Frábær KA sigur í oddahrinu

Blak
Frábær KA sigur í oddahrinu
Frábær sigur staðreynd (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti HK í uppgjöri toppliðanna í Mizunodeild karla í blaki í KA-Heimilinu í dag. Það var ljóst að með sigri gæti KA liðið komið sér í kjörstöðu í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn en á sama tíma var leikurinn gríðarlega mikilvægur fyrir lið gestanna enda mikilvægt að saxa á forskot KA liðsins á toppnum.

Fyrsta hrinan var hnífjöfn og spennandi, liðin skiptust á að hafa forystuna og aldrei munaði meira en 2-3 stigum. Það voru svo gestirnir úr Kópavogi sem reyndust sterkari þegar mestu skipti og unnu þeir 24-26 og tóku þar með forystuna 0-1.

Áfram var gríðarleg spenna í leiknum og var leikurinn bráðfjörugur og ekki beint að sjá að liðin væru að leika sinn fyrsta leik eftir langt jólafrí. Jafnt var upp í stöðuna 17-17 en þá kom öflugur kafli hjá okkar liði og KA vann hrinuna 25-21 og jafnaði metin í 1-1.

KA byrjaði þriðju hrinuna betur og virtist vera komið með ágætis tak á leiknum þó gestirnir væru aldrei langt undan. KA leiddi 20-18 en þá hrökk lið HK í gang og þeir unnu að lokum 22-25 og komnir í 1-2 sem þýddi að þeir voru komnir með stig úr leiknum hið minnsta og KA með bakið uppvið vegginn.

Ekki leist manni á blikuna í upphafi fjórðu hrinu þar sem HK byrjaði á að leiða en þegar leið á hrinuna batnaði spilamennska KA liðsins og strákarnir náðu fjögurra stiga forystu sem hélst út hrinuna og KA landaði 25-21 sigri og knúði fram oddahrinu.

Ótrúlegt en satt þá var oddahrinan í raun mest óspennandi hrina leiksins en KA liðið var komið í gang og náði góðri forystu og vann sannfærandi 15-11 á endanum og leikinn þar með 3-2. Gríðarlega góður karakter hjá liðinu að spila sig betur og betur í stand en gestirnir fengu ófá stigin í fyrstu þremur hrinum leiksins eftir mistök KA liðsins en til að mynda klikkuðu 20 uppgjafir hjá okkar liði í leiknum.

Liðin mætast aftur á morgun klukkan 13:00 og munar nú 11 stigum á liðunum í deildinni en HK á tvo leiki til góða og því hægt að segja að munurinn sé 5 stig á liðunum. Við hvetjum ykkur eindregið til að mæta á leik morgundagsins og ljóst að strákarnir ætla sér öll stigin þrjú, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is