Frábær uppskera um helgina

Handbolti
Frábær uppskera um helgina
Strákarnir í 4. flokk sáttir með helgina

Það var nóg um að vera í yngriflokkunum í handboltanum um nýliðna helgi en 4. flokkur karla og kvenna léku mikilvæga leiki auk 3. flokks kvenna og ungmennaliðs drengja. Alls léku flokkarnir níu leiki um helgina og tapaðist ekki einn einasti þeirra. Átta leikir unnust og einn endaði í jafntefli.

Strákarnir í 4. flokki karla gerðu góða ferð suður og komu taplausir heim eftir sex leiki. Spilamennskan var mjög góð hjá strákunum en á bæði eldra og yngra ári 4. flokks er KA á toppi efstu deildar. Eldra árs lið KA (2006) byrjaði á föstudag að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarsins með 21-33 sigri á HK. Með fylgdu svo sannfærandi sigrar á móti tveimur sterkustu liðunum í deildinni. KA vann Aftureldingu 22-29 og svo Gróttu/KR 18-22. KA strákarnir hafa unnið alla níu leiki sína til þessa í deildinni.

KA 2 á eldra ári gerði jafntefli við topplið Vals 28-28 og unnu svo Aftureldingu 2 mjög sannfærandi í seinni leik sínum um helgina. KA 2 er í öðru sæti 2. deildar með 4 sigra, 1 jafntefli og 2 töp.

Yngra árs liðið (2007) mætti svo Haukum en Haukar voru fyrir leik í efsta sæti deildarinnar. KA liðið bauð upp á sýningu í leiknum og sigruðu 23-29 í leik þar sem allir leikmenn liðsins áttu frábæran leik. KA hefur unnið 5 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 1 leik í þessum árgangi og eru þar af leiðandi með fæst töpuð stig ásamt ÍR sem hefur leikið færri leiki.

Frábær helgi hjá liðunum sem hafa sýnt það að þau eru augljóslega meðal bestu liða landsins. Þetta er flottur hópur sem æfir mjög vel og er gríðarlega góð liðsheild í þessum flokki. Nái KA að halda sama krafti út keppnistímabilið er ljóst að þessi lið munu berjast um alla titla sem eru í boði í yngri flokkunum.

Stelpurnar í 4. flokki léku heimaleik á laugardaginn er þær tóku á móti sterku liði Vals í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Valsliðið hafði ekki tapað leik í vetur og ljóst að verkefnið var ansi krefjandi en stelpurnar mættu beittar til leiks og úr varð æsispennandi leikur. Jafnt var á nánast öllum tölum og fór svo að lokum að leikurinn var framlengdur.

Eftir frábæra spilamennsku okkar liðs tókst stelpunum að vinna 19-17 sigur og tryggja sér þar með sæti í undanúrslitum bikarsins á kostnað Vals. Leikurinn var algjörlega frábær skemmtun og magnað að stelpurnar séu þær fyrstu til að leggja Val að velli.

KA/Þór og Valur mættust einnig í 3. flokki kvenna á laugardeginum en sá leikur var hluti af deildarkeppninni. Rétt eins og hjá 4. flokknum var um æsispennandi leik að ræða en liðin skiptust á að leiða og mátti vart sjá hvoru megin sigurinn myndi enda. KA/Þór átti góðan endasprett í fyrri hálfleik og leiddi 14-11 í hléinu. Sama var uppi á teningunum í þeim síðari, liðin skiptust á að leiða en það voru okkar stelpur sem náðu að sigla 35-34 sigri heim og tvö mikilvæg stig í hús.

Stelpurnar eru nú aðeins tveimur stigum frá efsta sæti deildarinnar og ljóst að ansi spennandi lokakafli í deildinni er framundan.

Á sunnudeginum tók svo ungmennalið KA á móti ungmennaliði Fjölnis í 2. deild karla. Strákarnir byrjuðu betur og náðu 9-6 forystu um miðbik fyrri hálfleiks en þá svöruðu gestirnir með fjögurra marka kafla og tóku frumkvæðið. Að fyrri hálfleik loknum var staðan jöfn 15-15 og útlit fyrir sömu spennu í þeim síðari.

En strákarnir okkar voru ekki á þeim buxunum og þeir stungu hreinlega af í þeim síðari. Mest náðu þeir 9 marka forystu og var sigur KA liðsins aldrei í hættu í síðari hálfleik. Að lokum vannst 36-29 sigur og strákarnir komnir með sex sigra af sjö mögulegum og eru það lið sem hefur tapað fæstum stigum í deildinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is