Tap gegn KR

Fótbolti
Tap gegn KR
Mynd - Þórir Tryggva.

KA beið í dag lægri hlut fyrir KR-ingum í 9. umferð Pepsi-deildarinnar í miklum markaleik.

KA 2 - 3 KR

0 - 1 Tobias Thomsen (’2)
0 - 2 Kennie Chopart (’15)
1 - 2 Elfar Árni Aðalsteinsson (’54)
1 - 3 Óskar Örn Hauksson (’60)
2 - 3 Elfar Árni Aðalsteinsson (’85) Stoðsending: Hallgrímur Mar


Hér má sjá umfjöllun RÚV um leikinn

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Aleksandar, Callum, Darko, Ólafur Aron, Almarr, Ásgeir, Emil, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Baldvin, Steinþór Freyr, Davíð Rúnar, Ívar Örn, Daníel og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Ólafur Aron út – Steinþór inn (’61)
Hrannar Björn út – Ívar Örn inn (’78)
Aleksandar út – Davíð Rúnar inn (’90)

Leikurinn í dag hófst líkt og leikurinn gegn Val í síðustu umferð, afar illa fyrir KA sem lentu undir eftir einungis tvær mínútur. Arnór Sveinn átti þá fyrirgjöf fyrir markið á Tobias Thomsen sem átti skot á markið af stuttu færi sem fór af varnarmanni KA og í netið.

KA liðið mætti loksins til leiks eftir markið og komst Ásgeir mjög nálægt því að jafna metin þegar að hann átti skot í stöng fyrir opnu marki eftir að markvörður gestanna missti boltann til Ásgeirs eftir úthlaup. Það var hins vegar á 15. mínútu sem KR juku forystuna með marki sem var keimlíkt því fyrra. Arnór Sveinn átti þá aftur fyrirgjöf sem Kennie Chopart skallaði í stöng og inn og staðan því 0-2 fyrir gestina. KA átti nokkur ákjósanleg marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Það besta þegar að Elfar Árni skallaði boltann áfram til Ásgeirs sem átti skalla af markteig sem Beitir markvörður gestanna varði stórkostlega í horn. Staðan í hálfleik 0-2 gestunum í vil.

KA liðið byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og voru leikmenn liðsins ákveðnir í að bæta upp fyrir dapran fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur var rúmlega tíu mínútna gamall þegar að KA fékk vítaspyrnu eftir að Óskar Örn sló boltann með höndinni innan vítateigs eftir horn frá Darko. Á punktinn steig Elfar Árni og skoraði hann framhjá Beiti í marki KR sem veðjaði þó á rétt horn. Staðan 1-2 og leikurinn galopinn. KR-ingar voru hins vegar ekki lengi að auka forystuna aftur. En þá átti besti maður vallarins Arnór Sveinn sína þriðju fyrirgjöf fyrir markið sem skilaði marki en í þetta skiptið átti hann sendingu á Óskar Örn sem skallaði boltann í markið.

Eftir þriðja mark KR róaðist leikurinn eilítið niður og var það ekki fyrr en fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sem Elfar Árni náði aftur að minnka muninn fyrir KA og var það að þessu sinni eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar sem var skölluð áfram á fjærstöngina af leikmanni KR, þar sem Elfar Árni stangaði boltann laglega í netið og hleypti hann lífi í lokamínúturnar.

Það var svo í uppbótartíma sem KA-menn vildu fá aðra vítaspyrnu þegar að Elfar Árni var felldur innan teigs en að þessu sinni var ekkert dæmt og lauk leiknum því með 2-3 sigri gestanna í KR í heldur fjörugum leik.

Nivea KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Skoraði bæði mörk KA í dag og var líflegur.)

Næsti leikur KA er ekki fyrr en 9. júlí þegar að liðið leggur í hann til Grindavíkur og etur kappi við heimamenn í Grindavík. Við hvetjum fólk til að gera sér ferð til Grindavíkur þann 9. júlí og styðja við bakið á strákunum!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is