Darko Bulatovic snýr aftur í KA!

Fótbolti

Darko Bulatovic hefur snúið aftur í raðir KA en hann skrifaði undir samning út núverandi tímabil við knattspyrnudeild félagsins. Þessi 34 ára gamli Svartfellski bakvörður lék með KA sumarið 2017 og ansi gott að fá inn leikmann á miðju tímabili sem þekkir til félagsins.

Eru þetta ákaflega jákvæðar fréttir en Birgir Baldvinsson mun fara til Bandaríkjanna í nám á næstu vikum og því ljóst að það myndi vanta bakvörð í hópinn. Sumarið 2017 var KA nýliði í efstudeild og skoraði Darko fyrsta mark tímabilsins er hann kom KA í 0-1 gegn Breiðablik í 1-3 sigri. Alls lék hann 18 leiki í deildinni þetta sumarið og stóð heldur betur fyrir sínu.

Undanfarin ár hefur Darko leikið í Svartfjallalandi, Kasakstan, Albaníu og Serbíu. Hann lék á sínum tíma þrjá landsleiki fyrir Svartfjallaland og verður sterkt að fá inn reynslumikinn leikmann fyrir hinn mikilvæga síðari hluta tímabilsins.

Við bjóðum Darko hjartanlega velkominn aftur norður og hlökkum svo sannarlega til að fylgjast með framgangi hans í gula og bláa búningnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is