Flýtilyklar
Keppnistímabilið 1987
Besti árangur KA frá upphafi
KA var nýliði í efstu deild sumarið 1987 og átti það erfiða verkefni fyrir höndum að halda sæti sínu í deildinni og reyna að festa sig í sessi sem 1. deildarlið enda hafði liðið stokkið á milli 1. og 2. deildar síðasta áratuginn.
Gauti Laxdal sem var kjörinn efnilegasti leikmaður 1. deildar árið 1986 gekk til liðs við KA frá Íslandsmeisturum Fram fyrir tímabilið. Þá höfðu einnig þeir Jón Sveinsson og Ólafur Gottskálksson gengið til liðs við félagið.
Fyrsti leikur sumarsins var heimaleikur gegn KR sem einkenndist af mikilli baráttu. Gunnar Skúlason skoraði eina mark leiksins fyrir gestina uppúr hornspyrnu á 43. mínútu en KA átti síst minna í leiknum. Áhorfendur létu svo sannarlega sjá sig en leikurinn var mest sótti leikur umferðarinnar með tæplega 1.100 áhorfendur. KA náði síðan í sín fyrstu stig með 0-1 sigri á Víði í Garði. Tryggvi Gunnarsson sem var markakóngur í 2. deildinni þegar KA fór upp skoraði eina mark leiksins með skalla á 75. mínútu.
Valsmenn sluppu svo með skrekkinn þegar þeir sóttu KA heim á Akureyrarvöll í 3. umferðinni, Magni Pétursson skoraði eina mark leiksins með þrumuskoti af 25 metra færi sem fór í varnarmann og þaðan í netið strax á 11. mínútu. KA sótti án afláts eftir markið þar sem Hinrik Þórhallsson átti meðal annars skalla í slá og Valsmenn björguðu einnig af línu.
Tryggvi Gunnarsson tryggði KA sigur á FH, 2-1, með glæsilegu marki 19 mínútum fyrir leikslok í 4. umferðinni. Hann fékk boltann á miðju, lék á tvo FH-inga og skoraði með hörkuskoti af 25 metra færi. FH hafði náð forystunni strax á 16. mínútu með marki Ólafs Kristjánssonar en Gauti Laxdal jafnaði fyrir KA eftir aukaspyrnu á 55. mínútu.
KA vann annan sigur sinn í röð þegar liðið skellti Íslandsmeisturum Fram á útivelli 0-1. Framarar réðu að mestu gangi leiks en tókst ekki að skora enda átti Haukur Bragason stórleik gegn sínu gamla liði. Tryggvi Gunnarsson hélt áfram að skora fyrir okkar menn þegar hann gerði eina mark leiksins 18 mínútum fyrir leikslok eftir að hafa sloppið einn í gegn.
Ekki náðist að sækja þriðja sigurinn í röð þegar Völsungur mætti í heimsókn en KA-menn gerðu bæði mörk leiksins í 1-1 jafntefli. Þorvaldur Örlygsson skoraði í rétt mark í annars daufum leik en Árni Freysteinsson var nálægt því að tryggja sigurinn með skoti í þverslá undir lok leiks. KA stóð í 3. sæti deildarinnar eftir 6. umferðir og kom það mörgum spekingum á óvart enda liðinu verið spáð fallsæti.
Aftur gerðu okkar menn 1-1 jafntefli þegar Keflvíkingar voru sóttir heim. Heimamenn voru öflugri en náðu ekki að nýta fjölmörg færi sín fyrr en 12 mínútur lifðu leiks með marki Freys Sverrissonar. En Jón Sveinsson nýtti sér varnarmistök Keflvíkinga og tryggði KA stig sjö mínútum eftir mark Keflavíkur.
Eftir flotta byrjun á Íslandsmótinu kom erfiður kafli sem hófst með 1-2 tapi gegn Þór þar sem Jón Sveinsson kom KA yfir. Því næst kom 1-0 tap gegn ÍA á Akranesi og loks 2-0 tap gegn KR á KR-velli. KA liðið var farið að færast nær botnbaráttunni og ljóst að liðið þurfti að fara að ná stigum á nýjan leik ef ekki átti að fara illa. Ekki batnaði ástandið þegar Arnar Freyr Jónsson sem hafði verið lykilmaður í vörn liðsins yfirgaf liðið fyrir nám í Bandaríkjunum.
KA liðið lék hinsvegar við hvern sinn fingur í næsta leik og vann sinn stærsta sigur í 1. deild frá upphafi þegar Víðismenn steinlágu 6-0 á Akureyrarvelli. Sigurður Már Harðarson fór á kostum í sínum fyrsta heila leik með KA en hann fiskaði vítaspyrnu sem Steingrímur Birgisson skoraði úr á 13. mínútu, 1-0, og gerði sjálfur mark á 16. mínútu eftir að hafa leikið listilega framhjá markverði Víðismanna. Erlingur Kristjánsson skoraði með skoti í varnarmann á 27. mínútu, 3-0, og á 32. mínútu fór Þorvaldur Örlygsson illa með rangstöðugildru Víðis og skoraði 4-0. Sigurður Már sótti aðra vítaspyrnu á 70. mínútu og skoraði sjálfur úr spyrnunni. Þorvaldur Örlygsson skoraði svo síðasta mark leiksins með fallegum skalla í slána og inn undir lok leiks, 6-0!
Þrátt fyrir góða baráttu gegn toppliði Vals á útivelli fékkst ekki stig úr leiknum en Valsmenn unnu 2-1 en Jón Sveinsson gerði mark KA í leiknum. Tapinu fylgdi tíðindalítið 0-0 jafntefli í Kaplakrika gegn FH þar sem KA átti betri færi en inn vildi boltinn ekki. Haukur Bragason markvörður KA fór svo úr axlarlið á æfingu og lék hann því ekki meira það sumarið og missti einnig af leikjum Íslands í Evrópukeppni 21 árs og yngri en Haukur hafði verið aðalmarkvörður landsliðsins.
Framarar fengu umdeilda vítaspyrnu á Akureyrarvelli sem Pétur Ormslev skoraði úr. Dómurinn virtist slá okkar menn útaf laginu og svo fór að Framarar unnu 0-3 sigur. En KA liðið vann góðan sigur í næstu umferð þegar 1-3 sigur vannst á Húsavík. Erlingur Kristjánsson, Tryggvi Gunnarsson og Þorvaldur Örlygsson skoruðu mörk KA manna í leiknum. Steingrímur Birgisson varnarmaður meiddist þó illa í leiknum og sleit hásina og lék því ekki meira það sumarið.
Lítil tilþrif voru í næsta leik þegar 0-0 jafntefli varð raunin gegn Keflavík en stigið tryggði áframhaldandi veru í efstu deild. Í næstsíðustu umferð var nágrannaslagur við Þór en Halldór Áskelsson kom Þórsurum yfir á 20. mínútu og allt stefndi í sigur þeirra rauðklæddu. En Bjarni Jónsson skoraði jöfnunarmarkið á 85. mínútu með óvæntu skoti af 20 metra færi og lokatölur 1-1. Í lokaumferðinni gerðu KA og ÍA 0-0 jafntefli á Akureyrarvelli og KA endaði þar með í 6. sæti deildarinnar sem var besti árangur liðsins til þessa.
Fyrirliðinn Erlingur Kristjánsson var meðal efstu manna í einkunnagjöf Morgunblaðsins og var valinn í lið ársins. Hörður Helgason sem hafði þjálfað KA liðið ákvað að halda á nýjar slóðir og tók við nýkrýndum Íslandsmeisturum Vals eftir þennan góða árangur með KA liðið. Tryggvi Gunnarsson sem var markahæstur KA manna ákvað einnig að færa sig yfir til Valsmanna. Sigurður Már Harðarson yfirgaf KA liðið og gekk til liðs við ÍA á Akranesi.
Keppnistímabilin 1985-1986 << Framhald >> Keppnistímabilið 1988