Keppnistímabilin 1983-1984

Keppnistímabilin 1983 og 1984 – Upp og niður

Baráttan um 1. deildarsætið sumarið 1983 byrjaði með þremur mörkum Gunnars Gíslasonar og einu marki Ormars Örlygssonar gegn Reyni í Sandgerði. Hinn geðfelldi Skoti, Alec Willoughby, var á braut eftir að hafa þjálfað meistaraflokkslið KA í þrjú sumur. Í hans stað var kominn Vestur-Þjóðverjinn Fritz Kissing. Það var KA þó ekkert metnaðarmál að ráða til sín erlenda þjálfara. Þvert á móti, strax að afloknu keppnistímabilinu 1981 bólaði á þeirri skoðun meðal forráðamanna knattspyrnudeildar félagsins að taka bæri innlenda þjálfara fram yfir útlenda. En þar var ekki um auðugan garð að gresja og 1983 var KA enn með erlendan mann í þjálfarastöðu.

Það var því undir stjórn Fritz Kissing sem KA-menn spiluðu sinn fyrsta deildarleik á nýja grasvellinum á KA-svæðinu við Þórunnarstræti. Andstæðingarnir voru Völsungar frá Húsavík og dagurinn 12. jní 1983. Blað var brotið í sögu félagsins. Leikurinn varð þó eftirminnilegur fyrir aðrar sakir einnig. Gunnar Gíslason, einn besti leikmaður KA, var rekinn af leikvelli og Völsungar unnu 1-0.

KA-menn létu þó ekki slá sig útaf laginu og um haustið höfðu þeir tryggt sér sæti í 1. deild ásamt Fram, sem var með einu stigi meira en KA.

Í október 1983 urðu formannaskipti í knattspyrnudeild KA, Gunnar Kárason lét þá af störfum formanns, sem hann hafði gegnt þrjú undanfarin ár, og við tók Stefán Gunnlaugsson. Báðir hafa þessir menn, Gunnar og Stefán, unnið geysimikið starf í þágu íþróttamála á Akureyri. Stefán hafði verið formaður deildarinnar áður og Gunnar lengi setið í stjórn ÍBA fyrir hönd KA. Og Gunnar var ekkert á því að draga sig í hlé, hann var áfram meðal stjórnarmeðlima knattspyrnudeildar KA sem á nýju ári réðu Gústaf Baldvinsson til að þjálfa og spila með meistaraflokksliði félagsins.

KA hóf keppnistímabilið 1984 á því að vinna Bikarmót Knattspyrnuráðs Akureyrar. Liðið hafði misst nokkra af sínum sterkustu leikmönnum, Jóhann Jakobsson, sem kosinn var Knattspyrnumaður Akureyrar 1983, var fluttur til Reykjavíkur. Haraldur Haraldsson hafði fylgt dæmi Jóhanns og landsliðsmaðurinn Gunnar Gíslason einnig eftir þriggja mánaða viðkomu í Þýskalandi þar sem hann hugði á atvinnumennsku. Þá var Guðjón Guðjónsson fluttur á heimaslóðir í Keflavík eftir nokkurra ára dvöl í höfuðstað Norðurlands. En á Akureyri voru að vaxa úr grasi ungir og efnilegir knattspyrnumenn. Þeirra á meðal Steingrímur Birgisson, sem leikið hafði með landsliði Íslands 21 árs og yngri, Bjarni Jónsson, Stefán Ólafsson, Þorvaldur Örlygsson og Bergþór Ásgrímsson. Raunar voru flestir leikmanna KA þetta sumar um tvítugt og meðalaldur í liðinu 21 ár, sem er líklega nálægt því að vera einsdæmi í sögu 1. deildar knattspyrnunnar á Íslandi. Þessi staðreynd endurspeglaðist í því að leikjahæsti maður liðsins, Erlingur Kristjánsson, átti 103 leiki að baki, Ásbjörn Björnsson 95, Hinrik Þórhallsson 72 og Ormarr Örlygsson 59. Þrátt fyrir þetta voru menn bjartsýnir í upphafi keppnistímabilsins. Hinn eldhressi formaður KA-klúbbsins í Reykjavík, Sæmundur Óskarsson, sagðist vilja fá Íslandsmeistaratitilinn í afmælisgjöf. Kári Árnason, fyrrum markakóngur 1. deildar, spáði liðinu 3. sæti og Erlingur Kristjánsson, landsliðsmiðvörður KA, kvaðst stefna á 4. sætið eða eitthvað þar fyrir ofan.

Þegar á hólminn kom reyndist hið unga lið KA ekki hafa burði til að standast harða baráttu í 1. deildinni. Það haustaði og liðið féll í 2. deild. Þrátt fyrir fallið hafði KA átt hvorki fleiri né færri en fimm menn í landsliði um sumarið. Njáll Eiðsson, sem gengið hafði í KA um vorið, og Erlingur Kristjánsson spiluðu báðir með A-landsliði Íslands og Steingrímur Birgisson og tveir nýliðar í KA-liðinu, Hafþór Kolbeinsson og Mark Duffield, léku allir með unglingalandsliðinu.

Keppnistímabilið 1982 << Framhald >> Keppnistímabilin 1985-1986

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is