Keppnistímabilið 1981

KA eygir von um Íslandsmeistaratitil

Undir forystu Skotans Alec Willoughby þjálfara hafði KA orðið efst í 2. deild, heilum 7 stigum fyrir ofan næsta lið, Þór. Þrátt fyrir þennan örugga sigur gerðu menn sér engar gyllivonir um gengi liðsins í 1. deild 1981. Elmar, fyrirliði KA, sagðist eiga von á harðri baráttu en engu að síður horfði hann björgum augum til sumarsins. KA-liðið var að mestu skipað sömu mönnum og árið á undan. Þar mátti finna unga og efnilega leikmenn í bland við eldri og reyndari. Ásbjörn Björnsson og Gunnar Gíslason voru báðir valdir til æfingaleikja með landsliðinu þá um sumarið. Í markinu stóð einn efnilegasti markvörður landsins, Aðalsteinn Jóhannsson. Í vörninni var Erlingur Kristjánsson að verða sá máttarstólpi sem Jón Stefánsson hafði áður verið í ÍBA og landsliðinu, og félagar hans Friðfinnur Hermannsson og Ormarr Örlygsson, voru ört vaxandi leikmenn. Allir þessir piltar voru um eða innan við tvítugt svo ekki skorti KA „efniviðinn“. Og enn voru þrír leikmenn, sem forðum höfðu spilað með ÍBA-liðinu, á fullri ferð, Eyjólfur Ágústsson, Jóhann Jakobsson og Steinþór Þórarinsson, að viðbættum miðverðinum trausta Haraldi Haraldssyni, sem leikið hafði með KA allt frá skiptingunni 1975. Enn má telja varnarmanninn Helga Jónsson og markaskorarann Gunnar Blöndal, en þeir voru báðir búnir að spila með meistaraflokki KA nær samfleytt frá árinu 1976. Tveir nýliðar voru í hópnum, sem vorið 1981 tók ótrauður stefnuna á að halda sæti sínu í 1. deild, Hinrik Þórhallsson, bróðir Einars Þórhallssonar sem spilaði með KA 1979, og Guðjón Guðjónsson frá Keflavík. Fleiri áttu þó eftir að spila meistaraflokksleiki fyrir KA þetta sumar því óheppnin elti leikmenn þess á röndum. Veturinn á undan varð Steinþór Þórarinsson, einn traustasti varnarmaður KA og áður ÍBA, fyrir slysi við vinnu sína. Félagar hans, Elmar og Jóhann, meiddust báðir í upphafi keppnistímabilsins og Gunnar Blöndal gekk ekki heldur heill til skógar. Hinrik nefbrotnaði í leik við KR þegar markvörður Vesturbæjarliðsins hljóp á hann í sama bili og Hinrik skoraði sigurmark KA. Þannig höfðu fjórir KA-menn meiðst í tveimur fyrstu leikjum liðsins á Íslandsmótinu.

En fall er fararheill segir máltækið og það mátti svo sannarlega heimfæra upp á KA-liðið því í þriðja leik sínum sigraði það FH 5-1. Í næstu tveimur umferðum töpuðu norðanmenn þremur stigum fyrir einskæra óheppni og klaufaskap. Í miklum baráttuleik gegn Íslandsmeisturum Vals misnotaði Gunnar Gíslason dauðafæri. „Ég hélt, að það væri ekki hægt að klúðra svona færi,“ sagði þessi ungi og efnilegi knattspyrnumaður eftir leikinn að vonum sár út í sjálfan sig. Hvorugu liðinu tókst að skora og úrslitin því 0-0.

Í fimmtu umferð tapaði KA fyrir Víkingi 1-2. Ákaflega umdeilt atvik setti mark sitt á leikinn og Akureyringarnir létu hafa það eftir sér að dómarinn hefði fært Víkingum sigurinn á silfurfati. Í Morgunblaðinu 16. júní var þessu atviki lýst á eftirfarandi hátt:

„... á síðustu mínútu fyrri hálfleiks, er staðan var 1-0 fyrir Víking, fékk KA hornspyrnu frá vinstri. Elmar sendi knöttinn inn í vítateig Víkings og þar stökk Erlingur Kristjánsson og hugðist skalla. Einn Víkinga sótti að honum og rak fót sinn hærra í loft upp en góðu hófi gegndi og flautaði Róbert [Jónsson], að því er virtist til að dæma aukaspyrnu á Víking. En á sama augnabliki hrökk knötturinn til Gunnars Gíslasonar, sem afgreiddi hann með þrumuskoti í netið. Og Róbert benti um leið á miðjuna, dæmdi mark. Mótmæltu [Víkingar] ákaflega og fór svo, að Róbert breytti dómi sínum í óbeina aukaspyrnu á Víking. Úr henni spyrnti Gunnar enn á markið og Víkingur nokkur handlék knöttinn þá greinilega á marklínu án þess að Róbert gerði athugasemd.“

Eftir þetta lánleysi gegn bæði Val og Víkingi dró heldur máttinn úr KA og þegar Íslandsmótið var hálfnað var liðið í fallhættu. En þá sneru KA-menn við blaðinu og þegar aðeins fjórir leikir voru eftir af mótinu var KA byrjað að blanda sér í baráttuna um efsta sætið. Í 14. umferð höfðu KA-menn lagt sjálfa Íslandsmeistarana í Val að velli. En af fjórum síðustu leikjum liðsins í Íslandsmótinu tapaði KA þremur og þar með gekk Íslandsbikarinn úr greipum þess.

Keppnistímabilin 1979-1980 << Framhald >> Keppnistímabilið 1982

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is