Flýtilyklar
KA tekur á móti Völsung í kvöld
Kvennalið KA hefur farið frábærlega af stað í Mizunodeildinni í blaki og er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki vetrarins. Í kvöld tekur liðið á móti Völsung í sannkölluðum nágrannaslag en leikurinn hefst klukkan 20:00 í KA-Heimilinu.
Lið Völsungs hefur farið nokkuð vel af stað í deildinni en liðið hefur unnið tvo af fjórum leikjum sínum. Liðið tapaði í oddahrinu gegn Aftureldingu í fyrsta leik en hefndi fyrir það degi síðar og lagði Mosfellinga að velli 1-3. Í næsta leik tapaði liðið 3-0 gegn HK en vann svo góðan 3-0 sigur á Þrótti um síðustu helgi.
Húsvíkingar eru því í 3. sæti deildarinnar með 7 stig og ljóst að KA liðið þarf að hafa fyrir hlutunum í kvöld til að halda áfram því skriði sem liðið hefur verið á. Það stefnir í hörkubaráttu í deildinni en Þróttur Nes. hefur unnið fyrstu fjóra leiki og HK unnið báða sína leiki til þessa.
Við hvetjum ykkur að sjálfsögðu til að drífa ykkur í KA-Heimilið í kvöld og styðja okkar lið til sigurs en ef þið komist ómögulega þá verður leikurinn í beinni á KA-TV.