Flýtilyklar
Frábær liðssigur í Mosfellsbænum
KA/Þór gerði góða ferð í Mosfellsbæinn í gær er stelpurnar unnu sannfærandi 24-34 sigur á liði Aftureldingar. Ekki nóg með að sækja mikilvæg tvö stig og að sigurinn hafi aldrei verið í hættu að þá var ákaflega gaman að fylgjast með liðsheildinni sem skilaði sínu.
Það er nefnilega gaman að segja frá því að allir leikmenn liðsins sem voru í hóp í gær tóku þátt í leiknum en meðal annars léku sjö stelpur sem enn eru í 3. flokk félagsins. Rakel Sara Elvarsdóttir gerði 4 mörk en hún hefur þrátt fyrir ungan aldur verið lykilmaður í liðinu undanfarin ár.
Hildur Lilja Jónsdóttir sem er 17 ára gömul kom af krafti inn í leikinn og gerði 3 mörk. Júlía Sóley Björnsdóttir gerði eitt mark af línunni og þá gerðu þær Sunna Katrín Hreinsdóttir og Lydía Gunnþórsdóttir sín fyrstu mörk fyrir liðið en Lydía er aðeins 15 ára gömul. Auk þeirra léku þær Agnes Vala Tryggvadóttir og Aþena Sif Einvarðsdóttir og skiluðu flottri frammistöðu.
Það segir mikið um hve öflugt kvennastarfið er hjá KA/Þór að jafn margar öflugar uppaldar stelpur séu tilbúnar í slaginn í efstu deild og alveg ljóst að áfram er bjart framundan hjá okkar magnaða liði. Sunna Guðrún Pétursdóttir lék allan tímann í markinu en hún gerði sér lítið fyrir og varði 17 skot sem gerir 41% markvörslu en hún varði til að mynda tvö vítaköst.
Jafnt var á með liðunum á upphafsmínútum leiksins en fljótlega skildu leiðir og var sigur okkar liðs aldrei í hættu. Staðan var 11-18 í hálfleik og fljótlega fór forskotið upp í tíu mörk sem hélst svo út leikinn þrátt fyrir örar skiptingar og eins og áður segir að allir leikmenn liðsins tóku þátt í verkefninu.