Flýtilyklar
Keppnistímabilið 2015
Næstum því sumarið mikla
Miklar væntingar voru í garð KA-liðsins fyrir sumarið 2015, liðið var sterkt og yfirlýst stefna félagsins að vinna sér sæti í efstu deild. Að vísu yfirgáfu þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Arsenij Buinickij liðið en í þeirra stað komu Elfar Árni Aðalsteinsson, Halldór Hermann Jónsson, Hilmar Trausti Arnarsson og Juraj Grizelj. Auk þess komu þrír Englendingar en það voru þeir Archie Nkumu, Callum Williams og Ben Everson.
Liðið sýndi mikinn styrk á undirbúningstímabilinu, vann alla leiki sína í riðlinum í Kjarnafæðismótinu. Að auki vann B-lið KA sigur í sínum riðli og skaut þar með Þór ref fyrir rass og var úrslitaleikur mótsins því uppgjör KA-liðanna tveggja. Þann leik vann aðalliðið 3-0 með mörkum frá Jóhanni Helgasyni, Hrannari Birni Steingrímssyni og Gauta Gautasyni.
Nokkur af helstu tilþrifum KA-liðsins sumarið 2015
Velgengnin hélt áfram í Lengjubikarnum og fór KA áfram í 8-liða úrslit keppninnar. Þar vannst 1-5 sigur á úrvalsdeildarliði Fylkis þar sem Davíð Rúnar Bjarnason skoraði tvívegis á fyrstu fjórum mínútum leiksins og Ævar Ingi Jóhannesson kom liðinu í 0-3 fyrir hlé en þar áður höfðu tveir Fylkismenn fengið rautt spjald. Elfar Árni Aðalsteinsson og Ýmir Már Geirsson innsigluðu sigurinn í þeim síðari eftir að heimamenn höfðu minnkað muninn í 1-3.
Í undanúrslitunum fékk KA heimaleik gegn úrvalsdeildarliði ÍA og leiddu Skagamenn 0-1 í hléinu með marki Jóns Vilhelms Ákasonar. Leikurinn fór fram á gervigrasvelli KA í miklu roki og voru aðstæður ansi erfiðar. KA tókst að jafna seint í síðari hálfleik er Marko Andelkovic gerði sjálfsmark og leikurinn fór í vítaspyrnukeppni. Erfiðlega gekk að stilla boltanum upp vegna roksins en á endanum vannst 4-2 sigur og sæti í úrslitaleiknum tryggt.
Úrslitaleikurinn fór fram í Kórnum og voru andstæðingarnir sterkt lið Breiðabliks. Blikar komust yfir strax á 6. mínútu með marki Ellerts Hreinssonar og þar við sat. KA-liðið reyndi hvað það gat til að jafna metin en það tókst ekki og 1-0 sigur Kópavogsliðsins staðreynd. Eftir þetta frábæra gengi á undirbúningstímabilinu voru væntingarnar því orðnar miklar fyrir sumrinu.
Sveiflukenndum leik gegn Fram lauk með 3-3 jafntefli
Það leit líka allt út fyrir að liðið myndi halda áfram á þeirri vegferð er Framarar mættu á KA-völlinn í fyrstu umferðinni. KA var 2-0 yfir í hálfleik með mörkum frá Ævari Inga Jóhannessyni og Elfari Árna Aðalsteinssyni og virtist stefna í öruggan sigur. En Fram sneri blaðinu við í seinni hálfleiknum og rétt fyrir leikslok voru þeir komnir yfir í 2-3 auk þess sem þeir höfðu misnotað vítaspyrnu sem Fannar Hafsteinsson varði. Ævar Ingi forðaði KA liðinu hinsvegar frá tapi þegar hann jafnaði metin í uppbótartíma og 3-3 jafntefli niðurstaðan.
Aftur var mikil dramatík er KA sótti Fjarðabyggð heim austur á land. Eftir mikla baráttu stefndi allt í markalaust jafntefli en Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og liðið komið á sigurbrautina. Næst tók KA á móti Haukum og eftir að gestirnir höfðu komist yfir snemma leiks tók Juraj Grizelj yfir leikinn. Hann lagði upp tvö mörk fyrir þá Ævar Inga og Archie Nkumu og skoraði loks þriðja markið í 3-1 sigri. Gauti Gautason miðvörður liðsins braut bein í fæti í leiknum og lék ekki meira með liðinu það sem eftir lifði sumars.
Í millitíðinni fór liðið áfram í Borgunarbikarnum með 6-0 stórsigri á Dalvík/Reyni á KA-vellinum. Juraj Grizelj og Ben Everson skoruðu báðir tvívegis áður en Ólafur Aron Pétursson og Ýmir Már Geirsson bættu við mörkum á lokamínútum leiksins.
Ævar Ingi tryggði mikilvægan sigur á Seltjarnarnesi
Enn var dramatík er strákunum tókst að landa sigri á Seltjarnarnesi í fjórðu umferð. Ævar Ingi Jóhannesson knúði mark sigurinn með eina marki leiksins á 83. mínútu eftir að hann hafði sloppið í gegn. KA-liðið hafði sótt af krafti allan leikinn en markið mikilvæga lét bíða eftir sér. Staðan var því góð eftir fyrstu fjóra leikina en KA var í 2. sæti með 10 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Þróttar.
Ólafur Aron Pétursson skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu í 4-0 sigri á Álftanes
Aftur vannst þægilegur sigur í bikarkeppninni og aftur á heimavelli. Nú voru það Álftnesingar sem lágu í valnum eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi. Ævar Ingi Jóhannesson, Orri Gústafsson, Ólafur Aron Pétursson og Ben Everson sáu um markaskorunina og tryggðu sæti í 16-liða úrslitum bikarsins.
Jafntefli á heimavelli gegn Selfyssingum var dýrkeypt
Liðið missti hinsvegar af sigri gegn Selfyssingum á KA-vellinum eftir að hafa komist tvívegis yfir. Elfar Árni Aðalsteinsson og Archie Nkumu gerðu mörkin en á lokasekúndunum var að því ert virtist fullkomlega löglegt mark dæmt af liðinu og svekkjandi 2-2 jafntefli staðreynd. Því næst var komið að toppslag gegn Þrótti í Reykjavík. Þar kom fyrsta tap sumarsins en Þróttarar nýttu sér mistök okkar liðs og komust í 2-0 áður en Davíð Rúnar Bjarnason lagaði stöðuna í uppbótartíma. Með tapinu féll liðið niður í 5. sætið og var orðið sjö stigum frá toppliði Þróttar.
KA kom á óvart og sló út sterkt lið Breiðabliks á þeirra eigin heimavelli
Það voru því ekki margir sem reiknuðu með miklu í bikarleiknum gegn Breiðablik sem fram fór í Kópavogi. Blikar voru ósigraðir í efstu deild og á miklu skriði en KA-liðið lék frábæran leik sem fór í framlengingu eftir að bæði lið höfðu átt skot í stöng seint í leiknum. Ævar Ingi Jóhannesson skoraði loks eina mark leiksins í framlengingunni og Srdjan Rajkovic átti stórleik í markinu þegar heimamenn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin. KA var þar með komið í 8-liða úrslit keppninnar og var eina neðri deildarliðið sem var eftir í keppninni.
Þægilegur 2-0 heimasigur vannst á BÍ/Bolungarvík
Eftir sigurinn góða í bikarnum komu þrjú mikilvæg stig í hús þegar BÍ/Bolungarvík mætti norður. KA liðið vann sanngjarnan 2-0 sigur með mörkum frá Hilmari Trausta Arnarssyni og Ævari Inga Jóhannessyni í sitt hvorum hálfleiknum.
Við tók leikur gegn HK í Kórnum og á ótrúlegan hátt tókst HK að vinna leikinn 3-2. KA var sterkari aðilinn og kom Elfar Árni Aðalsteinsson liðinu tvívegis yfir. Staðan var 1-2 er uppbótartíminn fór í gang en heimamenn skoruðu tvívegis og unnu óvæntan 3-2 sigur. Atli Sveinn Þórarinsson fyrirliði KA fékk höfuðhögg í upphitun fyrir leikinn og fór af velli af þeim sökum í hálfleik. Hann tók í kjölfarið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna og var þetta því kveðjuleikur hans.
Stuðningsmenn KA fjölmenntu gulklæddir á nágrannaslaginn við Þór. Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum
Í níundu umferð tók KA á móti Víkingi Ólafsvík og skoraði Emir Dokara fyrsta markið fyrir gestina. Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði hinsvegar metin í síðari hálfleik og þar við sat. KA sat í 4. sæti deildarinnar með 15 stig og jafnir liðinu voru Þórsarar, það var því við hæfi að næsti leikur væri nágrannaslagur liðanna.
Frábær byrjun tryggði KA-liðinu sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins
Áfram hélt liðið að fella úrvalsdeildarliðin úr Borgunarbikarnum er Fjölnismenn voru lagðir að velli 2-1 á Akureyrarvelli. KA byrjaði með látum og var komið í 2-0 eftir átta mínútur en Davíð Rúnar Bjarnason skoraði eftir aukaspyrnu og Ævar Ingi Jóhannesson vippaði boltanum laglega í netið eftir stungusendingu. Mark Magee minnkaði muninn fyrir gestina eftir hlé en nær komust þeir ekki og bikarævintýri KA liðsins hélt því áfram við mikinn fögnuð fjölmargra stuðningsmanna liðsins í stúkunni.
Nágrannaslagurinn á Akureyrarvelli bauð upp á rautt spjald sem og gulan sigur
Ævar Ingi Jóhannnesson tryggði KA dýrmætan og sætan 1-0 sigur í nágrannaslagnum að viðstöddum 1.400 áhorfendum á Akureyrarvelli. Ævar skoraði strax á 5. mínútu þegar hann slapp innfyrir vörn Þórsara. Tíu mínútum síðar var Sándor Matus markvörður Þórs og fyrrum leikmaður KA rekinn af velli fyrir brot á Elfari Árna sem var sloppinn einn í gegn. Ekki urðu mörkin fleiri og sigurgleði KA-manna mikil enda montrétturinn þeirra.
En sveiflótt gengi liðsins í deildinni hélt áfram og nú tók við 2-1 tap í Grindavík. Ívar Örn Árnason uppskar rautt spjald á 39. mínútu og í síðari hálfleik komust Grindvíkingar í 2-0 áður en Úlfar Valsson lagaði stöðuna í uppbótartíma. Í kjölfarið styrkti liðið sig með því að fá Króatann Josip Serdarusic á miðjuna.
KA nýtti svo ekki yfirburði sína gegn Fram í Úlfársdalnum en Ævar Ingi Jóhannesson kom KA yfir um miðbik fyrri hálfleiks. Ingiberg Ólafur Jónsson jafnaði metin á 77. mínútu og skömmu síðar fékk Hilmar Trausti Arnarsson leikmaður KA rautt spjald. KA liðið var þó hársbreidd frá því sigrinum þegar Ben Everson átti gott skot sem var varið á lokasekúndunum. Að loknum tólf umferðum var KA nú sjö stigum frá 2. sætinu og liðið því þó nokkuð frá takmarki sínu.
Ben Everson og Elfar Árni tryggðu heimasigur gegn Fjarðabyggð
Liðið vann þó mikilvægan sigur á Fjarðabyggð, 2-1, á Akureyrarvelli í næstu umferð þar sem Ævar Ingi Jóhannesson átti stóran þátt í báðum mörkum liðsins sem Ben Everson og Elfar Árni Aðalsteinsson skoruðu.
Þá var komið að leiknum sem beðið hafði verið eftir, undanúrslitaleikur KA og Vals í Borgunarbikarnum sem fram fór á Akureyrarvelli fyrir framan rúmlega 1.200 áhorfendur. Strákarnir byrjuðu betur og fengu vítaspyrnu strax á 6. mínútu er brotið var á Elfari Árna Aðalsteinssyni. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði, 1-0. Orri Ómarsson jafnaði fyrir gestina með skoti utarlega úr vítateignum eftir klafs í teignum.
Bikarslagur KA og Vals var skólabókardæmi um háspennu lífshættuleik
Davíð Rúnar Bjarnason var í lykilhlutverki en hann bjargaði tvívegis af línu og átti svo sjálfur skalla í stöngina og leikurinn fór að lokum í vítaspyrnukeppni. Þar nýttu allir sínar spyrnur nema Josip Serdarusic í liði KA og féll liðið því úr leik á grátlegan hátt eftir frábæran leik gegn sterku liði Vals sem hampaði að lokum Bikarmeistaratitlinum.
En liðið dróst enn frekar aftur úr efstu liðum deildarinnar eftir 2-1 ósigur gegn Haukum á Ásvöllum. Björgvin Stefánsson kom Haukum í 2-0 seint í leiknum með umdeildu marki, Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði í uppbótartíma en það dugði skammt og staða liðsins orðin alvarleg.
Aftur vannst eins marks sigur á Gróttumönnum
Josip Serdarusic skoraði sigurmark KA í 1-0 sigri á Gróttu á Akureyrarvelli í 15. umferðinni með góðu skoti utan teigs. Nokkrum dögum eftir leikinn hætti Bjarni Jóhannsson þjálfari störfum og Srdjan Tufegdzic sem hafði verið aðstoðarþjálfari tók við keflinu. Þarna voru aðeins sjö umferðir eftir og var liðið átta stigum á eftir Þrótti Reykjavík í 2. sætinu og tíu stigum á eftir toppliði Víkings Ólafsvíkur.
Þjálfarabreytingarnar virtust gefa mönnum byr undir báða vængi og með Ben Everson sem besta mann vallarins vann liðið 0-4 stórsigur á Selfossi. Heimamenn gerðu sjálfsmark snemma leiks áður en Jóhann Helgason tvöfaldaði forystuna með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Ben Everson og Juraj Grizelj innsigluðu svo öruggan sigur liðsins.
Stórsigur á Þrótturum kom liðinu aftur í toppbaráttuna
Liðið galopnaði svo baráttuna um sæti í efstu deild með því að vinna afar sannfærandi 4-1 sigur á Þrótti á Akureyrarvelli. Þar með var KA komið í þriðja sætið, fimm stigum á eftir Þrótti. Liðið komst yfir með sjálfsmarki eftir 40 sekúndna leik og þó Viktor Jónsonn næði fljótlega að jafna var okkar lið miklu sterkari aðilinn og Davíð Rúnar Bjarnason breytti stöðunni í 2-1 fyrir hlé. Elfar Árni Aðalsteinsson kom liðinu í 3-1 í byrjun seinni hálfleiks og lagði svo upp fjórða markið fyrir fyrirliðann Jóhann Helgason.
KA hélt svo uppteknum hætti og vann þriðja stórsigurinn í röð undir stjórn Túfa. Nú vannst 0-4 sigur á BÍ/Bolungarvík á Ísafirði og minnkaði forskot Þróttara niður í þrjú stig. Það tók aðeins 18 mínútna leik að komast í 0-3 með tveimur mörkum frá Ævari Inga Jóhannessyni og einu frá Elfari Árna Aðalsteinssyni. Jóhann Helgason bætti svo við fjórða markinu á lokamínútum leiksins.
Fimmti deildarsigurinn í röð kom gegn HK á Akureyrarvelli
Ekki tókst HK að stöðva þann mikla ham sem KA-liðið var í er liðin mættust fyrir norðan. Beitir Ólafsson markvörður HK varði að vísu vítaspyrnu Elfars Árna Aðalsteinssonar á 10. mínútu en Elfar svaraði fyrir það með fallegu skallamarki rétt fyrir hlé. Josip Serdarusic tvöfaldaði forystuna með laglegu skoti í stöng og inn áður en Elfar Árni skoraði sitt annað mark í leiknum rétt fyrir leikslok.
Enn hikstuðu Þróttarar og KA var því komið í 2. sætið á markatölu er þrjár umferðir voru eftir af deildinni. Ótrúleg breyting á gengi liðsins en framundan var þó gríðarlega erfiður leikur gegn toppliði Víkings Ólafsvíkur sem hafði stungið af á toppnum. Fjölmargir stuðningsmenn KA lögðu leið sína til Ólafsvíkur en leikurinn var frekar daufur. Bæði lið vörðust af krafti en litlu munaði að Ben Everson tækist að skora sigurmark KA undir lokin en skot hans fór í þverslána og markalaust jafntefli því niðurstaðan.
Liðið var komið á fljúgandi siglingu (mynd: Þórir Tryggva)
En möguleikar KA á að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni dvínuðu verulega þegar liðið tapaði sínum fyrsta heimaleik er Grindvíkingar mættu norður. Liðið náði sér í raun aldrei í gang og gestirnir komust í 0-3 áður en KA komst á blað í uppbótartíma með sjálfsmarki og lokatölur því 1-3. Fyrir lokaumferðina var KA nú þremur stigum á eftir Þrótti sem hafði auk þess stórbætt markatöluna sína.
KA liðið sá um markaskorunina á Þórsvellinum en heimamenn uppskáru tvö rauð spjöld
Lokaleikur sumarsins var nágrannaslagur gegn Þór í Þorpinu að viðstöddum 1.300 áhorfendum en liðin voru jöfn að stigum en markatala Þórs var það slök að þeir áttu ekki möguleika á að fara upp. KA gerði sitt og vann grannaslaginn sannfærandi 0-3 en Þórsarar gerðu tvö sjálfsmörk auk þess að fá tvö rauð spjöld. Ben Everson skoraði einnig í leiknum og gátu KA-menn verið sáttir með dagsverkið.
En sigurinn dugði ekki því Þróttarar unnu sinn leik og fögnuðu sæti í efstu deild að ári. Hvort að bikarævintýri KA-liðsins hafi sett strik í reikninginn veit enginn en það er ljóst að liðið skorti stöðugleika í deildarkeppninni til að enda í tveimur af efstu sætunum. Liðið tók mikinn kipp undir stjórn Túfa eftir tapið í vítaspyrnukeppninni gegn Val en tapið gegn Grindvíkingum á heimavelli reyndist dýrt.
Stórsigri á Þórsvelli var fagnað vel þó ekki hafi tekist að tryggja sæti í efstu deild. Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum
Það var þó ljóst að KA-liðið ætlaði sér ekkert annað en að ljúka verkefninu næsta sumar sem var komið í gang. Srdjan Tufegdzic var á lokahófi knattspyrnudeildar ráðinn sem aðalþjálfari liðsins næstu tvö árin.
Callum Williams var kjörinn besti leikmaður liðsins á tímabilinu af leikmönnum sjálfum og stjórn knattspyrnudeildar. Davíð Rúnar Bjarnason var aðeins einu atkvæði frá Callum en báðir áttu þeir mjög gott sumar. Ævar Ingi Jóhannesson var valinn efnilegasti leikmaður liðsins og Elfar Árni Aðalsteinsson var markahæsti leikmaður liðsins með 12 mörk í 1. deildinni.
Vinir Móða afhentu „Móðann“ en þjálfari liðsins hann Túfa hlaut sæmdarheitið. Vignir Þormóðsson afhenti svo „Dorra“ sem eru stuðningsmannaverðlaun gefin til minningar um Steindór Gunnarsson, en þau eru nákvæm eftirgerð af Benz bifreið sem Dorri ók um á. Gústaf Baldvinsson hlaut Dorrann að þessu sinni en hann er knattspyrnudeild gríðarlega mikill og góður haukur í horni.