Flýtilyklar
Þór/KA Íslandsmeistari 2012
Það voru ekki margir sem reiknuðu með liði Þórs/KA í toppbaráttunni sumarið 2012. Liðið tapaði öllum leikjum sínum rétt fyrir mót og var spáð fimmta sæti deildarinnar. Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við liðinu sem var mikið breytt frá árinu áður en allir erlendu leikmenn liðsins fóru og í þeirra stað komu þrír bandarískir leikmenn sem heldur betur smullu inn í liðið.
Fyrsti leikur sumarsins var gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Boganum á Akureyri en leikurinn var fluttur inn vegna veðurs. Eftir að Ásgerður Baldursdóttir hafði komið gestunum yfir úr vítaspyrnu skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir tvívegis fyrir okkar lið eftir sendingar frá Tahnai Annis. Katrín sem hafði komið norður frá KR átti frábæran leik átti skot að marki á 86. mínútu sem var varið en Sandra María Jessen fylgdi á eftir og innsiglaði óvæntan og gríðarlega sætan sigur.
Íslandsmeistaratitillinn var tryggður með stórsigri í síðasta heimaleiknum og fögnuðurinn var eðlilega mikill í leikslok
Sigurinn kom spekingum deildarinnar mikið á óvart og jafnvel liði Þórs/KA einnig. En hann gaf liðinu mikla trú á að þær gætu unnið hvaða lið sem er og í kjölfarið vannst 0-1 útisigur á liði KR þar sem Kayla Grimsley skoraði sigurmarkið eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen eftir mistök heimastúlkna. Stelpurnar voru einar á toppnum eftir fyrstu tvo leikina.
Valur mætti norður í þriðju umferðinni og Dagný Brynjarsdóttir kom Valsstúlkum yfir strax á 8. mínútu eftir sendingu frá Dóru Maríu Lárusdóttur. En Sandra María Jessen jafnaði metin á 79. mínútu eftir fyrirgjöf frá Kaylu Grimsley og þar við sat, 1-1 eftir hörkuleik. Liðið fór aftur á sigurbrautina í Kaplakrika með 1-4 sigri á FH. Staðan var orðin 0-3 eftir hálftíma leik með mörkum frá Katrínu Ásbjörnsdóttur, Kaylu Grimsley og Láru Einarsdóttur. FH minnkaði muninn í þeim síðari áður en Sandra María Jessen gulltryggði sigurinn.
Þór/KA og Breiðablik voru jöfn á toppi deildarinnar með 10 stig eftir fjóra leiki þegar þau mættust á Þórsvelli. Aftur gerðu stelpurnar sér lítið fyrir og unnu 2-0 sigur með mörkum frá Katrínu Ásbjörnsdóttur og Söndru Maríu Jessen í fyrri hálfleik. Kayla Grimsley lagði upp bæði mörkin og voru stelpurnar nær því að bæta við í þeim síðari heldur en gestirnir að koma sér aftur inn í leikinn.
Stelpurnar nýttu sér það svo til hins ítrasta að Breiðablik og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli í næstu umferð og lögðu Aftureldingu 0-4 að velli í Mosfellsbænum. Sandra María Jessen skoraði tvívegis og lagði upp mark fyrir Kaylu Grimsley sem lagði upp fyrstu þrjú mörk liðsins en Tahnai Annis skoraði einnig í leiknum. Staðan var því ansi góð á toppnum eftir fyrstu sex umferðir sumarsins.
En sigurgangan var stöðvuð þegar ÍBV mætti norður í leik þar sem stelpurnar okkar náðu sér aldrei á strik. Vestmannaeyingar leiddu 0-3 í hálfleik og unnu að lokum 1-4 sigur eftir að Kayla Grimsley hafði náð að laga stöðuna í síðari hálfleiknum. Liðið var þó enn á toppnum en aðeins munaði einu marki á markatölu Þórs/KA og Stjörnunnar auk þess sem ÍBV var aðeins stigi á eftir í þriðja sætinu og Breiðablik stigi þar fyrir aftan.
Stelpurnar unnu 16 af 21 leik sínum í deild og bikar
Í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins fékk liðið útileik gegn Keflavík og það tók langan tíma að brjóta niður mótspyrnu Keflvíkinga. Arna Sif Ásgrímsdóttir gerði eina mark fyrri hálfleiks en tvö mörk snemma í síðari hálfleik frá þeim Þórhildi Ólafsdóttur og Tahnai Annis gerðu útum leikinn. Arna Sif bætti við marki áður en Hafrún Olgeirsdóttir gulltryggði sigurinn en í millitíðinni höfðu Keflvíkingar lagað stöðuna og 1-5 sigur niðurstaðan og sæti í 8-liða úrslitum tryggt.
Aftur nýtti liðið sér jafntefli annarra liða í toppbaráttunni þegar ÍBV og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli. Stelpurnar unnu 2-6 stórsigur á Selfossi eftir að staðan hafði verið jöfn í leikhléi. Sandra María Jessen skoraði bæði mörk liðsins í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari skoruðu þær Kayla Grimsley, Lára Einarsdóttir, Tahnai Annis og Lillý Rut Hlynsdóttir mörkin og liðið því aftur eitt á toppnum.
Liðið hélt sínu striki í 9. umferðinni og vann öruggan 4-0 sigur á Fylki á Akureyri. Sandra María Jessen skoraði tvö fyrstu mörkin áður en Katrín Ásbjörnsdóttir gerði það þriðja og var staðan 3-0 í leikhléi. Tahnai Annis gerði loks fjórða markið á 70. mínútu og liðið áfram á toppnum þegar sumarið var hálfnað. Tvö stig skildi liðið frá Stjörnunni sem var í 2. sæti og þar fyrir aftan var ÍBV aðeins stigi á eftir.
Í bikarnum fengu stelpurnar heimaleik gegn Fylki í 8-liða úrslitum. Staðan var markalaus að fyrri hálfleik loknum en Tahnai Annis kom Þór/KA yfir á 69. mínútu áður en Árbæingar jöfnuðu metin átta mínútum síðar. Sandra María Jessen tryggði hinsvegar sigurinn með ódýru marki en leikmaður Fylkis skaut í hana og þaðan hrökk boltinn í markið og 2-1 sigur kom liðinu í undanúrslitin.
Þór/KA kom öllum á óvart og hampaði bikarnum þrátt fyrir að vera aðeins spáð 5. sæti deildarinnar fyrir mót
Þarna var pressan á liðinu orðin töluverð og flestir á því að það yrði erfitt fyrir liðið að halda sama dampi í síðari hlutanum. Stutt væri í liðin sem þekktu það að vera í toppbaráttunni og það væri bara tímaspursmál hvenær liðið myndi missa toppsætið. Þegar fyrri hlutinn var gerður upp fór mikið fyrir okkar fólki, Sandra María Jessen var valin besti leikmaður deildarinnar og Jóhann Kristinn Gunnarsson besti þjálfarinn.
Það var um algjöran toppslag að ræða í fyrsta leik seinni umferðarinnar er stelpurnar sóttu Stjörnuna heim í Garðabæinn. Með sigri myndu Íslandsmeistararnir hrifsa toppsætið af okkar liði og Stjarnan sótti af krafti. En það var Tahnai Annis sem kom Þór/KA yfir í upphafi leiks eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen. Harpa Þorsteinsdóttir náði að jafna fyrir hlé og Garðbæingar sóttu áfram af krafti. Það var hinsvegar Sandra María sem skoraði sigurmarkið kortéri fyrir leikslok eftir sendingu frá Kaylu Grimsley og Þór/KA náði þar með fimm stiga forystu í deildinni.
Stelpurnar lentu hinsvegar í basli með botnlið KR í næstu umferð, Katrín Ásbjörnsdóttir og Sandra María Jessen komu liðinu í 2-0 snemma leiks en Anna Garðarsdóttir minnkaði muninn í upphafi síðari hálfleiks og í kjölfarið var KR nær því að jafna metin en stórleikur Chantel Jones í marki Þórs/KA tryggði mikilvægan sigur.
Þá var komið að undanúrslitaleiknum í bikarnum og þar sóttu stelpurnar lið Stjörnunnar heim. Harpa Þorsteinsdóttir kom Garðbæingum yfir á 22. mínútu en Stjarnan sótti meira og var greinilega í hefndarhug eftir tap í viðureign liðanna í deildinni skömmu áður. Sandra María Jessen jafnaði hinsvegar metin á 54. mínútu og á endanum varð að framlengja. Þar var það fyrirliði Stjörnunnar, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, sem gerði sigurmarkið í upphafi síðari hálfleiks með föstu skoti frá vítateig og bikardraumur okkar liðs því úr sögunni.
Liðið fékk svo góðan liðsstyrk fyrir lokahlutann þegar Rebecca Johnson fyrirliði sænska liðsins Dalsjöfors gekk í raðir Þórs/KA en sænska liðið hafði orðið gjaldþrota og Rebecca því laus allra mála. Það leit hinsvegar allt út fyrir að stelpurnar myndu tapa sínum öðrum leik er þær sóttu Val heim. Skallamark frá Johanna Rasmussen og sjálfsmark okkar liðs kom Val í 2-0 í síðari hálfleik. Lið Vals réð ferðinni og átti tvö sláarskot áður en Sandra María Jessen krækti í vítaspyrnu sem Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði úr. Tíu mínútum fyrir leikslok jafnaði varamaðurinn Lillý Rut Hlynsdóttir svo metin eftir sendingu í gegnum vörnina frá Kaylu Grimsley og þar við sat.
Arna Sif Ásgrímsdóttir var fyrirliði liðsins
Forskotið á toppnum jókst upp í sex stig er liðið burstaði FH 6-0 en á sama tíma tapaði Stjarnan fyrir Val. Sandra María Jessen og Arna Sif Ásgrímsdóttir skoruðu báðar tvívegis í leiknum og þær Lára Einarsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir bættu við mörkum. Enn lagði Kayla Grimsley upp en hún lagði upp þrjú markanna í leiknum.
Stelpurnar stigu svo stórt skref í áttina að titlinum þegar þær lögðu Breiðablik 1-2 að velli í Kópavogi. Þar með voru vonir Blika um titilinn endanlega úr sögunni og stelpurnar áfram sex stigum fyrir ofan Stjörnuna. Björk Gunnarsdóttir kom Breiðablik yfir strax á 8. mínútu en enn og aftur kom okkar lið til baka. Rebecca Johnson jafnaði rétt fyrir hlé eftir góðan undirbúning Söndru Maríu Jessen og tíu mínútum fyrir leikslok var Sandra felld innan teigs og dæmd vítaspyrna. Kayla Grimsley skoraði sigurmarkið úr henni og Þór/KA í lykilstöðu fyrir síðustu fjóra leikina.
Enn hélst liðið á sigurbraut er Afturelding mætti norður í 15. umferðinni. Stelpurnar þurftu þó að hafa mikið fyrir sigrinum en Tahnai Annis skoraði sigurmarkið með glæsilegum skalla eftir fyrirgjöf Rebeccu Johnson á 54. mínútu leiksins. Þar með þurfti liðið aðeins fjögur stig enn í síðustu þremur leikjunum til að tryggja titilinn.
ÍBV lúrði enn í baráttunni aðeins stigi á eftir Stjörnunni og því var krefjandi verkefni framundan þegar stelpurnar ferðuðust til Eyja. ÍBV sótti nær látlaust þar til Kristín Erna Sigurlásdóttir kom þeim yfir með góðu skoti seint í fyrri hálfleik. Forystan entist þó ekki lengi, stelpurnar svöruðu af krafti, fengu góð færi áður en Katrín Ásbjörnsdóttir jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks með hörkuskoti. Liðin sóttu til skiptis í þeim síðari og sluppu stelpurnar með skrekkinn þegar boltinn fór í stöngina á 88. mínútu en 1-1 jafntefli var niðurstaðan og geysilega dýrmætt stig í höfn. Á sama tíma var ÍBV úr leik í titilbaráttunni.
Stelpurnar gátu því tryggt Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Selfyssingum á Þórsvelli í næstsíðustu umferðinni. Rúmlega 1.200 áhorfendur mættu til að styðja við bakið á liðinu og var stemningin algjörlega frábær. Það tók hálftíma að koma boltanum í mark gestanna en eftir að það tókst var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Þór/KA gjörsamlega keyrði yfir gestina og vann að lokum 9-0 sigur þar sem Sandra María Jessen og Katrín Ásbjörnsdóttir gerðu báðar þrennu og Kayla Grimsley lagði upp fimm mörk.
Þór/KA Íslandsmeistari árið 2012
Þór/KA var því Íslandsmeistari kvenna sumarið 2012 og tók við bikarnum á heimavelli fyrir framan þennan mikla fjölda í stúkunni. Mikil sigurhátíð fór í gang með flugeldum og blysum og gleðin leyndi sér ekki. Sigurinn var sögulegur en þetta var í fyrsta skiptið sem að Íslandsbikar kvenna fór lengra út á land en Akranes og hann hafði ekki farið af höfuðborgarsvæðinu síðan árið 1987.
Til að kóróna sumarið unnu stelpurnar einnig lokaleikinn þegar þær unnu 1-2 útisigur á Fylki eftir að heimastúlkur höfðu náð forystunni. En það var við hæfi að liðið kláraði tímabilið með því að koma til baka en Sandra María Jessen jafnaði metin áður en Tahnai Annis tryggði fjórtanda sigurinn í deildinni. Liðið endaði deildina með 45 stig og var sjö stigum á undan ÍBV og Stjörnunni sem komu þar á eftir og var því svo sannarlega verðugur sigurvegari Íslandsmótsins.
Kayla Grimsley var valin besti leikmaður síðari umferðarinnar og aftur var Jóhann Kristinn Gunnarsson valinn besti þjálfarinn auk þess sem stuðningsmenn liðsins voru valdir þeir bestu. Kayla átti stórkostlegt sumar en hún lagði alls upp 21 mark í deildarleikjunum 18.
Sandra María Jessen hlaut silfurskóinn en hún gerði 18 mörk í deildinni og var jöfn Elín Mettu Jensen leikmanni Vals sem hlaut gullskóinn á færri mínútum spiluðum. Þær Sandra og Elín áttu heldur betur eftirminnilegt sumar en þær léku báðar með öllum fjórum landsliðum Íslands á árinu 2012. Sandra María skoraði með sinni fyrstu snertingu með A-landsliðinu í 3-0 sigri á Ungverjalandi og hún skoraði aftur í næsta leik sínum með landsliðinu í 1-1 jafntefli gegn Skotlandi.
Jóhann Kristinn: Við erum eins og leiðinleg skordýr
„Ég fór inn í þetta mót til að keppa við stór og sterk lið eins og Stjörnuna, Val, Breiðablik og ÍBV. Við vildum troða okkur inn í þennan pakka," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson sigurreifur þjálfari Þórs/KA um hver markmið liðsins hefðu verið fyrir sumarið.
„Við ætluðum að hafa Breiðablik og ÍBV fyrir neðan okkur og töldum að Stjarnan og Valur væru mjög sterk lið sem yrði erfitt að eiga við," sagði Jóhann Kristinn.
„Um mitt sumar, eftir að við höfðum haldið okkur á toppnum og fundum að ungu stelpurnar gætu höndlað pressuna, þá vorum við að gera okkur vonir um að landa titlinum. Við settum okkur ný markmið - taka helvítis dolluna," sagði Jóhann Kristinn.
Þór/KA hefur aðeins tapað einum leik í sumar og endurtekið snúið við blaðinu eftir að hafa lent marki undir gegn „stærri liðum“.
„Við erum eins og leiðinleg skordýr. Þú getur reynt að banda okkur frá þér með hendinni en við komum alltaf aftur. Það endaði líka yfirleitt þannig að við fengum eitthvað út úr leikjunum," sagði Jóhann Kristinn.
Ótrúlegur uppgangur hefur verið hjá félaginu á undanförnum árum. Ekki er langt síðan liðið lék í næstefstu deild en trónir nú á toppnum í íslenskum fótbolta.
„Fólkið sem vinnur að félaginu á heiðurinn að því að við erum Íslandsmeistarar árið 2012. Það er ekkert eðlilega stórt hjartað hjá Nóa Björnssyni og þeim sem fylgja honum. Það hefur verið unnið grettistak að lyfta þessu liði upp í hæstu hæðir," sagði Jóhann Kristinn.