2. flokkur kvenna Íslandsmeistari 1988


Aftari röð frá vinstri: Pétur Ólafsson þjálfari, Linda Hersteinsdóttir, Vaka Óttarsdóttir, Munda Kristinsdóttir, Sigrún Ingadóttir, María Magnúsdóttir, Eva Rafnsdóttir, Linda Ívarsdóttir, Íris Thorleifsdóttir og Stefán Gunnlaugsson formaður knattspyrnudeildar.
Fremri röð frá vinstri: Þórir Sigmundsson lukkutröll, Eydís Marinósdóttir, Íris Fönn Gunnlaugsdóttir, Ingibjörg Lára Símonardóttir, Arndís Ólafsdóttir, Fanney Halldórsdóttir, Ingibjörg Harpa Ólafsdóttir, Sigríður Arnardóttir og Hildur Rós Símonardóttir.

Knattspyrnufélag Akureyrar eignaðist sína fyrstu Íslandsmeistara á stórum velli í knattspyrnu sumarið 1988 þegar 2. flokkur kvenna gerði sér lítið fyrir og vann alla leiki sína og hampaði titlinum stóra. Reyndar hafði 6. flokkur karla hampað óopinberum Íslandsmeistaratitli árið 1985 en sigur stúlknanna var sá fyrsti sem er talinn á opinberu móti.

KA liðið lék í A-riðli Íslandsmótsins þar sem liðið vann sannfærandi sigra á Þór, Völsung og FH. Stóri leikurinn var hinsvegar gegn Breiðablik en liðin mættust í Kópavogi. KA vann leikinn 1-0 og tryggði sér þar með sæti í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Markatala KA liðsins var glæsileg en liðið gerði 17 mörk og fékk aðeins á sig eitt mark.


Stelpurnar tóku vel á því á æfingu eftir að titilinn var tryggður

Í úrslitaleiknum mættu stelpurnar liði ÍA sem hafði komið mörgum á óvart með því að vinna B-riðilinn og meðal annars skákað öflugu liði KR. Úrslitaleikurinn var leikinn á Sauðárkrók þar sem KA liðið vann sanngjarnan 1-0 sigur þar sem Eydís Marínósdóttir gerði sigurmarkið eftir glæsilegan einleik undir lok fyrri hálfleiks.

Sigur KA liðsins vakti eðlilega mikla athygli en liðið var að miklu leiti skipað stelpum sem ekki höfðu náð 2. flokks aldri og var yngsti leikmaður liðsins, Ingibjörg Harpa Ólafsdóttir, aðeins 10 ára gömul. Dagblaðið Dagur kíkti í kjölfarið á æfingu hjá stelpunum og kynnti sér hvað lá að baki þessa mikla afreks.

Gerði mér ekki miklar vonir í upphafi

Það er vandasamt verk að taka að sér íþróttaþjálfun. Þjálfari þarf ekki aðeins að stýra æfingum því það eru ótal önnur verkefni sem hvíla á honum. Hann þarf auðvitað að undirbúa æfingarnar, keppnisferðalögin og oft kemur fyrir að hann sest í sæti sálusorgara. Pétur var fyrst spurður að því, hver væri lykillinn að velgengni stelpnanna.

"Hann er meðal annars fólginn í því að margar af stelpunum eru með ákaflega góða boltatækni. Þá ríkir í hópnum rétt hugarfar til knattspyrnu og þær hella sér í þetta af öllum lífs og sálarkröftum."

Hvernig hefur gengið í sumar? "Það hefur í raun gengið mjög illa að ná þeim til æfinga, því aldursdreifingin í hópnum er 10-16 ár og samanstendur hópurinn því af tveimur flokkum, það er 3. flokki kvenna og meistaraflokki kvenna. Auk þess er ein stúlka í hópnum í 6. flokki karla. Þær eru því allar í öðrum flokkum en þessum eina, stunda æfingar með þeim og eiga erfitt með að mæta á æfingu hjá 2. flokki. Af þessu leiðir að í sumar hafa að jafnaði ekki verið fleiri en 6-8 stelpur á æfingu í einu."

Hvernig stendur 2. flokkur kvenna hjá KA miðað við önnur lið í sama aldursflokki á landinu? "Fyrst og fremst ber að nefna meðalaldur liðsins, sem er ákaflega lágur. Sem dæmi má nefna að í liði KR eru allar stúlkurnar 16 og 17 ára og sömu sögu er að segja um stúlkurnar í ÍA sem kepptu við okkur í úrslitaleiknum."

Gerðir þú þér vonir um svona góðan árangur hjá þeim í upphafi? "Nei, þegar ég sá hvernig undirbúningi yrði háttað, gerði ég mér litlar vonir. En eftir að við unnum Breiðablik sællar minningar í Kópavogi, fór ég að gæla við þessa hugmynd og sem betur fer tókst þetta."

Að lokum Pétur, heldur þú að þessi hópur sé framtíðar Íslandsmeistari? "Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi hópur á eftir að gera stóra hluti í sínum aldursflokki á næstu tveimur árum að minnsta kosti. Þær halda allar áfram næsta tímabil en þá verða þrjár á efsta ári. Ég reikna því með að næstu tvö sumur ættu þessar stúlkur að vera í toppbaráttunni, það er engin spurning."

Úrslitaleikurinn var frekar erfiður

Arndís Ólafsdóttir hefur leikið með 2. flokki og meistaraflokki kvenna í sumar. Hún er fyrirliði 2. flokks og við fengum hana til þess að taka sér pásu og spjalla við okkur.

Hvert er nú hlutverk fyrirliða í knattspyrnu? "Það er svo margt, hann reynir að halda hópnum saman og hjálpa til. Þá reyni ég eins og ég get að hvetja stelpurnar í leikjum."

Hvernig finnst þér hafa gengið í sumar? "Það hefur gengið æðislega vel. Reyndar er dálítið erfitt að æfa og spila með tveimur flokkum því við sem það gerum, þurfum að mæta á um 5 æfingar á viku og svo getur hist þannig á að við þurfum að spila tvo leiki um helgar. Maður gerir ekki mikið annað á meðan."

Bjuggust þið við því að vinna Íslandsmótið í ár? "Nei, alls ekki. Við bjuggumst frekar við því að vinna á næsta ári, því þá ganga svo margar stelpur upp. Þetta var því óvænt en æðislega gaman. Eftir að við vorum búnar að vinna Breiðablik í riðlinum fórum við að gera okkur grein fyrir þessu og meira að segja í úrslitaleiknum gerðum við okkur ekki almennilega grein fyrir því hvað við vorum að spila mikilvægan leik."

Hverjir finnst þér hafa verið erfiðustu andstæðingarnir í sumar? "Það var Breiðablik í riðlinum og Akranes í úrslitaleiknum, en það var frekar erfiður leikur."

Ákveðin í að halda áfram

Yngsti leikmaður 2. flokks kvenna er Ingibjörg Ólafsdóttir, en hún er aðeins 10 ára gömul. Þrátt fyrir ungan aldur, er hún þegar vel þekkt sakir knattspyrnukunnáttu sinnar, en hún æfir einnig með 6. flokki karla hjá KA. Ingibjörg, eða Imba eins og allir kalla hana, var ekki á æfingunni hjá 2. flokki því hún spilar aðeins með þeim. En hún var á KA svæðinu og því upplagt að spjalla aðeins við hana.

Imba, eins og hinar stelpurnar æfir 5-6 sinnum í viku og keppir svo um helgar. Hún sagði að það hefði verið mjög gaman að vinna Íslandsmeistaratitilinn. "Ég bjóst nú reyndar ekki við þessu," sagði hún.

Undanfarin 3-4 sumur hefur hún æft fótbolta með yngri flokkum félagsins og verið eina stelpan í hópnum. Hún sagði að strákarnir hafi alltaf tekið sér mjög vel. Aftur á móti þætti strákum í öðrum liðum sem þau hafa verið að keppa við, stundum fundist skrítið að sjá stelpu í hópnum. Við hjá Degi vitum hinsvegar að strákarnir í KA eru mjög stoltir af Imbu. Hún er alveg ákveðin í að halda áfram í fótbolta en á næsta sumri gengur hún upp í 5. aldursflokk.

Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is