Fimm leikmenn semja hjá Þór/KA

Fótbolti
Fimm leikmenn semja hjá Þór/KA
Spennandi sumar framundan (mynd: Páll Jó)

Undirbúningur fyrir næsta sumar er í fullum gangi hjá Þór/KA og í dag skrifuðu alls fimm leikmenn undir samning hjá liðinu. Þrír leikmenn framlengdu samning sinn við liðið en það voru þær Harpa Jóhannsdóttir, Heiða Ragney Viðarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir.

Hulda Karen Ingvarsdóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir voru hinsvegar að gera sinn fyrsta samning við liðið en Hulda Karen á þó leiki að baki fyrir Þór/KA. Snædís hefur hinsvegar leikið með Hömrunum.

Karen María á að baki 46 meistaraflokksleiki þar sem hún hefur gert 7 mörk með Þór/KA og Hömrunum, þar af eru fjórir Evrópuleikir með Þór/KA 2018. Harpa á að baki 25 meistaraflokksleiki (eitt mark) með Þór/KA og Hömrunum (deild og bikar) en hún var valin besti leikmaður Hamranna árið 2018. Heiða Ragney á að baki 73 meistaraflokksleiki (tvö mörk) með Þór/KA en hún hefur stundað nám og spilað fótbolta í Bandaríkjunum undanfarin ár en lauk náminu í vor.

Það er ljóst að það er ákaflega spennandi sumar framundan hjá liði Þór/KA en töluverðar breytingar hafa orðið á liðinu frá síðasta sumri. Andri Hjörvar Albertsson hefur tekið við sem aðalþjálfari en hann þekkir ansi vel til enda var hann aðstoðarmaður Donna undanfarin þrjú tímabil.

Þór/KA er stórveldi í íslenskri knattspyrnu en undanfarin tólf sumur hefur liðið endað í efstu fjórum sætum efstu deildar kvenna og hefur ekkert lið náð þeim árangri undanfarin ár. Við óskum leikmönnunum fimm til hamingju með samningana og bíðum spennt eftir komandi sumri.

Stelpurnar mæta liði Hamranna í Kjarnafæðismótinu á morgun sunnudag klukkan 15:15 í Boganum og verður leikurinn í beinni útsendingu á KA-TV.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is