Sterkur sigur KA á Álftanesi

Blak
Sterkur sigur KA á Álftanesi
3 gríðarlega mikilvæg stig í hús! (mynd: EBF)

KA sótti Álftanes heim í Mizunodeild kvenna í blaki í gær en staða liðanna var heldur betur ólík fyrir leikinn. KA var á toppi deildarinnar og hafði unnið alla sína leiki en heimaliðið var á botni deildarinnar með þrjú stig. Þó mátti reikna með krefjandi verkefni en sigur Álftnesinga kom gegn sterku liði HK.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi til að byrja með en um miðbik fyrstu hrinu fann KA liðið góð svör við leik Álftnesinga og unnu að lokum afar sannfærandi 15-25 sigur en staðan hafði verið jöfn 11-11 skömmu áður.

Stelpurnar voru komnar í gírinn og þær komust í 1-7 í upphafi annarar hrinu. Þann mun tókst heimaliðinu aldrei að brúa og KA vann á endanum góðan 17-25 sigur og því komið í algjöra lykilstöðu, 0-2.

Liðin skiptust á að leiða í þriðju hrinu áður en Álftanes kom með öflugan kafla sem kom þeim yfir í 16-11. Stelpurnar svöruðu og munaði einungis einu stigi, 17-16, fyrir lokakaflann. Þar reyndust heimastúlkur sterkari aðilinn og þær minnkuðu muninn í 1-2 með 25-20 sigri.

Það virtist svo allt stefna í sigur KA í fjórðu hrinu en Álftanes breytti hinsvegar stöðunni úr 14-19 yfir í 24-21 og þurfti aðeins eitt stig til að knýja fram oddahrinu sem og til að tryggja sér að minnsta kosti stig úr leiknum.

Þá sýndu stelpurnar gríðarlegan karakter og þær jöfnuðu í 24-24 með næstu þremur stigum og gerðu gott betur með því að skora einnig næstu tvö stig og vinna þar með hrinuna 24-26. Leikurinn vannst því 1-3 og gríðarlega mikilvæg þrjú stig í hús hjá liðinu.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í liði KA með 25 stig og Paula del Olmo gerði 23 stig. Gígja Guðnadóttir gerði 9, Luz Medina 4, Heiðrún Júlía Gunnarsdóttir 4 og Arnrún Eik Guðmundsdóttir 3.

Baráttan um Deildarmeistaratitilinn milli KA og Aftureldingar er gríðarlega hörð en bæði lið hafa unnið alla sína leiki og verður því heldur betur spennandi að sjá þegar liðin mætast loks innbyrðis í Mosfellsbænum 14. desember næstkomandi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is