Flýtilyklar
Gunnlaugur gerir upp KA tímann
Eitt sinn KA-maður, ávallt KA-maður
Gunnlaugur Jónsson lét af störfum sem þjálfari KA á lokahófi knattspyrnudeildar að loknu sumrinu 2012. Hann hafði stýrt liðinu í tvö ár og var á réttri braut með liðið en fjölskylduaðstæður urðu til þess að ómögulegt var fyrir hann að halda áfram á Akureyri.
Byrjuðum að byggja upp
Fyrra árið (2011) leggjum við í mótið með mjög ungt lið og fáum draumastart en svo fer að síga á verri hliðina. Við förum inn í mótið án Tufa, með mjög unga og reynslulitla vörn og almennt með marga óreynda leikmenn sem voru í burðarhlutverkum í fyrsta skipti. Leikmenn eins og Jón Heiðar, Boris Lumbana, Hafþór Þrastar, Davíð Rúnar, Elvar Páll, Hallgrímur Mar og einnig voru Jakob Hafsteins og Ómar oft í byrjunarlðinu.
Svo var ekki til að bæta ástandið að missa tvo af reynslumeiri leikmönnum í liðinu, Andrés og Guðmund Óla, í meiðsli gegn Selfossi í 7. umferð þegar ekkert gekk hjá liðinu. Við fengum meiri reynslu inn í liðið í kringum seinni umferðina.
Brian kemur frá Skotlandi, Elmar frá Noregi og Tufa úr meiðslum. Þar fengum við inn reynslu sem liðið þurfti og seinni umferðin var mjög fín og við endum í 9. sæti með þriðja besta árangur allra liða í seinni umferðinni.
Fengum reynslubolta í liðið
Við náðum að styrkja liðið með mjög sterkum leikmönnum með mikla reynslu fyrir tímabilið í ár. Gunnar Valur og Jóhann Helgason komu heim að nýju eftir langan tíma í öðrum liðum og við duttum í lukkupottinn með Darren Lough og svo fengum við Bjarka Baldvins frá Völsungi sem kom með nýja vídd inn á miðjuna. Við fórum í gegnum einhverja mestu sápuóperu sem ég hef upplifað í stóru framherjaleitinni sem stóð allan veturinn. Ég held að við höfum heyrt í 40 nöfnum, bæði Íslendingum og erlendum leikmönnum, fengum einn á svæðið sem reyndist ekki nógu góður og margir voru á leið í flug en skiluðu sér ekki út af jafnmörgum ástæðum. Að endingu bauðst okkur gamall kunningi, David Disztl, sem byrjaði af krafti en því miður dró af honum og hann náði sér ekki á strik í lokin.
Eftir gott undirbúningstímabil var ekki laust við að heilmiklar væntingar vöknuðu um gott tímabil, en tap í fyrsta leik gegn ÍR voru mikil vonbrigði og þó við höfum náð að vinna nágranna þeirra í Leikni í 2. umferð þá voru of miklar sveiflur í leik okkar í fyrstu umferðunum. Þrátt fyrir frábæran karaktersigur á Þór í 7. umferð er það ekki fyrr en á móti Haukum í 9. umferð sem leikur liðsins tekur stakkaskiptum. Við gerðum breytingar á varnarleik liðsins og þær svínvirkuðu en það sveið að missa Haukaleikinn í jafntefli í uppbótartíma og KA var í 10. sæti eftir 9 umferðir. Holningin var þó fundin og í næstu fjórum leikjum tókum við 8 stig, þar af náðist gríðarlega sterkur sigur í Ólafsvík.
Á þessum tíma lentum við í miklum áföllum. Tufa, sem spilaði aðeins fyrstu tvo leikina, meiddist að nýju og var frá allt tímabilið, Elmar Dan meiddist illa á hné og var frá allt tímabilið, Þórður Arnar fékk höfuðhögg á æfingu og var frá allt tímabilið, auk þess fengu Ævar Ingi og Jói Helga einnig höfuðhögg og voru frá í nokkra leiki (þetta er held ég einsdæmi á Íslandi!) Við bundum svo miklar vonir við Ómar Friðriksson í sumar en hann meiddist í apríl og náði sér því miður aldrei góðum, var á góðri leið en meiddist að nýju gegn BÍ/Bolungarvík og kom ekkert meira við sögu. Á tímabili vorum við án fimm sterkra leikmanna en sem betur fer stigu aðrir leikmenn upp í staðinn og nýttu sín tækifæri.
Eftir sigurinn góða í Ólafsvík vorum við slegnir niður á jörðina og töpuðum sanngjarnt fyrir ströggliði Leiknis í 13. umferð. Nú var að duga eða drepast, liðin í kringum okkur voru að vinna og tapa á víxl og klár vendipunktur á okkar tímabili var sigur á Víkingi Reykjavík í leiknum fyrir verslunarmannahelgi og nú var ákveðið að nýta tímann vel og gera alvöru atlögu að úrvalsdeildarsæti. Við vorum klárir í bátana gegn Fjölni í 15. umferð og taktískur 2-1 sigur á vel spilandi liði staðreynd og eins mikið og hann var sætur þá var jafntefli gegn Tindastól gríðarleg vonbrigði, en í þeirri umferð bjargar okkur að liðin kringum okkur misstigu sig einnig og því var enn von.
Við vorum í stuði gegn Hetti en Þórsleikurinn stóð aldrei undir nafni, einhver þyngsta skák sem við tökum í sumar, lítið um færi og enn færri atvik sem einkenndu fyrri leikinn og leikurinn endaði með sigri nágranna okkar 1-0. Þegar þarna er komið við sögu vorum við í 6. sæti, sex stigum frá Víkingi Ólafsvík, sem var í öðru sætinu. Þórsarar voru óstöðvandi og nánast búnir að tryggja sig upp í Pepsideildina.
Pepsihurðin opnaðist
Einhver eftirminnilegasti sigur fyrir mig sem þjálfara kom í 19. umferð þegar við lögðum Þróttara. Þú þarft að vera á tánum þegar spilað er við þá en það vorum við ekki í fyrri hálfleik og ákvað ég að gera djarfa breytingu í hálfleik, taka Disztl útaf og spila með engan eiginlega framherja, heldur hina nettu miðjumenn Bjarka og Brian sem fremstu menn. Það gekk upp og við unnum gríðarlega sætan sigur 1-0. Honum var fylgt eftir með frábærum sigri á Haukum á útivelli. Eftir slakan fyrri hálfleik settum við í gírinn og unnum sanngjarnan 0-2 sigur, trúlega besti hálfleikur sem liðið spilaði í sumar. Þar með vorum við búnir að henda bæði Þrótturum og Haukum úr baráttunni um hið eftirsótta Pepsi sæti og vorum eina liðið sem gat sett strik í reikning Ólafsvíkinga. Það munaði enn sex stigum og tvær umferðir en næsti leikur var gegn þeim og allt undir, sigur varð vinnast á þeim og BÍ/Bolungarvík til að draumurinn yrði að veruleika og við urðum að treysta á nafna þeirra frá Reykjavík í síðustu umferðinni.
Undirbúningur fyrir leikinn var gríðarlega erfiður af ástæðum sem flestir þekkja. Það var ekki laust við að talsvert stress væri hjá báðum liðum í byrjun leiks og mikil stöðubarátta fram eftir leik en því miður náðu gestirnir að komast yfir þegar lítið var eftir. Við þurftum sigur og allt var lagt undir en það bara dugði ekki og Ólafsvíkingar gengu á lagið og slökktu í von okkar að setja alvöru pressu á þá fyrir lokaumferðina og þeir máttu fagna í leikslok enda orðið Pepsilið í fyrsta skipti í þeirra sögu. Auðvitað geta menn verið svekktir að fá ekki víti í stöðunni 0-0 en fleira kemur til þegar horft er til baka, byrjuninin á mótinu var ekki í takt við spilamennsku okkar fyrir mótið og árangur okkar gegn neðstu liðunum eru mjög mikil vonbrigði.
En heilt yfir var ég ánægður með liðið, margir leikmenn áttu flott tímabil og liðsheildin sem við sköpuðum var ansi góð. Auðvitað var slæmt þegar fimm byrjunarliðsmenn voru komnir suður í skóla eða vinnu þegar mest var undir en við náðum þó öllum hópnum saman tveim dögum fyrir leik þannig að ég held að það hafi ekki komið niður á liðinu.
Óvissa með framhaldið en brennimerktur KA maður
Það er enn óvíst hvað gerist í mínum málum, ég stefni á að þjálfa áfram en hvar verður að koma í ljós, en eitt sinn KA-maður, ávallt KA-maður. KA er gríðarlega vel stjórnað félag með frábærri umgjörð og með marga færa þjálfara. Það eru spennandi árgangar að koma upp og ég held að nýs þjálfara bíði spennandi verkefni.
Að lokum
Ég vil þakka fyrir þennan góða tíma, ég eignaðist góða vini í gegnum starfið og það var virkilega gaman að fá tækifæri að stjórna liðinu þessi tvö ár. Gangi KA allt í haginn.