Tveir sigrar og tvö töp fyrir austan

Blak
Tveir sigrar og tvö töp fyrir austan
Það var hart barist fyrir austan (mynd: Jón Guðm.)

Karla- og kvennalið KA í blaki hófu leik í Mizunodeildunum um helgina er liðin sóttu Þrótt Neskaupstað heim. Fyrirfram var vitað að krefjandi leikir væru framundan en Miguel Mateo Castrillo og Paula del Olmo voru fjarverandi og erfitt að fylla þeirra skarð.

Kvennamegin kom það ekki að sök en stelpurnar unnu báða sína leiki um helgina 1-3 og liðið því á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Í fyrri leiknum sem fór fram í gær vannst fyrsta hrinan 18-25 en heimakonur jöfnuðu í svakalegri 29-27 hrinu. Í kjölfarið vann KA liðið 23-25 og loks 17-25 og leikinn því 1-3.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í leiknum með 26 stig en þar á eftir komu Gígja Guðnadóttir með 12, Luz Medina 9 og Arnrún Eik Guðmundsdóttir með 8 stig.

Í leiknum í dag tapaðist fyrsta hrinan 25-20 og virtist það kveikja mikið líf í okkar lið sem vann næstu þrjár hrinur afar sannfærandi, 16-25, 13-25 og 17-25.

Helena Kristín var aftur stigahæst í liði KA með 19 stig oig næstar voru Arnrún Eik með 11 og Gígja með 10 stig. Flott uppskera á erfiðum útivelli og gaman að sjá liðið standa sig jafn vel og raun bar vitni án Paulu del Olmo sem er algjör lykilleikmaður í liðinu.

Það var hinsvegar algjör andstæða karlamegin en þar töpuðust báðir leikir helgarinnar. KA liðið tefldi fram þunnskipuðum hóp og tapaðist fyrri leikurinn 3-0 en hrinurnar fóru 25-23, 25-16 og 25-15.

Alexander Arnar Þórisson var stigahæstur í liði KA með 18 stig en næstir voru þeir Gunnar Pálmi Hannesson með 7 stig og Hermann Biering Ottósson með 5 stig.

Í leiknum í dag tapaðist fyrsta hrinan 25-23 en strákarnir jöfnuðu metin með flottum 25-27 sigri í þeirri næstu. Það dugði því miður ekki því næstu tvær hrinur töpuðust 25-20 og 25-23 og leikurinn því samtals 3-1.

Alexander Arnar átti stórleik og gerði 27 stig, næstur kom Vigfús Jónbergsson með 7 stig og þeir Sölvi Páll Sigurpálsson og Filip Pawel Szewczyk gerðu 5 stig hvor.

Vissulega grautfúlt að vera stigalausir eftir fyrstu tvo leiki vetrarins en vissulega skiptir það miklu máli að það vantaði Mateo Castrillo í liðið og svo má heldur ekki gleyma því að töluverðar breytingar hafa orðið á liðinu og mun taka smá tíma að slípa liðið saman.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is