Flýtilyklar
KA vann HK og leiðir einvígið 1-0
KA og HK mættust í kvöld í fyrsta leik liðanna í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. Liðin eru án nokkurs vafa bestu liðin í dag en þau mættust einnig í bikarúrslitunum og voru í efstu sætunum í deildarkeppninni, það mátti því búast við hörkuleik í KA-Heimilinu.
Fyrsta hrina var frekar sveiflukennd til að byrja með og skiptust liðin á að leiða. KA liðið tók þó forystuna þegar leið á og sigraði á endanum 25-21 og tók því forystuna 1-0.
Strákarnir hófu næstu hrinu vel og leiddi, HK liðið var þó aldrei langt undan og var leikurinn stál í stál út hrinuna. Eftir mikla spennu þá knúðu strákarnir fram 25-23 sigur og KA liðið komið í lykilstöðu.
HK liðið er hinsvegar mjög sterkt enda ríkjandi Íslandsmeistarar og þeir komu sterkir til leiks í þriðju hrinunni. Þegar líða fór á hrinuna náðu gestirnir góðu forskoti sem þeir héldu til loka og unnu sannfærandi 19-25 og staðan orðin 2-1.
Aftur byrjuðu gestirnir af krafti og komust þeir í 4-8 og áfram leiddu þeir í stöðunni 12-16. En þá kom 6-0 kafli frá KA liðinu og staðan skyndilega orðin 18-16. Þarna var okkar lið svo sannarlega búið að finna taktinn á ný og vannst 25-21 sigur. KA vann því 3-1 og leiðir 1-0 í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Næsti leikur er í Kópavogi á fimmtudaginn og hvetjum við alla sem geta til að mæta og styðja KA liðið til sigurs.