem ég þyrfti að bæta mig mest. Eins verð ég að vera duglegur að hlaupa til að létta mig aðeins, en annars gildir að vera duglegur með sínu liði.
Hvernig líst þér svo á nýjan þjálfara KA, Einar Einarsson?
Mér líst mjög vel á hann, Einar er reyndur leikmaður og þjálfari. Það er mikill bolti í honum og Einar hefur verið hjá mörgum þjálfurum sjálfur eins og til dæmis Yuri Sedov – svo hann veit hvað hann er að gera. Sem sjúkraþjálfari veit Einar 100% hvað þarf að gera þjálfunarlega séð.
Síðastliðið sumar, 1997, gekk ekki sem skyldi, en mér heyrist enginn ykkar skammast út í Sigurð þjálfara, menn líta fremur í eigin barm og viðurkenna að skilaboðin bara hreinlega náðu ekki í gegn!
Mér fannst Siggi standa sig vel að flestu leiti, margir leikir sem töpuðust bara vegna eigin aumingjaskapar okkar, menn höfðu bara ekki trú á því sem þeir voru að gera. Þegar fór að líða á tímabilið hurfu frá okkur fjöldi manna er fóru út í nám, það er spurning hvort við eigum að treysta á slíka spilara, sem geta ekki klárað deildina með okkur.
Að lokum Atli, skiptir ekki öllu máli að liðið nái upp í efstu deild og hætta þessu í 1. (áður 2.) deild?
Það er bara lykilatriði, það er almennur áhugi fyrir fótbolta þótt fáir skili sér á völlinn eins og sakir standa. Þegar hingað koma til dæmis landsleikir mæta að minnsta kosti 1.000 manns svo þetta fólk er til staðar og við þurfum að ná því á völlinn með bættum árangri.
Við þökkum Atla Sveini viðtalið og megi drengurinn vera KA-maður sem lengst, slíkir sem hann eru álíka sjaldgæfir og hvítir hrafnar.