Viðar Örn framlengir við KA!

Fótbolti

Viðar Örn Kjartansson skrifaði í dag undir nýjan samning við knattspyrnudeild KA og leikur því áfram með Bikarmeisturum KA á komandi sumri. Eru þetta ákaflega góðar fréttir en Viðar er einhver allra mesti markaskorari í sögu Íslands og sýndi hann gæði sín með KA á síðustu leiktíð.

Viðar gekk í raðir KA skömmu fyrir síðasta sumar, hann var ekki alveg heill í upphafi sumars en þegar hann hristi það af sér sýndi hann gæði sín og átti heldur betur stóran þátt í því að KA stóð uppi sem Bikarmeistari í fyrsta skiptið í sögu félagsins.

Það eru spennandi tímar framundan hjá Bikarmeisturum KA þar sem liðið leikur í Evrópukeppni í sumar auk þess sem það styttist í vígslu nýs keppnisvallar á KA-svæðinu. Það er klárt að reynsla Viðars mun vega þungt í Evrópuleikjunum og ætlumst við til mikils af þessum öfluga kappa.

Fyrir komu sína í KA lék Viðar með Búlgarska liðinu CSKA 1948, þar áður hafði hann leikið með stórum liðum á sínum ferli en 2014 hélt hann út til Vålerenga í Noregi þar sem hann varð markakóngur efstu deildar með 25 mörk í 29 leikjum.

Í kjölfar þessa stórkostlega tímabils í Noregi var hann keyptur til Jiangsu Sainty í Kína. Þaðan lá leiðin til Malmö FF í Svíþjóð þar sem hann gerði 14 mörk í 20 leikjum uns hann gekk í raðir Ísraelska stórliðsins Maccabi Tel Aviv. Með Maccabi gerði hann 32 mörk í 63 leikjum og var markakóngur deildarinnar tímabilið 2016-2017 með 19 mörk.

Árið 2018 gekk hann í raðir Rostov í Rússlandi en hann lék einnig með Rubin Kazan þar í landi. Hann sneri svo aftur í Vålerenga þar sem hann gerði 18 mörk í 42 leikjum. Eftir góða frammistöðu með Vålerenga lá leiðin til Grikklands þar sem hann lék með Atromitos áður en hann hélt til Búlgaríu.

Þá hefur Viðar Örn leikið 32 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og gert í þeim fjögur mörk. Við erum hæstánægð með að halda honum áfram innan okkar raða og hlökkum til að sjá til hans í sumar í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is