Paula og Mateo best á lokahófi blakdeildar

Blak
Paula og Mateo best á lokahófi blakdeildar
Mateo og Paula með verðlaun sín

Blakdeild KA fagnaði glæsilegu tímabili með lokahófi um helgina en kvennalið KA stóð uppi sem þrefaldur meistari og er því Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess sem að karlalið KA lék til úrslita í bikarkeppninni.

Það ríkti því eðlilega mikil gleði á lokahófinu og eins og venja þykir á lokahófum voru þeir einstaklingar sem sköruðu framúr verðlaunaðir. Paula del Olmo og Miguel Mateo Castrillo voru valin bestu leikmenn liðanna en rétt eins og undanfarin ár léku þau lykilhlutverk hvort sem litið er til sóknar eða varnar og eru þau vel að heiðrinum komin.

Sölvi Páll Sigurgeirsson og Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir fengu verðlaun fyrir mestu framfarir. Hrafnhildur Ásta kom gríðarlega sterk inn í miðjustöðuna eftir að Gígja Guðnadóttir meiddist út tímabilið og þá lék Sölvi bæði stórt hlutverk í KA og KA B en KA B varð Deildarmeistari í 1. deild í vetur.

Gígja Guðnadóttir og Draupnir Jarl Kristjánsson voru valin bestu liðsfélagarnir en bæði eru þau gríðarlega jákvæð og hvetjandi liðsfélagar og eru því ansi vel að heiðrinum komin.

Þá heiðraði blakdeild hann Filip Pawel Szewczyk fyrir hans ómetanlega framlag til deildarinnar undanfarin ár. Filip hefur verið potturinn og pannan í starfi deildarinnar frá komu hans norður fyrir 14 árum síðan og heldur betur skrifað nafn sitt í sögu félagsins.

Miguel Mateo Castrillo og André Collin dos Santos þjálfarar meistaraflokka kvenna og karla voru þökkuð góð störf á tímabilinu en André mun yfirgefa félagið í sumar en hann hefur verið með okkur undanfarin tvö ár og kunnum við honum bestu þakkir fyrir hans framlag til KA.

Þá þakkaði blakdeild KA honum Ingvari Má Gíslasyni fyrrum formanni KA fyrir gott samstarf í gegnum árin auk þess sem að Eiríkur S. Jóhannsson nýr formaður KA var kallaður upp og lýstu báðir aðilar yfir mikilli tilhlökkun fyrir komandi samstarfi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is