Jonathan Rasheed gengur í raðir KA

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA fékk í dag góðan liðsstyrk er Jonathan Rasheed gekk í raðir félagsins. Jonathan sem er 33 ára gamall markvörður sem kemur frá Noregi en er þó fæddur í Svíþjóð. Hann gengur í raðir KA frá sænska liðinu Värnamo sem leikur í efstudeild þar í landi.

Við erum afar spennt fyrir komu Jonathans hingað norður en hann mætti á svæðið í dag og er því strax klár að koma sér inn í hópinn. Það var ljóst eftir síðasta tímabil að það yrðu breytingar á markmannsteymi Bikarmeistaraliðs KA en Kristijan Jajalo yfirgaf herbúðir KA eftir síðasta sumar.

Jonathan er fæddur í Gautaborg en er með norskan ríkisborgararétt. Faðir hans er nígerískur og móðir hans er norsk. Á síðasta tímabili lék hann 14 leiki fyrir Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni er liðið tryggði sér áframhaldandi veru í efstudeild en árið þar á undan lék hann 22 leiki er Värnamo endaði í 5. sæti deildarinnar.

Alls hefur hann leikið 47 leiki í efstu deild í Svíþjóð og 40 leiki í næstefstu deild. Auk þess á hann 29 leiki í norsku B-deildinni.

Eins og áður segir erum við ákaflega spennt fyrir komu hans hingað norður og verður spennandi að sjá hvernig hann kemur inn í hópinn. Hann skrifaði undir tveggja ára samning og er því samningsbundinn KA út sumarið 2026.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is