Stórslagur HK og KA í bikarnum í dag

Blak
Stórslagur HK og KA í bikarnum í dag
Lexi og strákarnir ætla sér í úrslitahelgina!

Það er heldur betur stórleikur framundan í kvöld í blakinu er KA sækir HK heim í 8-liða úrslitum Kjörísbikars karla. Þarna mætast liðin sem hafa barist um stóru titlana undanfarin ár og ljóst að liðið sem tapar leiknum í kvöld fellur úr leik og missir því af stærstu helgi hvers blaktímabils.

Leikur liðanna fer fram í Fagralundi í Kópavogi og hefst klukkan 19:00. Liðin hafa mæst þrisvar í vetur, HK vann leik liðanna í Kópavogi en KA vann hinsvegar báða leikina í KA-Heimilinu, þar á meðal leik liðanna um nýliðna helgi.

Bikarúrslitahelgin er klárlega stærsti parturinn af blaktímabilinu enda leggur BLÍ allt í sölurnar til að gera helgina hvað glæsilegasta auk þess sem RÚV sýnir beint og það með ansi veglegum útsendingum. Það er því ansi mikið undir annað en bara sæti í næstu umferð Kjörísbikarsins.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja KA liðið til sigurs í þessum mikilvæga leik, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is