Flýtilyklar
Síðasti heimaleikur stelpnanna í deildinni
KA/Þór tekur á móti Aftureldingu klukkan 16:00 á laugardaginn í síðasta heimaleik liðsins í Olísdeildinni í vetur. Leikurinn er liður í næstsíðustu umferð deildarinnar en KA/Þór er í 3. sætinu með 27 stig en þar fyrir ofan eru Valur með 28 stig og Fram á toppnum með 29 stig.
Afturelding er enn án stiga á botni deildarinnar en hefur þrátt fyrir stigaleysið átt góða leiki og tapaði meðal annars aðeins 31-28 gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í síðustu umferð. Það er því alveg ljóst að stelpurnar okkar þurfa að mæta rétt stemmdar til leiks til að sækja mikilvæg stig í toppbaráttunni.
Á sama tíma mætast Fram og Valur auk þess sem að stelpurnar okkar mæta Val í lokaumferðinni. Það er því enn allt galopið í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn sem og efstu tvö sætin í deildinni. Efstu tvö sætin gefa sjálfkrafa þátttökurétt í undanúrslitum úrslitakeppninnar en liðin í 3.-6. sæti leika í 8-liða úrslitum og því mikilvægt að ná einu af tveimur efstu sætunum.
Við hvetjum alla til að mæta í KA-Heimilið á laugardaginn og styðja stelpurnar okkar til sigurs, þær hafa verið frábærar í vetur og eiga stuðninginn okkar svo sannarlega skilinn, áfram KA/Þór!
Fyrir þá sem komast ómögulega í KA-Heimilið er leikurinn í beinni á KA-TV.