Flýtilyklar
Frábær árangur U17 - sex frá KA
KA á sex fulltrúa í U17 ára landsliði Íslands í handbolta sem hefur staðið sig frábærlega í sumar en íslenska liðið endaði í 5. sæti bæði á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóveníu sem og á Opna Evrópumótinu sem fram fór í Svíþjóð.
Fulltrúar KA eru þeir Aron Daði Stefánsson, Dagur Árni Heimisson, Hugi Elmarsson, Jens Bragi Bergþórsson, Magnús Dagur Jónatansson og Óskar Þórarinsson. Auk þess þjálfar Heimir Örn Árnason liðið með Stefáni Árnasyni og því ansi sterk KA tenging í liðinu.
Um helgina lauk Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar og má með sanni segja að strákarnir hafi sýnt stáltaugar þegar þeir lönduðu 5. sætinu eftir magnþrungin leik við Noreg. Allt virtist stefna í framlengingu er 6 sekúndur lifðu leiks og staðan jöfn 31-31 en Dagur Árni brunaði upp völlinn og þrumaði boltanum í netið og tryggði dísætan sigur.
Jens Bragi var markahæstur í leiknum gegn Noregi með 9 mörk þar af eitt úr vítakasti á lokasekúndunum sem Magnús Dagur fiskaði. Dagur Árni og Hugi gerðu báðir 3 mörk í leiknum, Aron Daði gerði tvö, bæði úr vítaköstum, og þá gerði Magnús Dagur einnig tvö mörk. Óskar varði 8 skot í markinu.
Strákarnir unnu einnig sigur á Norðmönnum í upphafsleik mótsins þá 34-32 eftir að hafa verið tveimur mörkum undir, 16-18, í hálfleik. Dagur Árni gerði 8 mörk í þeim leik, Jens Bragi 3 og þá gerðu þeir Aron Daði, Hugi og Magnús Dagur allir tvö mörk. Óskar átti stórleik í markinu og varði 18 skot, þar af 12 í síðari hálfleik.
Strákarnir töpuðu aðeins einum leik á mótinu og það gegn gríðarlega sterku liði Þjóðverja sem enduðu uppi sem sigurvegarar mótsins eftir 32-25 sigur á heimamönnum í Slóveníu. Í leiknum gegn Þjóðverjum gerði Dagur Árni 4 mörk rétt eins og Jens Bragi. Þeir Aron Daði og Magnús Dagur gerðu báðir 3 mörk og þá varði Óskar 9 skot í markinu.
Það mátti ekki miklu muna að strákarnir færu áfram í undanúrslitin en þeir unnu frábæran 31-27 sigur á heimamönnum í Slóveníu þar sem Jens Bragi gerði 9 mörk, Aron Daði 6, Dagur Árni 3, Magnús Dagur 3 og Hugi eitt mark auk þess sem Óskar varði 5 skot í markinu. Það dugði þó ekki til að enda í tveimur efstu sætunum en Ísland var jafnt Þýskalandi og Slóveníu að stigum en endaði í 3. sæti vegna lakari innbyrðisviðureigna. Strákarnir voru greinilega í sterkasta riðlinum enda fóru bæði Þýskaland og Slóvenía í úrslitaleikinn.
Strákarnir létu það þó ekki á sig fá og unnu glæsilegan 37-30 sigur á Svartfellingum sem tryggði þeim sæti í leiknum um 5. sætið sem vannst gegn Norðmönnum. Í sigrinum á Svartfellingum gerði Jens Bragi 8 mörk, Magnús Dagur 7, Aron Daði 3 og Óskar varði 7 skot.
Strákarnir okkar mögnuðu. Frá vinstri: Magnús Dagur Jónatansson, Jens Bragi Bergþórsson, Óskar Þórarinsson, Hugi Elmarsson, Dagur Árni Heimisson og Aron Daði Stefánsson.
Fyrr í mánuðinum léku strákarnir á Opna Evrópumótinu sem fram fór í Gautaborg í Svíþjóð. Þar fóru strákarnir frábærlega af stað er þeir unnu 30-22 sigur á Lettlandi en Magnús Dagur gerði 5 mörk í leiknum, Dagur Árni 4 og Jens Bragi 2 mörk auk þess sem Óskar varði 15 skot í markinu.
Strákarnir fylgdu sigrinum eftir með 24-14 stórsigri á Eistlandi eftir að hafa leitt 12-4 í hálfleik. Dagur Árni og Jens Bragi gerðu báðir 3 mörk í leiknum og Hugi gerði tvö mörk. Hinsvegar lentu strákarnir á vegg er þeir mættu Svíum í þriðja leik sínum og tapaðist sá leikur 20-28. Magnús Dagur gerði 4 mörk, Dagur Árni 3 og Jens Bragi 1 mark.
Aftur fóru strákarnir á sigurbrautina með 23-18 sigri á Pólverjum eftir að hafa leitt 15-8 í hálfleik. Jens gerði 2 mörk í leiknum og Dagur Árni eitt. Strákarnir unnu því þrjá leiki af fjórum í riðlinum fóru því með tvö stig inn í milliriðil.
Í milliriðlinum töpuðu strákarnir 20-26 fyrir Frökkum eftir að staðan var jöfn 11-11 í hléinu. Magnús Dagur gerði 3 mörk, Dagur Árni 2 og Jens Bragi 1 mark auk þess sem Óskar varði 8 skot í markinu. Í kjölfarið fylgdi gríðarlega svekkjandi 24-25 tap gegn Sviss þar sem sigurmarkið kom á lokasekúndunni. Dagur Árni átti stórleik og gerði 9 mörk, Jens Bragi 4 og Magnús Dagur 1 mark. Óskar varði 5 skot í markinu.
Strákarnir tryggðu sér svo leikinn um 5. sætið með góðum 18-15 sigri á Ísrael í lokaumferð milliriðilsins en Hugi gerði 3 mörk í leiknum rétt eins og Dagur Árni.
Óskar átti svo stórbrotinn leik þegar strákarnir tryggðu sér leikinn um 5. sætið á mótinu með 35-32 sigri á Króatíu eftir framlengingu en Óskar varði 16 skot og fékk aðeins tvö mörk á sig í framlengingunni. Dagur Árni gerði 7 mörk og þeir Hugi og Magnús Dagur gerðu báðir 1 mark í leiknum.
Dagur Árni Heimisson var að lokum valinn í úrvalslið mótsins sem er stórkostleg viðurkenning. Alls hefur þetta landslið spilað 17 landsleiki og unnið 13 þeirra. Það er því alveg ljóst að hér eru á ferðinni gríðarlega efnilegir og öflugir leikmenn sem verður gaman að fylgjast með í náinni framtíð og magnað að við eigum sex fulltrúa í þessu glæsta liði.