Tveir góðir sigrar fyrir austan

Blak
Tveir góðir sigrar fyrir austan
Frábær ferð austur hjá blakliðunum okkar

Karla- og kvennalið KA í blaki sóttu Þrótt Fjarðabyggð heim í gær en baráttan í úrvalsdeildum karla og kvenna er gríðarlega hörð og ljóst að tveir hörkuleikir voru framundan. Karlarnir hófu leikinn og var mikil spenna í fyrstu hrinu, KA leiddi en heimamenn voru aldrei langt undan.

Það fór svo að lokum að strákarnir náðu að knýja fram 21-25 sigur í hrinunni og tóku þar með 0-1 forystu í leiknum. Það virtist svo allt stefna í ansi öruggan sigur KA um miðbik annarrar hrinu í stöðunni 10-17 og 12-18 en Þróttarar gáfust ekki upp og þeir komust yfir á lokakaflanum í 23-22. En síðustu þrjú stig hrinunnar voru KA liðsins sem vann þar með 23-25 sigur og komið í 0-2 forystu.

Heimamenn í Fjarðabyggð reyndu hvað þeir gátu til að knýja fram aukahrinu og þeir leiddu fyrri hluta þriðju hrinu en jafnt og þétt tókst strákunum okkar að ná yfirhöndinni og að lokum vannst sannfærandi 19-25 sigur og þar með 0-3 samanlagt.

Mjög mikilvæg þrjú stig í höfn hjá KA liðinu sem sigur nú í 4. sæti deildarinnar en á leik til góða á Aftureldingu sem er þar fyrir ofan og framundan hörð barátta um sæti í úrslitakeppninni. Migu­el Mateo var stigahæstur með 15 stig og þeir Oscar Fern­and­ez og Al­ex­and­er Arn­ar Þóris­son báðir með 13.

Þá var komið að kvennaliðunum en KA er í harðri baráttu um Deildarmeistaratitilinn við lið Aftureldingar og þar fyrir aftan kemur einmitt lið Fjarðabyggðar. Stelpurnar okkar vissu það að þær þyrftu helst á öllum stigunum að halda og úr varð þrælskemmtilegur og spennandi leikur tveggja góðra liða.

Jafnt var á nánast öllum tölum í upphafi en frábær kafli KA liðsins sem breytti stöðunni úr 8-8 yfir í 8-16 lagði grunninn að sannfærandi 16-25 sigri í fyrstu hrinu og útlitið ansi gott.

En stelpurnar fundu engan veginn taktinn í annarri hrinu og heimastúlkur gengu á lagið. Að lokum vann Þróttur 25-13 stórsigur og staðan því orðin 1-1 og ljóst að KA liðið þyrfti að vinna næstu tvær hrinur til að missa ekki af stigi eða stigum í toppbaráttunni.

Þróttur komst í 8-3 og síðar 15-8 forystu í þriðju hrinu og allt útlit fyrir að heimastúlkur væru að komast í 2-1 forystu í leiknum. En það býr svakalegur karakter í okkar liði og stelpurnar voru svo sannarlega ekki á þeim stuttbuxunum að leggja árar í bát. Þeim tókst að minnka muninn í 22-21 áður en Þróttur komst í 23-21 fyrir lokakaflann. Næstu fjögur stig voru hinsvegar okkar og stelpurnar stálu þar með hrinunni með 23-25 sigri og komnar í 1-2.

Eftir það var aldrei spurning hvernig leikurinn færi en KA komst í 3-9 í upphafi fjórðu hrinu og munurinn jókst enn í kjölfarið. Mestur varð munurinn fimmtán stig í stöðunni 9-24 en lokatölur voru 13-25 og ansi dýrmæt þrjú stig í hús og KA þar með komið í 30 stig af 33 mögulegum á toppnum.

Tea Andric var stigahæst en hún átti stórleik með 26 stig en næst kom Paula del Olmo með 13 stig.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is