Sigur á Aftureldingu í markaleik

Almennt | Fótbolti
Sigur á Aftureldingu í markaleik
Elfar Árni skoraði þrennu - Mynd - Sævar Geir

KA og Afturelding mættust í dag í A-deild Lengjubikarsins á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Fyrir leikinn var KA með fullt hús stiga eftir tvo sigra gegn Val og Fram en Afturelding var fyrir leikinn með 4 stig eftir sigur gegn Fram og jafntefli gegn HK.

Afturelding 3 - 5 KA
0 - 1 Elfar Árni Aðalsteinsson (’47) Stoðsending: Hallgrímur Mar
0 - 2 Guðjón Pétur Lýðsson (’53) Stoðsending: Hrannar Björn
0 - 3 Elfar Árni Aðalsteinsson (’60) Stoðsending: Hallgrímur Mar
1 - 3 Andri Freyr Jónasson (’69)
1 - 4 Elfar Árni Aðalsteinsson - Víti (’77) Stoðsending: Þorri Mar
2 - 4 Andri Freyr Jónasson (’82)
3 - 4 Hlynur Magnússon (’83)
3 - 5 Sæþór Olgeirsson (’94) Stoðsending: Nökkvi Þeyr

Lið KA:

Aron Dagur, Hrannar Björn, Torfi Tímoteus, Brynjar Ingi, Bjarni Aðalsteins, Alexander Groven, Andri Fannar, Almarr Ormars, Guðjón Pétur, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Baldvin Ólafs, Ólafur Aron, Birgir Baldvins, Sæþór Olgeirs, Nökkvi Þeyr og Þorri Mar.

Skiptingar:

Hallgrímur Mar út - Þorri Mar inn ('60)
Alexander út - Ólafur Aron inn ('71)
Guðjón Pétur út - Sæþór inn ('76)
Elfar Árni út - Nökkvi Þeyr inn ('83)

Liðið í dag gegn Aftureldingu

Fyrri hálfleikur leiksins var afar rólegur og lítið um marktækifæri. KA liðið var þó töluvert meira með boltann án þess að skapa sér hættulegt marktækifæri. Staðan í hálfleik 0-0.

Seinni hálfleikur var hins vegar eintóm markaveisla og lítið um varnarleik hjá báðum liðum. KA liðið mætti afar ákveðið til leiks og pressaði heimamenn hátt á vellinum. Markahrókurinn Elfar Árni braut ísinn eftir einungis tvær mínútur þegar að hann fylgdi eftir fyrirgjöf frá Hallgrími Mar sem varnarmenn Aftureldingar reyndu að bjarga en boltinn endaði hjá Elfari sem skoraði fyrsta mark leiksins af stuttu færi.

Örfáum mínútum síðar átti Hrannar Björn góða fyrirgjöf fyrir markið sem markvörður Aftureldingar varði út í teiginn og Guðjón Pétur var fljótur að átta sig og skoraði af stuttu færi, keimlíkt fyrsta marki KA. Staðan 0-2 KA í vil og lítið liðið af síðari hálfleik.

Þegar að hálftími var eftir af leiknum vann KA boltann snyrtilega ofarlega á vellinum þegar að Almarr og Hallgrímur pressuðu varnarmann Aftureldingar vel og gaf Hallgrímur svo sendingu inn fyrir á Elfar Árna sem átti skot að marki sem Trausti í marki Aftureldingar varði en Elfar gerði vel og tók frákastið og skoraði laglega framhjá Trausta og koma KA í 3-0.

Á 69. mínútu gerðist vörn KA sek um slæm mistök þegar að Andri Freyr Jónasson komst inn í sendingu í vörninni og skoraði framhjá Aroni Degi og kom þar með heimamönnum á blað. Við markið virtist sem KA liðið vaknaði aftur til lífs og fékk liðið nokkur álitleg marktækifæri. Þorri Mar átti mjög góða innkomu í leikinn af bekknum átti hann meðal annars tvö skot sem enduðu í slá og stöng og mátti litlu muna að skota hans færu inn.

Stuttu seinna átti Þorri góðan sprett upp hægri vænginn og fór hann illa með varnarmann Aftureldingar sem sá sér engan annan kost annan en að brjóta á Þorra og dómari leiksins dæmdi réttilega vítaspyrnu. Vítið tók Elfar Árni og þrumaði hann boltanum ofarlega í vinstra hornið af miklu öryggi og fullkomnaði þar með þrennuna og kom KA í 4-1 og héldu þá margir að leiknum væri gott sem lokið en svo var heldur betur ekki.

Heimamenn í Aftureldingu voru alls ekki búnir að gefast upp og á 82. mínútu sundurspiluðu heimamenn vörn KA og Andri Freyr var aftur að verki og skoraði hann auðvelt mark eftir laglegan samleik við Jökul Jörvar Þórhallsson.

Við markið virtist sem leikmenn Aftureldingar fengu blóð á tennurnar og aðeins örfáum sekúndum eftir annað mark þeirra skoruðu þeir það þriðja. KA færði þeim boltann auðveldlega í teignum og Hlynur Magnússon skoraði auðveldlega af stuttu færi og staðan allt í einu orðin 3-4 og heimamenn eigðu von um að ná að jafna leikinn á síðustu mínútum leiksins.

Afturelding reyndi hvað þeir gátu til að jafna leikinn en KA liðið átti síðasta mark leiksins þegar að Nökkvi Þeyr átti flotta sendingu inn fyrir á Sæþór sem komst einn á móti markmanni og kláraði færið og innsiglaði sigurinn í uppbótartíma. Lokatölur 3-5 fyrir KA þar sem öll átta mörk leiksins komu í síðari hálfleik.

KA er áfram á toppi riðils 3 í A-deild Lengjubikarsins með 9 stig eftir 3 leiki. Næsti leikur liðsins er laugardaginn næsta þegar að HK úr Kópavogi koma í heimsókn norður og hefst leikurinn kl. 15.00 laugardaginn 9. mars. 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is