Jafntefli gegn Val

Fótbolti
Jafntefli gegn Val
Elfar Árni skoraði mark KA.

KA og Valur gerðu í dag 1-1 jafntefli 19. umferð Pepsi-deildarinnar á Akureyrarvelli. Elfar Árni kom KA yfir í upphafi síðari hálfleiks en Guðjón Pétur jafnaði fyrir Val um miðbik seinni hálfleiks úr vítaspyrnu.

KA 1 - 1 Valur
1 - 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’47) Stoðsending: Hallgrímur
1 - 1 Guðjón Pétur Lýðsson (Víti) (’62)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Vedran, Darko, Aleksandar, Archange, Hallgrímur, Steinþór Freyr, Emil Lyng og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Ólafur Aron, Almarr, Ásgeir, Davíð Rúnar, Bjarni og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Steinþór Freyr út – Ásgeir inn (’59)

Archange út – Ólafur Aron inn (’81)

Callum Williams var fjarri góðu gamni í dag en hann var í leikbanni eftir rauða spjaldið gegn ÍA. Inn í hans stað kom fyrirliðinn Guðmann Þórisson en þetta var hans fyrsti leikur síðan í maí eftir erfið meiðsli.

Valsmenn byrjuðu leikinn eilítið betur í dag en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn sótti KA liðið í sig veðrið og var liðið stórhættulegt í nokkrum skyndisóknum sínum. Hallgrímur Mar fékk ákjósanlegt færi á 23. mínútu en Haukur Páll fyrirliði Valsmanna kastaði sér fyrir skot Grímsa úr teignum og kom í veg fyrir það að KA kæmist yfir.

Emil Lyng fékk einnig gott tækifæri til að skora þegar að Darko átti laglegan sprett upp vinstri vænginn sem Steinþór skallaði fyrir fætur Emil sem var við markteig gestanna en skot hans var himinhátt yfir markið.

Hart var barist í fyrri hálfleik og var töluverður hiti í mönnum. Valsmenn áttu nokkrar hættulegar sóknir en varðist vörn KA vel og var staðan í hálfleik markalaus.

KA menn hófu seinni hálfleikinn af miklum eldmóð og eftir aðeins tveggja mínútna leik uppskar liðið mark. Hallgrímur Mar átti þá magnaða fyrirgjöf með vinstri fæti á Elfar Árna sem fleygði sér fram og skallaði boltann í netið og KA liðið komið með 1-0 forystu.

Örfáum mínútum síðar munaði litlu að KA kæmist í 2-0 en þá átti Grímsi góða fyrirgjöf sem varnarmaður Valsara skaut í stöng á eigin marki og minnstu munaði að Emil næði til knattarins. Á 57. mínútu björguðu Valsmenn aftur naumlega en þá átti Darko góða fyrirgjöf á Steinþór sem átti skot að marki sem Anton Ari í marki Vals varði meistaralega og Eiður Aron í vörn Vals hreinsaði frá markinu á marklínu áður Elfar Árni náði til boltans.

Á 61. mínútu fengu gestirnir í Val vítaspyrnu þegar að Guðmann braut á Nicolas Bogild innan teigs. Á punktinn steig Guðjón Pétur Lýðsson og skoraði hann af öryggi og jafnaði metin.

Eftir jöfnunarmarkið var jafnræði í leiknum og skiptust liðin á því að sækja á hvort annað. KA liðið var þétt til baka og gaf lítil færi á sér. Bæði lið reyndu hvað þau gátu að sækja sigurinn undir restina en lítið var um færi á lokamínútunum þó svo baráttan hafi verið mikil.

Nivea KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Skoraði laglegt mark og var feykilega öflugur í dag. Hélt boltanum vel upp á topp og gerði varnarmönnum Vals lífið leitt í leiknu.)

Næsti leikur KA er á sunnudaginn næsta þegar að við förum í Vesturbæinn og mætum KR í Frostaskjólinu. Hefst sá leikur kl. 16.00 og hvetjum við fólk til að fjölmenna á völlinn. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is