Flýtilyklar
Keppnistímabilin 1979-1980
Keppnistímabilið 1979 – Hræringar hjá KA
Íslandsmótið 1979 hljóp af stokkunum með sömu hrakspám sunnanmanna til handa KA og gert hafði árið á undan. Fjórir af leikreyndustu mönnum liðsins höfðu yfirgefið það, Þorbergur Atlason, Guðjón Harðarson og Gunnar Gunnarsson. Fjórði maðurinn, og um leið eini Akureyringurinn í hópnum, var Sigbjörn Gunnarsson en hann hafði forðum spilað með ÍBA og síðar með meistaraflokki KA alveg frá 1975. Á móti þessu liðstapi kom að þrír nýir leikmenn gengu til liðs við KA, Einar Þórhallsson, sem átti landsleiki að baki, Njáll Eiðsson og 16 ára piltur frá Siglufirði, Ásbjörn Björnsson. Ásbjörn þótti mikið efni – „... víst einn efnilegasti leikmaðurinn sem sést hefur á Akureyri í mörg herrans ár“ sagði Þjóðviljinn. Þannig kom maður í manns stað. Og sem undanfarin tvö ár sá Jóhannes Atlason, með aðstoð Kára Árnasonar, um þjálfun liðsins.
Það varð snemma ljóst að knattspyrnulið KA var öllu sterkara 1979 en það hafði verið árið á undan. Þórsarar, sem undangengin ár höfðu oftar en ekki borið sigurorð af KA-mönnum sóttu ekki gull í greipar þeirra um vorið. Og þegar Íslandsmótið hófst voru Akureyringar bjartsýnir á framtíð KA í 1. deild. En svo bregðast krosstré sem önnur tré.
KA vann að vísu fyrsta leik sinn í deildinni, gegn Haukum, en eftir það varð fátt um sigra hjá liðinu sumarið 1979. Þeim tókst þó að leggja Vestmannaeyinga með einu marki gegn engu en um haustið fór Íslandsbikarinn í fyrsta sinnið út í Eyjar – en KA féll í 2. deild.
Keppnistímabilið 1980 – Elmar hættir við að hætta
Hinn spaugsami íþróttafréttamaður útvarpsins og fyrrum þjálfari ÍBA, Hermann Gunnarsson, hafði stundum á orði sumarið 1979 að Elmar Geirsson ekki aðeins spólaði í tennur fólks heldur spólaði hann einnig í sundur varnir andstæðinganna. Og þrátt fyrir að Elmar væri kominn á fertugsaldur voru það engar gleðifréttir þegar spurðist á haustdögum 1979 að hann hygðist leggja skóna á hilluna. En viti menn, þegar KA hóf baráttuna um að endurheimta 1. deildar sætið sumarið 1980 var Elmar enn með. Hann var hættur við að hætta.
Í kaffiboðinu hjá Schiöthshjónunum 1980. Frá vinstri: Gunnar Kárason, Elmar Geirsson, Willoughby, Eiður Eiðsson, Siguróli Sigurðsson, aftar standa Schiöthshjónin, Helgi og Sigríður. Allt eldheitir KA-félagar, sem unnið hafa fyrir félagið um árabil
Og með Elmar í broddi fylkingar sigraði KA í 2. deild með yfirburðum, af 18 leikjum unnu þeir 15, gerðu eitt jafntefli og töpuðu aðeins tveimur. Markatalan var glæsileg, 61-14 KA í hag. Markakóngur deildarinnar varð KA-maðurinn Óskar Ingimundarson sem skoraði 21 mark.
Willoughby þjálfari flytur þakkarræðu 1980