Dregið í undanúrslitum Kjörísbikarsins

Blak
Dregið í undanúrslitum Kjörísbikarsins
Endurtekning á undanúrslitaleikjunum í fyrra

Dregið var í undanúrslit Kjörísbikars karla og kvenna í blakinu í dag og voru bæði lið KA að sjálfsögðu í pottinum og eðlilega mikil eftirvænting í loftinu. Það eru landsbyggðarslagir framundan en karlalið KA mætir liði Vestra og kvennaliðið mætir Þrótti Fjarðabyggð.

Bikarhelgin fer öll fram í Digranesi í Kópavogi og leika karlarnir sína undanúrslitaleiki fimmtudaginn 9. mars. Fyrri leikurinn er viðureign Vestra og KA og hefst hann kl. 17:30 en liðin mættust einnig í undanúrslitum keppninnar í fyrra þar sem KA vann 3-1 sigur. Í kjölfarið mætast svo Hamar og Afturelding í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Konurnar eiga svo sviðið á föstudeginum 10. mars en fyrri undanúrslitaleikurinn er Völsungur gegn HK og klukkan 20:15 er komið að okkar leik þegar Þróttur Fjarðabyggð mætir KA. Rétt eins og hjá strákunum mæta stelpurnar sama andstæðing og í undanúrslitum í fyrra en þá vann KA 3-1 sigur á Þrótturum og hömpuðu í kjölfarið Bikarmeistaratitlinum eftir 3-2 sigur á Aftureldingu í úrslitaleiknum.

Úrslitaleikirnir eru svo laugardaginn 11. mars en úrslitaleikur karla er klukkan 13:00 og kvennaleikurinn er svo klukkan 15:30. Vonandi verður sama staða uppi og í fyrra þegar bæði lið okkar léku til úrslita.

Á sunnudeginum 12. mars eru loks úrslitaleikir yngriflokka og er KA með lið í þremur úrslitaleikjum af fjórum en stelpurnar í flokkum U14 og U16 leika til úrslita ásamt strákunum okkar í U16. Það stefnir því í svakalega bikarhelgi hjá okkur KA-mönnum og hvetjum við alla sem geta til að taka helgina frá og mæta í Digranesið til að styðja okkar lið til sigurs.

RÚV mun gera leikjum meistaraflokkanna góð skil og verða allir leikir karla og kvenna í beinni, bæði undanúrslitin og úrslitaleikirnir.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is