KA Deildarmeistari annað árið í röð!

Blak
KA Deildarmeistari annað árið í röð!
Deildarmeistarar! (mynd: Egill Bjarni)

Kvennalið KA í blaki hampaði Deildarmeistaratitlinum í dag eftir frábæran 3-1 sigur á liði Álftanes í hreinum úrslitaleik um titilinn en leikurinn var lokaleikur liðanna í deildinni. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum og því ljóst að sigurliðið færi heim með bikarinn.

Mikið jafnræði var á með liðunum sem skiptust á að taka öflugar skorpur og var spennan mikil. KA liðið náði afar góðum kafla undir lok fyrstu hrinu og náði að klára hana 25-19 og tók þar með forystuna 1-0 í leiknum.

Eftir miklar sviptingar í annarri hrinu voru það gestirnir sem náðu að jafna metin í 1-1 með 23-25 sigri og sama var uppi á teningunum í þriðju hrinu. Spennan gífurleg og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda, en að lokum vann KA þriðju hrinuna einnig með minnsta mun, 25-23, og tók þar með 2-1 forystu.

Álftanes reyndi hvað það gat til að knýja fram oddahrinu en stelpurnar okkar reyndust sterkari þegar mest á reyndi og sigldu að lokum heim 25-22 sigri í fjórðu hrinu og unnu þar með leikinn samtals 3-1.

KA er því Deildarmeistari annað árið í röð í blaki kvenna en þetta er í fimmta skiptið sem KA hampar titlinum. Á dögunum urðu stelpurnar einnig Bikarmeistarar annað árið í röð og stóra spurningin því hvort þær nái einnig að verja sjálfan Íslandsmeistaratitilinn en úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn er framundan. Þar eru stelpurnar komnar áfram í undanúrslit með góðum árangri sínum í deildarkeppninni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is