Flýtilyklar
Jafntefli í markaleik
KA og Valur gerðu í dag 3-3 jafntefli á Greifavellinum í 19. umferð Pepsi deildar karla. KA leiddi í hálfleik 2-1 og kom jöfnunarmark Valsmanna í uppbótartíma.
KA 3 – 3 Valur
0 - 1 Kristinn Freyr Sigurðsson (’15)
1 - 1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’24)
2 - 1 Steinþór Freyr Þorsteinsson (’39) Stoðsending: Hrannar Björn
2 - 2 Kristinn Freyr Sigurðsson (’53)
3 - 2 Callum Williams (’64) Stoðsending: Aleksandar
3 - 3 Birkir Már Sævarsson (’93)
Lið KA:
Aron Elí, Hrannar Björn, Hallgrímur J, Callum, Milan, Aleksandar, Bjarni Mark, Hallgrímur Mar, Vladimir, Daníel og Ásgeir.
Bekkur:
Rajko, Hjörvar, Steinþór Freyr, Elfar Árni, Ýmir Már, Archange og Frosti.
Skiptingar:
Bjarni Mark út – Steinþór Freyr inn (’24)
Ásgeir út – Elfar Árni inn (’45+3)
Vladimir út – Archange inn (’87)
KA gerði þrjár breytingar frá jafnteflinu gegn Víkingi í síðustu umferð. Inn í liðið komu þeir Hrannar, Haddi og Túfa á kostnað Hjörvars, Steinþórs og Elfars.
KA hóf leikinn vel og var kraftur í liði KA sem ætlaði greinilega að selja sig dýrt í dag. Það voru hins vegar Íslandsmeistarar Vals sem skoruðu fyrsta markið og kom það eftir laglegan samleik milli Ólafs Karls og Kristins Freys í teig KA sem lauk með því að Kristinn skaut hnitmiðuðu skoti framhjá Aroni í marki KA og staðan því 0-1 fyrir gestina eftir 16 mínútna leik.
Skömmu seinna áttu Valsmenn góða skyndisókn og voru komnir í álitlega stöðu en þá þrumaði Birkir Már boltanum af stuttu færi í höfuð Bjarna Mark í teignum sem lá óvígur eftir á vellinum og þurfti að gera hlé á leiknum í rúmar 5 mínútur og Bjarni borinn af velli og fluttur upp á sjúkrahús með heilahristing.
Örfáum mínútum seinna komst Hallgrímur Mar inn í sendingu frá Bjarna Ólafi á Anton Ara í marki Vals og lék á varnarmenn gestanna og skoraði á laglegan hátt úr þröngu færi og jafnaði metin fyrir KA 1-1.
Markið virtist gefa KA byr undir báða vængi og sótti KA liðið af meiri krafti eftir markið og hélt boltanum vel innan liðsins.
Skömmu fyrir hálfleik átti Hrannar Björn magnaða fyrirgjöf fyrir markið sem Steinþór Freyr skallaði snyrtilega í netið á nærstönginni og KA komið verðskuldað yfir 2-1. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks sem var ansi langur meiddist Ásgeir illa eftir brot út á velli og var hann borinn sárkvalinn útaf og útlitið ekki gott og allar líkur á því að tímabilinu sé lokið hjá Ásgeiri. Í hans stað kom Elfar Árni inn á.
Gestirnir í Val hófu seinni hálfleikinn mun betur en KA og voru þeir líklegir til að jafna hvað eftir annað í upphafi seinni hálfleiks. Eftir 8 mínútna leik kom svo jöfnunarmarkið en þá lék Patrick Pedersen illa á Callum í vörn KA og gaf stungusendingu inn fyrir á Kristinn Frey sem renndi boltanum af stuttu færi framhjá Aroni í marki KA og staðan 2-2.
Valsmenn héldu boltanum meira en KA í síðari hálfleik en skyndisóknir KA voru stórhættulegar og skapaðist hætta við mark Vals hvað eftir annað.
Á 64. Mínútu átti Hallgrímur hornspyrnu sem Túfa framlengdi áfram á Aleksandar sem skallaði boltann upp í loftið og endaði boltinn hjá Callum í markteignum sem skoraði af stuttu færi og kom KA aftur yfir í leiknum.
Valsmenn settu þá töluverðan þunga í sóknina og ætluðu þeir sér ekki að fara tómhentir heim frá Akureyri. KA varðist vel og lokaði á aðgerðir Vals en líkt og fyrr í sumar fékk KA mark á sig í uppbótartíma. Milan braut þá á Andra Adolphssyni við endalínuna og fengu Valsmenn aukaspyrnu. Hana tók besti maður Vals í leiknum Kristinn Freyr og var hún hnitmiðuð beint í pakkann þar sem Birkir Már kom boltanum í netið af stuttu færi og jafnaði metin 3-3 og þar við sat.
Gríðarlega svekkjandi jafntefli annan leikinn í röð hjá KA þar sem liðið spilaði frábærlega meirihluta leiksins en einbeitingarleysi á lokaandartökum leiksins kostar okkur stigin þrjú. Það sem verra er að Bjarni Mark og Ásgeir voru báðir bornir útaf meiddir og líta meiðsli þeirra ekki vel út við fyrstu skoðun og er skarð fyrir skildi enda báðir verið með betri leikmönnum KA í sumar.
Nivea KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Alltaf hætta í kringum Grímsa í dag og átti hann fyrsta mark KA skuldlaust þegar að hann pressaði varnarmenn Vals vel og kláraði færið snyrtilega. Skapaðist iðulega hætta í kringum föst leikatriði frá honum en síðasta mark KA kom einmitt upp úr hornspyrnu frá Grímsa.)
Næsti leikur KA er ekki fyrr en 19. september vegna landsleikjarhlésins sem er framundan og bikarúrslitaleiksins og er það útileikur gegn Stjörnunni á Samsung vellinum og hefst sá leikur kl. 18:00 og hvetjum við alla KA menn á höfuðborgarsvæðinu að mæta á völlinn og styðja við liðið í lokabaráttunni sem framundan er í Pepsi deildinni. Áfram KA!