Keppnistímabilið 2002

KA í Evrópukeppni eftir frábæran árangur

KA lék loksins aftur í efstu deild eftir að liðið féll þaðan sumarið 1992. Liðið hafði farið alla leið í Bikarúrslit sumarið áður og vann B-riðilinn í Deildarbikarnum skömmu fyrir mót. Það voru því blikur á lofti að nýliðar KA gætu blandað sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar þrátt fyrir að liðinu væri spáð 8. sætinu fyrir keppnistímabilið.

Þórður Þórðarson markvörður frá Val og Júlíus Tryggvason leikjahæsti leikmaður Þórs í efstu deild gengu til liðs við KA fyrir tímabilið. Skotinn Neil McGowan samdi svo við KA þegar tvær umferðir voru búnar af sumrinu. Sverrir Jónsson hinsvegar sleit krossband í byrjun maí og því var ljóst að hann myndi ekki taka þátt í sumrinu.

Það munaði aðeins þremur mínútum að KA myndi sigra fyrsta leik sumarsins þegar ÍBV mætti norður í heimsókn. Þorvaldur Makan Sigbjörnsson kom KA yfir á 48. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Dean Martins en Gunnar Heiðar Þorvaldsson jafnaði þegar skammt var til leiksloka með flugskalla. Skömmu áður hafði Kristján Örn átt skalla í stöng gestanna.

Næstu mótherjar voru Fylkismenn sem höfðu lagt KA að velli í Bikarúrslitunum árið áður í eftirminnilegum leik. Björn Viðar Ásbjörnsson skoraði fyrir Fylkismenn eftir skot í varnarmann en Kristján Örn svaraði fyrir lok fyrri hálfleiks með hörkuskalla. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að sækja sigurinn en réðu lítið við sterkan varnarleik KA og 1-1 jafntefli því staðreynd.

KA lagði síðan Þór í næstu umferð og var það fyrsti sigur KA á nágrönnum sínum í efstu deild. Ásgeir Már Ásgeirsson skoraði markið snemma þegar hann skaut í varnarmann og inn úr aukaspyrnu rétt utan við vítateiginn. Baráttan var mikil í leiknum en fleiri urðu mörkin ekki og KA því taplaust eftir fyrstu þrjá leikina. Alls mættu 2.150 áhorfendur á leikinn sem er met á viðureign KA og Þór.

Fyrsta tapið kom eftir bráðfjörugan leik á KR-vellinum, KA átti meirihlutann af tæpum 40 markskotum liðanna en það voru þeir röndóttu sem komu knettinum í netið. Sigurður Ragnar Eyjólfsson skoraði með skalla á 38. mínútu og Einar Þór Daníelsson innsiglaði 2-0 sigur KR með laglegri vippu. Þorvaldur Örlygsson þjálfari KA kom inná í leiknum og lék sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi í 11 ár.

Í 5. umferðinni tók KA á móti ÍA en sterkur varnarleikur einkenndi leikinn og var ekki mikið um sóknartilburði í 1-1 jafntefli. Ellert Jón Björnsson skagamaður slapp í gegn og skoraði á 81. mínútu en Elmar Dan Sigþórsson svaraði strax með viðstöðulausu skoti á 82. mínútu en Elmar hafði verið inná í 4 mínútur!

Njarðvíkingar urðu andstæðingar KA-liðsins í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar og var leikið í Njarðvík. Hreinn Hringsson skoraði á 22. mínútu áður en Kristján Örn Sigurðsson tvöfaldaði forystuna sem reyndust hálfleikstölur. Hreinn skoraði öðru sinni í síðari hálfleik en sjálfsmark lagaði stöðuna fyrir heimamenn sem höfðu þar áður fengið tvö rauð spjöld.

FH-ingar réðu lögum og lofum á vellinum lengst af í Kaplakrika en nýttu ekki færin en Þórður Þórðarson markvörður KA varði hvað eftir annað vel. Undir lok leiksins skoraði síðan Neil McGowan sigurmark KA eftir aukaspyrnu Slobodans Milisic og KA fór upp í 3. sæti deildarinnar. En Grindvíkingar rifu okkar menn aftur niður með 0-1 sigri á Akureyrarvelli þar sem Vignir Helgason gerði eina mark leiksins með skalla.

KA-menn nær tvöfölduðu markaskor sitt á tímabilinu og Hreinn Hringsson skoraði tvö fyrstu mörk sín þegar KA lagði Keflavík að velli sannfærandi, 4-1. Hreinn Hringsson skoraði á 4. mínútu með góðu skoti stöng og inn. En Þorvaldur Örlygsson gerði mark sumarsins mínútu síðar þegar hann skaut af 40 metra færi og boltinn sveif yfir allan völlinn og yfir Ómar í marki gestanna. Adolf Sveinsson minnkaði muninn en Þorvaldur Makan Sigbjörnsson skoraði glæsilegt mark af um 30 metra færi áður en Hreinn skoraði sitt annað mark og öruggur sigur staðreynd.


Ógleymanlegt mark frá Þorvaldi Örlygssyni í stórsigri á Keflavík

Því næst var komið að 16-liða úrslitum bikarkeppninnar og aftur fékk liðið útileik, nú gegn 1. deildarliði Stjörnunnar. Garðar Jóhannsson kom heimamönnum yfir eftir 15. mínútur úr vítaspyrnu en Hreinn Hringsson jafnaði þrem mínútum síðar. Stjarnan var betri aðilinn í venjulegum leiktíma en fleiri urðu mörkin ekki og því var framlengt. KA hafði hinsvegar undirtökin í framlengingunni en tókst ekki að skora. Í vítaspyrnukeppninni varði hinsvegar Þórður Þórðarson, markvörður KA, frá Garðari. Allir aðrir skoruðu og Júlíus Tryggvason tryggði KA sigurinn með marki úr síðustu spyrnunni.

KA hafði svo talsverða yfirburði gegn Fram í Laugardalnum og hefði getað unnið stærri sigur en 0-1 var nóg fyrir stigunum þremur. Gunnar Sigurðsson, markvörður Fram, varði vítaspyrnu Hreins Hringssonar á 38. mínútu en hann átti enga möguleika í þrumufleyg Deans Martins á 62. mínútu eftir fallega sendingu frá Þorvaldi Örlygssyni. Nýliðar KA voru í 2.-3. sæti deildarinnar eftir 9 umferðir og aðeins tveimur stigum frá toppliði KR.

Ekki náði liðið að halda í við topplið KR en 1-1 jafntefli í Vestmannaeyjum þar sem Þorvaldur Makan jafnaði metin seint í síðari hálfleik og 0-2 tap gegn Fylki komu í veg fyrir það. Fylkismenn skoruðu úr fyrstu tveimur markskotum sínum og þar við sat. KA var meira með boltann en skapaði litla hættu við mark gestanna.

Í millitíðinni tryggði KA sér sæti í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins með sannfærandi 3-0 sigri á Breiðablik. KA lenti ekki í neinum vandræðum gegn 1. deildarliðinu og skoraði Elmar Dan Sigþórsson fyrsta markið með óvæntu skoti utan vítateigs á 6. mínútu. Neil McGowan tvöfaldaði forystuna með skallamarki fyrir hlé og eftir það áttu Blikar litla möguleika. KA réð ferðinni í seinni hálfleik en náði aðeins að bæta við einu marki sem Steingrímur Örn Eiðsson gerði á 87. mínútu.

KA vann hinsvegar nágranna sína í Þór öðru sinni 1-0 og hélt þar með 3. sætinu og skildi Þórsara eftir á botninum í 12. umferðinni. Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleik en KA tók öll völd í þeim síðari og skoraði Neil McGowan á 55. mínútu með skalla rétt utan markteigs eftir aukaspyrnu Jóhanns Helgasonar. Eftir markið var sigurinn í höfn en Þórsarar ógnuðu varla marki KA, áhorfendur voru 1.892 talsins.

Því næst kom topplið KR norður á Akureyrarvöll þar sem tvö falleg mörk með tveggja mínútna millibili gerðu útslagið í hörkuleik. KR-ingar réðu ferðinni í fyrri hálfleiknum en KA tók smám saman völdin í þeim síðari og þá átti KR ekki eitt einasta skot að marki KA. Jóhann Helgason minnkaði loks muninn á 76. mínútu með skoti af stuttu færi og á lokakaflanum var það Kristján Finnbogason sem sá til þess að KR héldi öllum stigunum með góðri markvörslu. Undir lokin var Neil McGowan hjá KA og Þórhalli Hinrikssyni hjá KR vísað af velli eftir að upp úr sauð milli þeirra.

Við tók líflegur leikur á Akranesi gegn ÍA þar sem KA-liðið var nær sigri. Hjörtur Hjartarson kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu á 22. mínútu en Elmar Dan Sigþórsson jafnaði rétt fyrir hlé þegar hann lyfti boltanum yfir Ólaf markvörð eftir skallasendingu frá Jóhanni Helgasyni innfyrir vörn Skagamanna. Ólafur átti annars góðan leik í marki ÍA og sá til þess að KA-liðið gerði ekki fleiri mörk. Jóhann Helgason átti auk þess hörkuskot í þverslá seint í leiknum og 1-1 jafntefli því niðurstaðan.


Kristján Örn átti mjög gott sumar í vörn KA-liðsins

Kristján Örn Sigurðsson fór til reynslu hjá Brann í Noregi en hafnaði í kjölfarið af því samningstilboði frá félaginu. Í 15. umferð tók KA á móti FH í leik þar sem gestirnir voru sterkari aðilinn lengst af og mátti okkar lið teljast heppið að fara inn í hálfleik með markalausa stöðu. Það stefndi svo allt í KA sigur þegar Hreinn Hringsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Deans Martins á 76. mínútu en Jóhann G. Möller jafnaði fyrir gestina þegar hann fylgdi á eftir þegar að KA-liðinu hafði tekist að verja á marklínu frá Guðmundi Sævarssyni.

Neil McGowan yfirgaf liðið eftir leikinn gegn FH og fór aftur heim til Skotlands en hann fór á þessum tímapunkti til að mega leika þar í landi fyrir áramót en enn voru þrjár umferðir eftir af sumrinu á Íslandi. KA sat í 4. sæti deildarinnar og sótti Grindvíkinga heim sem voru í 3. sæti deildarinnar og áttu enn möguleika á að blanda sér í titilbaráttuna. Ekki var þó undirbúningur KA-liðsins með besta móti fyrir leikinn því strákarnir komust á síðustu stundu til leiksins vegna tafa á flugi frá Akureyri. KSÍ setti mikinn þrýsting á KA-liðið að mæta strax svo ekki yrðu tafir á leiknum. Liðið fékk því litla sem enga upphitun og klæddu leikmenn sig í keppnisbúningana fyrir flugið á Akureyri!

Ekki tókst Grindvíkingum að nýta sér þessa stöðu hjá KA-liðinu því leikurinn varð markalaus. Heimamenn voru sterkari en gekk illa að opna sterka vörn okkar liðs. Slobodan Milisic fékk rautt spjald fimm mínútum fyrir leikslok fyrir síendurtekin brot en 0-0 jafntefli niðurstaðan sem gerði vonir Grindvíkinga um baráttu um titilinn að engu.

Í undanúrslitum bikarkeppninnar mætti KA liði Fylkis og var leikið á Laugardalsvelli sem var vel við hæfi enda mættust liðin í úrslitaleiknum árið áður. Þrátt fyrir að KA hafi verið sterkari aðilinn voru það Fylkismenn sem gengu á lagið og Finnur Kolbeinsson skoraði fyrst með skoti í varnarmann og inn, Sævar Þór Gíslason gerði annað úr umdeildri vítaspyrnu og það þriðja eftir skyndisókn. Úrslitin virtust því ráðin í hálfleik enda staðan 3-0 og áfram sóttu Árbæingar í þeim síðari. En er 25 mínútur lifðu leiks tók KA völdin.


Bikarævintýrið strandaði aftur á Fylki í Laugardalnum

Hreinn Hringsson kom inná sem varamaður og skoraði aðeins sex mínútum síðar með skalla eftir fyrirgjöf Þorvalds Makans, staðan orðin 3-1 og enn um tuttugu mínútur eftir. Áfram sótti KA og eftir þunga pressu minnkaði Þorvaldur Makan muninn í 3-2 eftir að hann lék inn í vítateiginn og skaut í stöng og inn, enn voru tvær og hálf mínúta eftir af venjulegum leiktíma og spennan orðin mikil. Fylkismenn lögðust í nauðvörn og tókst að standast síðustu áhlaup KA-liðsins sem féll þar með úr leik eftir hetjulega baráttu.

En KA-liðið var ekki lengi að sleikja sárin og tryggði sér fjórða sæti deildarinnar í næstsíðustu umferðinni með 3-2 heimasigri á Keflvíkingum. Sigurinn var nokkuð verðskuldaður en Hreinn Hringsson lék gestina grátt og skoraði þrennu. Það fyrsta kom úr vítaspyrnu á 33. mínútu og var staðan jöfn 1-1 í hléinu. Hann kom KA yfir á 52. mínútu með skoti úr miðjum vítateig eftir sendingu Þorvalds Makans Sigbjörnssonar áður en hann kláraði þrennuna með skalla eftir fyrirgjöf Deans Martins.

Það var ekkert undir hjá liðinu í lokaumferðinni, liðið sat fast í 4. sætinu og sótti Fram heim sem varð að vinna til að halda sæti sínu í deildinni. Framarar leiddu 1-0 í hálfleik og fékk KA-liðið nokkur góð tækifæri á að jafna í upphafi síðari hálfleiks en inn vildi boltinn ekki og að lokum unnu Framarar 3-0 sigur.

Nýliðar KA höfðu þar með komið öllum á óvart og tryggt sér sæti í Evrópukeppni með frábærri frammistöðu sinni. Liðið skoraði að vísu fæst mörk í deildinni, aðeins 18 talsins, en öflugur varnarleikur var undirstaða árangursins mikla. Eftir tíu ára fjarveru úr efstu deild var KA liðið öllum liðum erfiður andstæðingur og kom Akureyri aftur á kortið í knattspyrnunni. Uppskera nýliðanna frá Akureyri var þó eins og svart og hvítt, Þórsarar enduðu neðstir með aðeins 13 stig og féllu því aftur niður í 1. deildina eftir að hafa vermt botnsætið allan síðari hlutann.

Hreinn Hringsson var markahæstur hjá KA í Símadeildinni með 6 mörk auk þess sem hann gerði fjögur mörk í bikarkeppninni. Þorvaldur Makan Sigbjörnsson gerði 3 mörk í deildarkeppninni og bætti við einu í bikarnum og voru þeir félagar rétt eins og árið áður markahæstir í liðinu.

Styrkurinn lá í skipulaginu

Ásgeir Már Ásgeirsson miðjumaður KA-manna, sagði að liðið gæti ekki verið annað en sátt við útkomu sumarsins, fjórða sætið í deild og undanúrslit í bikarnum.

"Sem nýliðar var eðlilega okkar fyrsta markmið að halda sætinu, enda var KA í deildinni í fyrsta skipti í tíu ár. En við sáum árið á undan að við gætum spjarað okkur gegn úrvalsdeildarliðum, þþví við töpuðum ekki leik gegn þeim í bikarnum og höfðum því á bakvið eyrað að við gætum kannski gert meira en bara að halda okkur uppi. Enda áttuðum við okkur fljótlega á því og þó fjórða sætið sé vissulega mjög ánægjuleg niðurstaða, hefðum við getað teygt okkur enn lengra og náð þriðja sætinu. Við náðum ekki að halda nógu vel út og seinni umferðin var ekki eins góð og sú fyrri.

Okkar helsta vandamál var lítil breidd, og ekki bætti úr skák að missa Hlyn og Júlíus snemma, auk þess sem Míló var tæpur allt sumarið. En styrkur okkar lá í góðu skipulagi. Við lékum sterkan varnarleik og ég viðurkenni fúslega að okkar fótbolti var ekki alltaf sérlega áferðarfallegur. Við lágum aftarlega á vellinum og sóttum á fáum mönnum, en liðsheildin var góð og það voru stigin sem skiptu öllu máli.

Að ná svona langt við þær aðstæður sem hafa verið á Akureyri er frábært en nú er bjartari tíð framundan með nýrri knattspyrnuhöll. Menn verða þó að gæta að sér, annað árið er oft erfiðara en það fyrsta," sagði Ásgeir Már Ásgeirsson.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is