KA Meistari Meistaranna í blaki kvenna (myndir)

Blak
KA Meistari Meistaranna í blaki kvenna (myndir)
Enn einn titillinn í hús! (mynd: EBF)

KA hampaði fyrsta titli vetrarins í blaki kvenna eftir magnaðan leik gegn Aftureldingu í KA-Heimilinu á laugardaginn. Þarna mættust tvö bestu lið síðasta tímabils í uppgjöri Meistara Meistaranna og úr varð stórkostlegur leikur. Síðar um kvöldið mættust svo karlalið KA og Hamars.

Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á svæðinu og býður til myndaveislu frá báðum leikjum. Smelltu á myndirnar fyrir neðan til að skoða myndaalbúm Egils frá leikjunum og kunnum við honum bestu þakkir fyrir framtakið.

Nokkrar breytingar voru á liði KA sem vann alla þá titla sem í boði voru á síðustu leiktíð en það kom ekki að sök og áttu stelpurnar frábæran leik. KA og Afturelding voru í sérflokki í fyrra og gaf leikurinn svo sannarlega góð fyrirheit fyrir komandi tímabil.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust snemma í 2-8 en þá kviknaði á okkar liði og stelpurnar náðu frumkvæðinu skömmu síðar. Leikurinn jafnaðist út í kjölfarið og varð mikil spenna út hrinuna sem endaði í upphækkun sem KA vann 26-24 og tók þar með forystuna 1-0.

Sama spenna einkenndi leikinn í annarri og þriðju hrinu og kom ekki á óvart að hrinurnar skyldu vinnast á minnsta mun, KA tók báðar hrinur 25-23 og vann þar með leikinn samtals 3-0 sem sýnir magnaðan karakter okkar liðs að klára jafn erfiðan leik og raun ber vitni í þremur hrinum.

Sterkir póstar úr okkar liði voru fjarverandi eða hafa horfið á braut frá síðustu leiktíð en stelpurnar okkar stigu heldur betur upp og stóðu sig frábærlega og áttu að lokum sigurinn hreinlega skilinn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá kvennaleiknum

Um kvöldið mættust svo KA og Hamar í leik Meistara Meistaranna karlamegin en Hamar er handhafi allra titlanna og hefur verið besta lið landsins undanfarin tvö ár. KA gaf Hvergerðingum þó hörkuleik í bikarúrslitunum á síðustu leiktíð og tók því á móti Hamar í leik helgarinnar.

Leikurinn bar þess merki að bæði lið væru ekki komin langt í sínum undirbúningi fyrir veturinn en spilamennskan batnaði töluvert þegar leið á leikinn og alveg klárt að það eru þó nokkrir jákvæðir punktar sem leikurinn mun skila eftir sig í herbúðum KA.

Gestirnir reyndust sterkari aðilinn og unnu þeir fyrstu hrinu 22-25 og þá næstu 19-25. Eins og fyrr segir þá batnaði spilamennska KA liðsins er leið á leikinn og voru strákarnir afar öflugir í þeirri þriðju. Þeir voru með frumkvæðið lengst af en tókst ekki alveg að halda út og sterkt lið gestanna tókst að hrifa hrinuna til sín með 22-25 sigri og svekkjandi að ná ekki hrinu gegn Hamarsliðinu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá karlaleiknum


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is