Skarpi og U19 með silfur á Sparkassen Cup

Handbolti
Skarpi og U19 með silfur á Sparkassen Cup
Skarpi okkar lengst til hægri

Skarphéðinn Ívar Einarsson og liðsfélagar hans í U19 ára landsliði Íslands í handbolta léku til úrslita á Sparkassen Cup í Þýskalandi sem lauk í dag. Íslenska liðið gerði sér lítið fyrir og vann fyrstu fjóra leiki sína sem tryggði liðinu sæti í úrslitaleiknum gegn heimamönnum í Þýskalandi.

Strákarnir hófu leik gegn Egyptum sem byrjuðu leikinn mun betur og var staðan 6-12 fyrir Egyptaland eftir um tuttugu mínútna leik. En hægt og bítandi fann íslenska liðið taktinn og sneri leiknum sér í vil og vannst að lokum góður 32-27 sigur. Skarpi skoraði 4 mörk í leiknum og stóð vel fyrir sínu.

Næst tók við leikur gegn Svisslendingum og nú var það íslenska liðið sem byrjaði betur. Strákarnir náðu strax 3-4 marka forskoti og héldu því út allan leikinn. Staðan var 17-13 í hálfleik og að lokum vannst 33-27 sigur sem tryggði liðinu sæti í undanúrslitum mótsins. Skarpi gerði 6 mörk í leiknum.

Í lokaleik riðilsins mættu strákarnir úrvalsliði Saar héraðsins en mótið var leikið í Merzig og tefla heimamenn ávallt fram sínu eigin úrvalsliði á mótinu. Ekki leið á löngu uns íslenska liðið hreinlega stakk af og leiddi 13-6 í hálfleik. Sigurinn var aldrei í hættu í þeim síðari og voru lokatölur 24-18 sigur Íslands og toppsætið í riðlinum þar með tryggt.

Við tók því leikur gegn Norður-Makedóníu í undanúrslitunum og var töluvert stress í báðum liðum í upphafi og lítið skorað. Staðan var jöfn 12-12 í hálfleik en frábær byrjun á síðari hálfleik kom íslenska liðinu 3-4 mörkum yfir og það tókst Makedóníumönnum aldrei að brúa. Ísland vann því sannfærandi 30-27 sigur og tryggði sér því sæti í úrslitaleiknum og hafði unnið fyrstu fjóra leiki sína. Skarpi gerði 3 mörk í leiknum.

Rétt eins og Ísland hafði Þýskaland unnið alla leiki sína á mótinu og úr varð hörku úrslitaleikur milli tveggja frábærra liða. Þjóðverjar byrjuðu að vísu betur og komust í 1-5 en eftir það jafnaðist leikurinn út. Staðan var jöfn 20-20 er tíu mínútur lifðu leiks og spennan í algleymingi. Það leit hinsvegar allt út fyrir tap er staðan var 23-25 og aðeins 40 sekúndur eftir.

En íslenska liðið sýndi ótrúlegan karakter og knúði fram jafntefli og fór leikurinn því í vítakeppni. Þar reyndust heimamenn sterkari og fóru með sigur af hólmi, samtals 26-28 en Skarpi gerði 3 mörk í leiknum.

Vissulega afar svekkjandi niðurstaða eftir frábæra frammistöðu á mótinu en alveg ljóst að íslenska liðið er gríðarlega sterkt og getur verið stolt af sínum árangri. Okkar maður stóð heldur betur fyrir sínu og óskum við honum og liðsfélögum hans til hamingju með magnað mót.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is