Frábær árangur KA á Héraðsmóti Völsungs

Blak
Frábær árangur KA á Héraðsmóti Völsungs
Það er bjart framundan hjá blakdeild KA!

Völsungur hélt Héraðsmót í blaki í gær þar sem krakkar 15 ára og yngri léku listir sínar. Það var kærkomið fyrir iðkendur okkar að fá að komast á mót enda langt síðan síðasta yngriflokkamót fór fram.

Alls sendi KA 12 lið til leiks og þar á meðal strákalið en það er virkilega gaman að sjá fjölgunina í krakkablakinu hjá félaginu. Krakkarnir okkar fengu að nefna liðin sín sjálf á mótinu og niðurstaðan varð ansi hreint skemmtileg!

Í flokki 10 ára og yngri léku KA Hvalir og KA Kanínur en ekki voru skráð úrslit í flokknum. Í þessum aldursflokki er spilað krakkablak en þar má kasta og grípa boltanum sem hjálpar við að ná grunninum í blaki. Gaman að segja frá því að KA-maðurinn Sigurður Arnar Ólafsson er einn af aðalmönnunum bakvið uppvöxt krakkablaks á Íslandi.


Það var heldur betur fjör hjá krökkunum okkar á Húsavík í gær!

Í flokki 12 ára og yngri sendi KA alls fimm lið til leiks. Í A-riðli KA Oreo, KA Masters og KA Stelpur þar sem KA Masters stóðu uppi sem sigurvegarar en liðið vann alla leiki sína á mótinu. Í B-riðli kepptu svo Super KA og KA Champions og stóðu bæði lið sig með prýði en BF vann riðilinn.

KA átti tvö lið í flokki 14 ára og yngri en það voru KA 6 og KA 7. Eftir virkilega flotta leiki var KA 7 sem gerði sér lítið fyrir og vann mótið. Í flokki 15 ára og yngri léku KA Boys og sýndi liðið flotta takta og átti fína spretti.

Jóna Margrét Arnarsdóttir þjálfar 10 ára og yngri hópinn en Paula del Olmo stýrði eldri krökkunum og á hún mikinn þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í yngriflokkastarfi blakdeildar og ljóst að framtíðin er svo sannarlega björt í blakinu með þessu áframhaldi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is