Flýtilyklar
Keppnistímabilin 1976-1977
Tvö ár í 2. deild
Keppnistímabilið 1976 markaði ekki nein djúp spor í sögu knattspyrnudeildar KA. Meistaraflokksliðið varð um miðja deild og enginn knattspyrnumaður frá Akureyri lék landsleik það sumarið. Þó voru KA-mennirnir Jóhann Jakobsson og Hörður Hilmarsson báðir valdir í pressulið og Hörður spilaði einn leik með landsliðinu, gegn Southampton, en hann fór fram á Akureyri. Hörður var annar tveggja Valsara sem gengið höfðu til lið við KA um vorið, hinn var Guðjón Harðarson. Þriðji nýliðinn í KA-liðinu var Gunnar Blöndal frá Siglufirði. Um haustið varð hann annar í kjöri um knattspyrnumann Akureyrar 1975, en það fór þá fram öðru sinni, aðeins Þórsarinn Gunnar Austfjörð fékk fleiri atkvæði.
Sumarið eftir var Jóhannes Atlason ráðinn þjálfari KA-manna sem höfðu orðið að gera sér það að góðu að sjá á eftir Þór upp í 1. deild haustið á undan. Vissulega ætluðu þeir sér ekki að verða neinir eftirbátar Þórsara. Og þegar KA átti eftir einn leik í 2. deild sumarið 1977 var liðið þegar búið að tryggja sér sæti í 1. deildinni að ári. Menn voru að vonum kampakátir, Jóhannes talaði um að þetta væri sitt ánægjulegasta sumar við þjálfun og elsti maður liðsins og fyrirliði, Þormóður Einarsson, sá nú draum sinn rætast. Í viðtali við Íslending, 13. september 1977, lýsti hann því yfir að nú gæti hann með góðri samvisku lagt skóna á hilluna.
„Ég hef nú leikið með mfl. í 18 ár samfellt, eða síðan 1960. Það er nokkuð sérstakt, að ég hef þrisvar verið fyrirliði liða, sem hafa fært sig upp um deild. Fyrst þegar ÍBA-liðið vann sig upp í 1. deild 1972 – þá var Jóhannes Atlason þjálfari ÍBA – síðan þegar KA vann 3. deildina 1975 ... síðan er ég fyrirliði núna, þegar við vinnum okkur upp í 1. deild. Þetta er kannski einhver hjátrú – „allt er þegar þrennt er“. – En mér finnst standa vel á að hætta núna ...“