Stelpurnar mættar til Kósóvó

Handbolti

Lið KA/Þórs er mætt til Kósóvó en stelpurnar munu þar leika tvívegis gegn liði KFH Istogu. Istogu er Kósóvómeistari auk þess að vera Bikarmeistari í landinu og ljóst að verkefnið verður ansi krefjandi en um leið ansi skemmtilegt enda í fyrsta skiptið sem KA/Þór tekur þátt í Evrópukeppni.

Ferðalagið út var í lengri kantinum en stelpurnar lögðu af stað frá Akureyri um 14:30 í gær, héldu þaðan til Keflavíkur þar sem flugið var út til Póllands. Þaðan var flogið til Norður Makedóníu og því næst keyrt yfir landamærin til Kósóvó og að lokum tæplega sólarhring frá brottför var liðið komið til Istogu.

Istogu bar höfuð og herðar yfir önnur lið í Kósóvó á síðustu leiktíð en auk þess að verða landsmeistari varð liðið bikarmeistari og það án þess að tapa leik allt tímabilið. Þá hefur lið Istogu hefur undanfarin þrjú tímabil keppt í Evrópukeppni en í fyrra tapaði liðið með eins marks mun fyrir Victoria-Berestie í þriðju umferð keppninnar.

Liðin mætast tvívegis, venjubundið er að liðin mætast heima og heiman en liðin komust að því samkomulagi að leika báða leikina í Kósóvó. Fyrri leikurinn er á föstudaginn klukkan 16:00 að íslenskum tíma og er skráður sem heimaleikur Istogu. Síðari leikurinn fer svo fram degi síðar kl. 16:00 að íslenskum tíma.

Síðari leikurinn verður í beinni útsendingu á EHF-TV en við bíðum enn frekari fregna af fyrri leiknum, við bindum vonir til að geta sýnt hann sjálf ef hann verður ekki aðgengilegur á öðrum miðlum. Vegna Covid veirunnar verður aðeins 10% af áhorfendasvæði Istogu nýtt á leikjunum og verða því aðeins 220 miðar í boði á hvern leik.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is