Flýtilyklar
Hilmar Bjarki framlengir um tvö ár
Hilmar Bjarki Gíslason skrifaði á dögunum undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn félaginu út tímabilið 2024-2025. Þetta eru afar góðar fréttir en Himmi sem verður tvítugur í sumar hefur unnið sig jafnt og þétt í stærra hlutverk í okkar öfluga liði.
Himmi sem er uppalinn hjá KA lék sína fyrstu meistaraflokksleiki tímabilið 2021-2022 og tók þátt í öllum leikjum liðsins á nýliðnu tímabili. Auk þess lék hann 6 leiki með ungmennaliði KA í Grill66 deildinni þar sem KA U endaði í 5. sæti.
Himmi hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í vörn KA-liðsins og þá hefur hann verið að bæta sóknarleikinn þar sem hann leikur á línunni. Það eru frábærar fréttir að Himmi taki áfram slaginn með KA-liðinu og verður áfram gaman að fylgjast með framgöngu hans í gula og bláa búningnum.